Úr bókinni
Dagar okkar án þín
Bleik rönd á morgunhimni í
vestri, októbermyrkrið
hefur hörfað, ég les
um horfna tíma og finn þar brot
úr týndu bréfi, skrifuðu snemma á
sextándu öld, hugsanlega á Barðaströnd
„Hér heilsast öllum vel, nema
hjarta mínu, ég sakna þín svo ákaflega
að fólk óttast um líf mitt. Dagar mínir
án þín, þeir eru eins og … “
Þarna rofnar bréfið, annað hefur ekki
varðveist, ritað af Ólafi, einhverjum Ólafi,
skriftin vitnar um viðkvæmni og
styrk, sem eru ekki andstæður,
þvert á móti, náin systkini,
stundum óaðskiljanleg. Meira
vitum við ekki
Annað en að viðkvæmni og styrkur
eru ekki andstæður heldur það
sem gerir manneskjuna fallega, fær hana
til að elska af ákafa, sakna svo sterkt
að það hreyfir við okkur fimm
öldum síðar. Vitum ekki
hver það var sem Ólafur saknaði, hversvegna
þau voru ekki saman, hvernig
það allt saman fór. Sú saga liggur einhverstaðar
í lögum tímans
Vitum ekki heldur hver
Ólafur var, hvernig hann lifði, hvernig
hann dó, vitum bara að hann saknaði
svo ákaft að það var óttast um líf hans,
svo ákaft að öllum þessum árum síðar
öllum þessum lífum síðar,
breytir hann bleikum morgunhimni í október
í söknuð
(bls. 17-18)