Beint í efni

DJ Bambi

DJ Bambi
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Bambi er 61 árs gömul trans kona sem vann áður sem plötusnúður en er í dag sérfræðingur í smæstu byggingareiningum mannslíkamans, frumum. Þetta er saga hennar frá því hún deildi móðurkviði með tvíburabróður sínum og þar til hún fór að taka kvenhormón. Auður Ava heldur hér áfram rannsókn sinni á kynjuðum heimi.

Úr bókinni

Ólíkt mér hefur bróðir minn aldrei átt erfitt með að sofna, hann á ekki erfitt með að sleppa tökum á deginum, ólíkt mér hræðist bróðir minn, sem réð sig í brúarsmíði þegar hann útskrifaðist sem húsasmiður og vann í nokkur ár við að smíða brýr yfir beljandi jökulvötn, ekki að fara yfir í annan heim, að fara yfir mörk, ólíkt mér óttast brúarsmiðurinn ekki að geta ekki snúið til baka.
   Það nægir honum að loka augunum.
   Á meðan ég beið eftir því að nóttin í nótt liði og af því að hugurinn ratar víða á andvökunóttum var ég áður en ég vissi af farin að hugsa um kyn orða. Það sem leiddi mig á þá braut voru kvenkynsorðin karlmennska og mennska. Ég fór því fram í eldhús, settist við eldhúsborðið og kveikti á tölvunni. Eftir stutta leit komst ég að því að karlmennska er líka kvenkynsorð á ýmsum öðrum tungumálum sem á annað borð hafa kyn. Eftir smá grúsk fann ég út að helmingur allra tungumála heims hefur kyn, allt frá einu kyni, eins konar samkyni, til tungumála sem hafa tuttugu málfræðileg kyn. Algengast er þó að tungumál hafi tvö kyn, kvenkyn og karlkyn, en sum hafa þrjú eins og íslenskan sem hefur líka hvorugkyn. Það kom mér á óvart að mörg tungumál virðast hreinlega hafa tapað kvenkyninu. Ég ákvað að kynna mér tungumál sem hafa tuttugu málfræðileg kyn betur í dagsbirtu.
   Til að kvelja sjálfa mig fór ég inn á baðherbergi, kveikti loftljósið, klæddi mig úr náttkjólnum og skoðaði mig í speglinum. Hann nær næstum niður á gólf svo ég stóð frammi fyrir sjálfri mér í heild minni og nekt. Fyrst ég var vakandi ákveð ég að taka mynd af sólarupprásinni. Sólarupprás og sólsetur eru þær vörður sem ramma inn daginn, var það sem ég sagði við sjálfa mig þegar ég sótti símann. Besta útsýnið yfir sólarupprásina, fegursta fjallasýnin, er einmitt út um baðherbergisgluggann og ég beið eftir roðanum í austri, að kringlótt sól birtist úti við sjóndeildarhring, mig langaði til að ná bleikri rönd yfir Bláfjöllunum, eins og geislabaug á portretti af dýrlingi, þar fyrir ofan yrði ljósblár himinn, það yrðu tveir litir sem ríktu yfir heiminum, bleikt og ljósblátt, eins og litirnir á teppunum á fæðingardeild Landspítalans þegar Kári Trausti fæddist.
   Ég á erfitt með að ímynda mér að mér hefði dottið í hug að taka mynd af sólarupprásinni áður en ég fór að taka kvenhormón. Eftir að ég fór að taka estrógen finnst mér líka eins og allt sé orðið mýkra, eins og brúnir heimsins hafi slípast til, eins og horn heimsins séu orðin rúnnuð og líka eins og allt í heiminum tengist, að ekkert í heiminum standi eitt, heldur sé sérhver hlutur og sérhver lifandi vera, manneskjur, dýr, plöntur og náttúran öll, hlekkur í keðju þar sem einn endi alheimsins er tengdur hinum enda hans og að tími og fjarlægð séu í raun einn stór misskilningur.

(s. 47-48)

Fleira eftir sama höfund

Afleggjarinn

Lesa meira

Rosa candida

Lesa meira

Svartur hundur prestsins

Lesa meira

Undantekningin – de arte poetica

Lesa meira

Weiß ich, wann es Liebe ist

Lesa meira
eden

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. 
Lesa meira

Dýralíf

Lesa meira

Stiklingen

Lesa meira