Úr Birtunni á fjöllunum
Bátur leggur frá landi og hverfur inn í kvöldmyrkrið.
Eins dimmt og það verður í lok ágústmánaðar
Það er hægt að hugsa sér margt verra í þessu lífi en að sigla um straumléttan fjörð á dimmu, hægu ágústkvöldi, líða áfram og heyrist ekkert nema kæft muldur vélarinnar og þetta mjúka hljóð þegar stefnið ristir hafflötinn. Að sigla út fjörð með myrkur á báðar hendur, mjúka hreyfingu undir fótum; og maður heldur dýpra inn í kvöldið, fullur af kyrrð og slíkri sátt að sárasta sorgin er ekki annað en angurvær sviði.
Báturinn þumlungast áfram og þótt þröngt sé um fólkið, er eins og hver losni frá öðrum og svífi um í voðfelldu tómi, þar sem öll hljóð dagsins deyja og atvik lífsins stíga upp úr minninu líkt og þöglar myndir. Bílstjórinn veltir tóbakstöflunni ekki lengur uppí sér, hann bítur ekki jöxlunum saman heldur styður grófgerðri hendi á borðstokkinn, lygnir augunum aftur og er bara drengur í bakgarði þar sem grasið er mjúkt, ilmurinn höfugur og aldrei rekur ský fyrir sólu. Þannig sígur báturinn áfram, fullur af kyrrlátum draumum og kvöldið felur hann í skyggðum lófa sínum. Stöku sker rís svart uppúr sjónum, fugl hefur sig til flugs og hverfur.
Með hægðinni eykur Frömuðurinn inngjöfina, með gætni dregur hann fólkið úr djúpi draums og minninga og fer að segja frá flugi fugla og hvernig grasið rýfur snjóþekjuna að vori. Mjúklega opnar hann útsýni til horfins tíma og kveikir áhuga á fólkinu sem erjaði þetta harða land gegnum árhundruðin; af gætni minnir hann á þá fóstbræður, Snorra og Narfa.
Þegar báturinn skríður inn í Dimmuvík hefur hann siglt um myrkur sem angar af öræfum og úr víkinni sjást engin bæjarljós; þar er myrkrið án endimarka. Muldur vélarinnar hljóðnar, hin algera þögn sígur yfir og eitthvað bærir á sér í vitund fólksins; það koma sprungur í rökhyggjuna og inn sytrar óvissan, hikið, sem fylgt hefur manninum frá upphafi vegar. Hikið andspænis myrkri og þögn.
Og augu fólksins opnast.
Því þarna, innan um dimmleitt fjörugrjótið, blossa svipirnir upp, náhvít andlit sem birtast snögglega og hverfa jafnskjótt inn í myrkur. Sjáiði, hvísla sumir, en svo þorir enginn að benda eða segja meira. Fólk bara horfir. Aftur leiftra svipirnir, nú á öðrum stað, leiftra í þriðja sinn, í fjórða sinn og síðan ekki meir. Það slaknar örlítið á þandri spennunni, munnvatnið vætlar fram, eitthvað er sagt lágum hljóðum, en þá rýfur vælið kyrrðina.
Langdregið væl og fyrst greinir fólkið bara ömurleikann, en skynjar síðan hyldjúpa og klaksára örvæntingu. Svo deyr vælið út, hjaðnar niður í ámátlegt kjökur og fólkið sér þetta fyrir sér, hvernig Snorri hnýtur um fjörugrjótið, reynir að æpa um sekt en orðin slitna í sundur og flæða sem óp út um sundurskorinn hálsinn. Já. Síðan hefur Snorri hnigið niður, legið amrandi í fjörunni með Narfa yfir sér, fullan af þrjúhundruð ára gömlu hatri.
(s. 116 - 117)