Beint í efni

Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir

Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir
Höfundur
Jón Kalman Stefánsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ljóð

Úr bókinni

Dagar okkar án þín 

 

Bleik rönd á morgunhimni í  

vestri, októbermyrkrið 

hefur hörfað, ég les 

um horfna tíma og finn þar brot  

úr týndu bréfi, skrifuðu snemma á  

sextándu öld, hugsanlega á Barðaströnd 

 

„Hér heilsast öllum vel, nema 

hjarta mínu, ég sakna þín svo ákaflega 

að fólk óttast um líf mitt. Dagar mínir 

án þín, þeir eru eins og … “ 

 

Þarna rofnar bréfið, annað hefur ekki  

varðveist, ritað af Ólafi, einhverjum Ólafi, 

skriftin vitnar um viðkvæmni og  

styrk, sem eru ekki andstæður, 

þvert á móti, náin systkini, 

stundum óaðskiljanleg. Meira 

vitum við ekki 

 

Annað en að viðkvæmni og styrkur 

eru ekki andstæður heldur það 

sem gerir manneskjuna fallega, fær hana 

til að elska af ákafa, sakna svo sterkt 

að það hreyfir við okkur fimm 

öldum síðar. Vitum ekki 

hver það var sem Ólafur saknaði, hversvegna 

þau voru ekki saman, hvernig 

það allt saman fór. Sú saga liggur einhverstaðar 

í lögum tímans 

 

Vitum ekki heldur hver 

Ólafur var, hvernig hann lifði, hvernig 

hann dó, vitum bara að hann saknaði 

svo ákaft að það var óttast um líf hans, 

svo ákaft að öllum þessum árum síðar 

öllum þessum lífum síðar, 

breytir hann bleikum morgunhimni í október 

í söknuð 

(bls. 17-18) 

Fleira eftir sama höfund

Hjarta mannsins

Lesa meira

Harmur englanna

Lesa meira

Himnaríki og helvíti

Lesa meira

Verschiedenes über Riesenkiefern und die Zeit

Lesa meira

Skáldskapur er ekki kanínur upp úr hatti

Lesa meira

Að breyta lífi: gestaskrif

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira

Umskiptingurinn

Lesa meira

Gullregn úr ljóðum Jóhanns Gunnars Sigurðssonar

Lesa meira