Úr Dragsúgi:
Blue Hawaii
Það er á horni Bayswater Road og Lækjargötu
sem tveimur skeggjuðum mönnum
gengur illa að finna orð
sem hæfa tíðarandanum,
en Kæra Susan,
nú hefur Charlie Mingus
slitið streng í hjartanu mínu,
mælir viðkvæmur liðþjálfi
í fjórðu herdeild hinna hugumstóru.
Nú get ég aldrei meir
tekið utan um þig af neinni
hringlaga sannfæringu.
Sviti elskendanna í úthverfi Zürich
sprettur út á hannyrðakonu í Laos,
málmblástursmaður í subbulegum
N-Noregskjallara
deyr beiskum dauða í rör sitt,
og af blöðum pálmanna, úr augum grátkvenna
renna skítug tár í
dósir merktar cat liver.
En það er á horni Bayswater Rd. og Lækjargötu,
að baki hverrar hríslu sem þær gægjast;
feimnu glötuðu meyjarnar,
jafn frísklegar og ferskjur sem
velta útaf, hillum ávaxtasala
hraðar en nokkur fær keypt.
----------------------------------------
Á Hólsfjöllum
Af hestinum
sem leiðist að bera mig
hlusta ég á brestina í fjöllunum.
Kippi í tauminn
við svarta krá
og bind hestinn við myrkrið.