Um Götumálarann:
Árið 1986 hverfur nítján ára Íslendingur á ferðalagi um Evrópu. Síðast heyrist til hans á Suður-Spáni þar sem hann segist lifa á því að mála myndir á gangstéttir. Þegar ekkert hefur spurst til drengsins í nokra mánuði halda systir hans og nmóðir suður í sólina tila ð reyna að finna hann – en undir niðri kraumar ótti um það sem leitin kann að leiða í ljós ...
Úr Götumálaranum:
Ég ráfaði eftir þröngum götunum, í gegnum völundarhús sem virtist engan enda ætla að taka. Loks rataði ég inn á torg sem mig rámaði í að hafa farið um með Karím leiðsögumanni. Það glitti í höfnina fyrir neðan.
Ég fékk mér sæti á kaffihúsi með bakið við máðan veggspegil og útsýni yfir veröndina og torgið. Þjónninn kom með glas af mjólkurkaffi og ég kveikti mér í sígarettu. Nú var um að gera að róa sig niður.
Torgið iðaði af manlífi, aðallega karlmönnum. Fæstir þeirra virtust hafa neitt sérstakt fyrir stafni, röngluðu bara fram og aftur örmjóar göturnar til og frá torginu. Hvar voru konurnar? Í vinnunni? Konan að þræla á meðan karlinn spókar sig í bænum? Bara nokkuð gott líf.
Hinum megin við götuna hékk maður uppi við vegg og starði út í tómið með sælusvip. hvað sá hann? Kannski ekkert. Kannski endalausa hassgarða.
Ég reyndi að róa hugann með því að rifja upp allt sem ég vissi um Tangier sem var ekki mikið. Eitthvað um að hún hefði verið fríhöfn í nokkrar aldir og raunverulegt sögusvið bíómyndarinnar Kasablanka. Rithöfu8ndurinn william Burroughs átti að hafa skrifað Naked Lunch hérna. Burroughs var í tísku hjá kaffihúsarottum í Reykjavík. Gott ef það var ekki hann sem hafði setið inni á hótelherbergi í Tangier og skotið í vegginn með skammbyssu á meðan hann skrifaði skáldsögu: PÁ, PÁ, PÁ ...
„Sæll, vinur minn.“
Ég hrökk við og leit upp. Skáhallt á móti mér sat maður í snjáðum gallajakka og skartaði kringlóttum Lennon-gleraugum með svo þykkum glerjum að augasteinarnir virtust á stærð við golfkúlur, hægri fóturinn lá makindalega fram á veröndina. Hann kinkaði kolli til mín eins og við værum gamlir kunningjar.
„Þetta var nú alveg ágætt þarna í Marakess um daginn.“
„Ég hef aldrei komið til Marakess. Þetta er fyrsti dagurinn minn í Marokkó.“
„Er það?“
Gleraugnaglámurinn brosti smeðjulega og hagræddi sér betur á stólnum, hann var búinn að fá svar við mikilvægri spurningu. Í sömu andrá tók ég eftir því að hinum megin við mig sat annar mauðr: væskilslegur náungi í þvældum jakkafatajakka sem brosti ástúðlega til mín. Hann brosti svo breitt að skein í silfurspangir í brúnum tanngarði. Spangir eins og fermingarbörn eru með, einkennilegar í munninum á fullorðnum manni.
„Jæja,“ hélt gleraugnaglámurinn áfram á ensku. „Hvað er svona yndislegur lítill drengur að gera einn síns liðs í Marokkó? Verða mamma og pabbi ekki hrædd um litla kútinn sinn?“
„Ég ...“
„Hann er á leiðinni til Kanarí!“ skrækti náunginn með spangirnar.
„Ha? Hvernig vissirðu það?“ hváði ég.
Maðurinn með silfurspangirnar hló hæðnislega. „Huuuu? Hvurnu vussuruuu þuuuuuð!“ urraði hann. Svo var eins og hann áttaði sig. Hann horfði grafalvarlegur á mig. „Heldurðu að við séum heimskir?“
„Ég ... Nei!“
„Ertu kannski rasisti?“
„Alls ekki!“
Fyrst núna tók ég eftir því að Gleraugnaglámur var langt kominn með að klára kaffið úr glasinu mínu. Honum svelgdist örlítið á þegar ég starði forviða á hann.
„Heyrðu. Það er smá vandamál,“ sagði hann.
„Vandamál?“
„Já, smá vesen. Ekkert stórt svo sem. Ég skulda þrjá mánuði niðri á hóteli, svo ég var að spekúlera í að biðja þig að lána mér eins og hundraðkall, svona af því að við erum gamlir vinir og svoleiðis.“
„Gamlir vinir? Ég hef aldrei séð þig áður!“
Gleraugnaglámur lagði kaffiglasið á borðið og rétti úr sér í sætinu. Svo hallaði hann sér yfir borðið í áttina að mér: „Sérðu glasið þarna? Ef ég brýt það á smettinu á þér sérðu aldrei Kanarí.“
(70-3)