Meðhöfundur er Auður Jónsdóttir. Þórarinn myndskreytti.
Um bókina:
,,Þessi dýrðarinnar dagur er fyrsti dagur sumarfrísins, framundan er algjört frelsi.
Með þessum orðum vekur hinn talandi hundur Lubbi eiganda sinn, Tinnu trassa, einn morguninn. Það eina sem skyggir á gleðina er nammibindindið sem mamma Tinnu hefur skikkað hana í - en hver tekur mark á slíku? Í brjálæðislegri súkkulaðiþörf æða Tinna, Lubbi og afi unglingur út í borgina í leit að pabba Tinnu sem leyfir allt. En borgin er hættuleg og mannlífið flókið - fyrr en varir eru félagarnir á æsispennandi flótta undan tískulöggunni og hyski hans og hinn rétti Guðjón Ísleifsson, öðru nafni pabbi, hvergi í sjónmáli.
Úr Algjöru frelsi:
,,Hlaupið hraðar, áður en móðir vor nær oss! kallaði Tinna trassi þegar þau voru komin spölkorn frá húsinu og skaskaut augunum á afa sinn sem var í þann mund að hníga niður af nmæði. Lubbi snarstansaði og mótmælti harðlega: ,,Við megum ekki stinga mömmu þína af. Og afi þinn fær hjartaslag ef við hlaupum svona hratt. Hún hægði á sér, leit á afa ungling og spurði hvort allt væri í góðu lagi.
,,Allt í keiji, blés afi hennar eins og hvalur.
En Tinna sá aumur á honum, staðnæmdist og benti afa sínum á að gera hið sama. Hann kastaði mæðinni meðan Lubbi leit sposkur á Tinnu og gelti: ,,Gömlu orðin vér og oss voru notuð á Íslandi í virðingarskyni þar til um miðbik tuttugustu aldar, ásamt þéringunni yður. Gestgjafi átti að taka svona til máls: ,,Má bjóða yður kakó? Ef gestina langaði í kakóið svöruðu þeir: ,,Vér þiggjum kakóið. Hvar lærðir þú þessi orð, fröken Tinna? Varla hjá nútímakonunni móður þinni.
Tinna trassi reigði sig hróðug: ,,Ég sé þau í undirtextunum í sjónvarpinu hans pabba, í bíómynd um frönsku byltinguna sem hófst árið 1789. Í Frakklandi voru líka notaðar þéringar og þar voru hausarnir höggnir af kúgurum í fallöxum. Kúgurum sem vildu ekki gefa fátæku fólki peninga fyrir súkkulaði. Pabbi leyfir mér að horfa á alls konar skemmtilegar myndir sem eru á bannlista hjá kúgaranum móður vorri.
(17-8)