Bókin er sjálfstætt framhald Himnaríkis og helvítis sem kom út árið 2007.
Af bókarkápu:
Tíminn er stundum bölvað kvikindi, færir okkur allt til þess eins að taka það burt aftur. Það eru þrjár vikur síðan strákurinn kom í Plássið með stórhættulegan skáldskap á bakinu og vegalengdin milli Bárðar og lífsins eykst miskunnarlaust með hverjum degi.
Jens landspóstur er kominn í Plássið, rétt slapp undan norðanvindinum þótt komið væri vor. Saman fara þeir strákurinn yfir að Vetrarströndinni, það eru apríllok og snjókoman tengir saman himin og jörð, þurrkar út áttirnar og landslagið. Hafi djöfullinn skapað eitthvað í þessum heimi, fyrir utan peningana, þá er það skafrenningur uppi á fjöllum.