Skáldsaga Knut Hamsuns, Sværmere (1904) í íslenskri þýðingu Jóns Kalmans Stefánssonar.
Af bókarkápu:
Loftskeytamaðurinn kom út árið 1904, var kvikmynduð níutíu árum síðar og er stundum sögð skemmtilegasta bók Hamsuns. Hún markaði ákveðin skil í höfundarverki hans. Stíllinn er ekki rökkurkenndur eins og í fyrri bókum heldur skýr, launfyndinn, en jafnframt með ljóðrænum undirtóni. Hér segir frá loftskeytamanninum Ole Rolandsen sem er sveimhugi, trúbador, drykkjusvoli, viðkvæmur slagsmálahundur og uppfinningamaður.
Úr Loftskeytamanninum:
Rolandsen situr í herbergi sínu og fæst við tilraunir. Hann sér út um gluggann að viss grein í vissu tré sveiflast til. Einhver hlýtur að skekja greinina en laufið er svo þétt að hann sér ekki hver það er. Og Rolandsen sökkvir sér aftur niður í tilraunir sínar.
En það gengur hvorki né rekur í dag. Hann grípur gítarinn og raular skemmtilegu harmljóðin, en nær ekki frekar að einbeita sér að því. Það er vor og Rolandsen er fullur af óþoli.
Elise Mack er komin, hann mætti henni í gærkveldi. Hann hafði verið stoltur og þóttafullur og ekki látið á neinu bera; það var engu líkara en að hún hefði viljað gleðja hann örlítið með vinahótum, en hann gaf ekki færi á sér.
Ég átti að skila kveðju frá loftskeytamönnunum í Rósagarði, sagði hún.
Rolandsen átti enga vini meðal loftskeytamanna, og sóttist ekki eftir því. Hún vildi undirstrika fjarlægðina á milli þeirra, en bíddu bara hæg, hann skyldi svara fyrir sig.
Þú verður einhverntíma að kenna mér á gítarinn, sagði hún.
Þetta var nú óvænt, og til að gleðast yfir; en Rolandsen forhertist bara. Hann sagði:
Sjálfsagt. Hvenær sem er. Ég skal lána þér gítarinn minn.
Og þannig kom hann fram við hana. Eins og hún væri ekki Elsie Mack; kona sem var meira virði en tíu þúsund gítarar.
Sama og þegið, svaraði hún. En við getum auðvitað æft okkur aðeins saman.
Taktu bara gítarinn.
Þá kastaði hún höfðinu aftur og sagði:
Ég kæri mig ekkert um að fá hann, hafðu mig afsakaða.
Hana sveið undan útúrsnúningum hans. En þá hvarf honum öll hefndarlöngun og hann muldraði:
Ég vildi bara gefa þér það eina sem ég á.
Hann dró hattinn niður að augum og gekk burt.
(23-4)