Beint í efni

Bláar dyr

Bláar dyr
Höfundur
Ása Marin
Útgefandi
Blekbyttur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Smásögur

Um bókina

Fimm konur á öllum aldri taka sig saman og skrifa 25 smásögur sem hér birtast á bók í þeirra eigin útgáfu. Sögurnar eru af margs konar toga og um alls konar fólk. (Úr káputexta eftir Hlín Agnarsdóttur)

Ása Marin á fimm sögur í bókinni.

Úr bókinni

Bréfið

Mávarnir garga fyrir ofan hann þar sem hann gengur siginaxla eftir bryggjunni. Hann kippir sér ekki upp við það, enda hefur hann gargað á sjálfan sig í gegnum tíðina. Gárurnar daðra við bryggjustaurana og gosflaska flýtur makindalega á leið út á miðin.
   Veðrið er grátt í stíl við bæinn. Loftið þykkt. Áður fyrr fór það í taugarnar á honum en núna finnst honum fínt að grái liturinn umlyki hann, samlagist honum.
   Hann tekur stefnuna á lítið timburhús með blámálaðri hurð. Fyrir ofan hurðina er máð skilti sem á stendur "Fiskur og franskar". Hann opnar dyrnar og horfir á Barböru. Af vana leggur hann hönd sína á brjóstvasann, eins og til þess að fullvissa sig um að hann sé með bréfið með sér. Þessar dyr hefur hann opnað nánast upp á hvern dag síðustu 26 ár. Komið inn fyrir og beðið um sérrétt hússins, fisk og franskar. Vitað að Barbara stæði bústin hinum megin við borðið og skammtaði honum hádegismatinn.
   Hann fer aftast í röðina og bíður þar til kemur að honum. Hún spyr hann sviplaust hvort hún geti aðstoðað hann. Án umhugsunar pantar hann það sama og hann pantaði í gær, það sama og hann mun panta á morgun. Meðan hún hefur til fiskinn horfir hann á hana. Fylgist með snörum og öruggum hreyfingum hennar. Hún lítur aldrei á hann, a.m.k. aldrei beint, en stundum flökta augu hennar yfir til hans eins og óvart. Hann tekur við matnum og sest út í horn. Borðar rólega og fylgist með Barböru og öðru fólki á staðnum. Aðallega Barböru. Hún spjallar við alla fastagestina, nema hann. Það spjallar svo sem enginn við hann. Ekki nú til dags. 

(s. 25-26)

 

Fleira eftir sama höfund

Að jörðu

   
Lesa meira

Búmerang

    
Lesa meira

Vegur vindsins

   
Lesa meira

Elsku sólir

   
Lesa meira

Yfir hálfan hnöttinn

   
Lesa meira

Og aftur deyr hún

   
Lesa meira
Hittu mig í Hellisgerði kápa

Hittu mig í Hellisgerði

Jólin eru ónýt hjá Snjólaugu. Barnsfaðir hennar ætlar að vera á Tenerife með dóttur þeirra allar hátíðarnar og Snjólaug sér fyrir sér ömurlega einmanalegt aðfangadagskvöld. En svo fær hún snilldarhugmynd: Hún ætlar að vera búin að finna sér kærasta þegar klukkurnar hringja jólin inn.
Lesa meira
Sjávarhjarta kápa

Sjávarhjarta

Viðar hefur staðið eins og klettur við hlið Díu sinnar í öllum þeim erfiðleikum sem hafa dunið á henni. Og þegar hann býður henni í unaðslega skemmtisiglingu um Karíbahafið þarf hún ekki að hugsa sig lengi um – jafnvel þótt ferðin sé handavinnuferð og hún hafi tíu þumalfingur. Mál fara þó að flækjast þegar dularfull og daðurgjörn kona úr fortíð Viðars skýtur óvænt upp kollinum á skipinu og fær Díu til að líta samband þeirra nýjum augum.
Lesa meira