Beint í efni

Hvíldardagar

Hvíldardagar
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Skáldsögur

Úr Hvíldardögum:

 Þegar ég ætla að halda áfram í átt að Volvónum, sem til allrar hamingju er enn á sama stað og síðast, sé ég móta fyrir manneskju sem kemur gangandi eftir götunni frá Umferðarmiðstöðinni. Mér sýnist þetta vera karl frekar en kona og hann virðist ganga í áttina að götuljósunum. Ég hægi ferðina og reyni að sirka út hvort ég verði kominn að Volvónum á undan honum. Mér finnst líklegt að við verðum staddir við bílinn á svipuðum tíma svo ég ákveð að taka beina stefnu á Umferðarmiðstöðina, í stað þess að eiga á hættu að það líti út fyrir að ég ætli að brjótast inn í bílinn.
 Útreikningur minn reynist réttur: hefði ég haldið óbreyttri stefnu hefði ég mætt manninum við bílinn. Þegar nokkrir metrar eru á milli okkar bjóðum við hvor öðrum góðan daginn, hann með því að kinka kolli og ég upphátt þótt ef til vill heyrist ekki mikið til mín. Mér finnst ég sem snöggvast fá staðfestingu á því að ég sé í rauninni af holdi og blóði; það fer ekkert á milli mála að annað fólk tekur eftir mér. þessi maður lítur út fyrir að vera að koma af Umferðarmiðstöðinni, hann er með stóra svarta tösku hangandi á öxlinni og á fótum hans eru dökkbrúnir göngu- eða fjallaskór.
 Við höldum báðir áfram göngu okkar, hann í vestur, ég í austur, og mér léttir að hann skuli ekki gera hlé á ferð sinni til að skoða bílinn. Mér finnst öruggara að láta draga í sundur með okkur áður en ég sný mér við, kannski hundrað til tvö hundruð metra, og læt mig því hafa það að ganga svolítinn spöl í átt að Umferðarmiðstöðinni. En þegar ég sný mér við, svona rétt til að athuga hversu langt maðurinn er kominn, sé ég að hann hefur snúið við og nálgast nú Volvóinn hraðari skrefum en hann fjarlægðist áðan. Ég tvístíg á malbikinu og veit ekki alveg hvað til bragðs skal taka. Hann hefur greinilega hugsað eitthvað svipað og ég; ákveðið að bíða á meðan ég fjarlægðist til þess að geta farið inn í bílinn ó ró og næði.
 Þetta er hugsanlega útlendingur. Hann stendur við hliðina á bílnum, horfir í kringum sig og teygir úr sér, eins og hann sé vakna eftir erfiðan svefn í tjaldi. Ég get mér þess til að hann sé að koma utan af landi, peningalaus og óánægður með heimsókn sína til Íslands. þegar hann opnar dyrnar farþegamegin fer ég yfir götuna, krýp á gangstéttinni og þykist vera að reima skóna mína. Eins og ég hafði búist við sest maðurinn inn í bílinn. Svo færir hann sig yfir í hitt sætið, undir stýrið. Það rifjast allt í einu upp fyrir mér að undir farþegasætinu er lítil handryksuga sem ég haði fengið lánaða hjá Andreu systur fyrir nokkrum vikum en var ekki búinn að skila vegna þess að eitthvað bilaði í henni þegar ég var að nota hana heima. Ég hafði ætlað með hana í viðgerð en það var búið að loka verkstæðinu þegar ég mætti með hana svo ég setti hana undir sætið til að hún sæist ekki utan frá.
 Þótt ég greini bílinn ágætlega er erfitt að sjá hvort maðurinn er að reyna að koma honum í gang eða hvort hann situr bara rólegur inni í honum. Einstaka bíll er farinn að sjást á Hringbrautinni og ég sé fyrir mér fólkið við stýrin, á leið til vinnu, nývaknað og lyktandi af rakspíra eða ilmvatni, með kveikt á einhverri útvarpsstöðinni. Ég hef líklega ekki tekið augun af Volvónum nema í nokkrar sekúndur en þegar ég horfi aftur í átt til hans er maðurinn aftur kominn í farþegasætið. Hann hraðar sér út úr bílnum, eins og hann hafi orðið fyrir einhverjum óþægindum, og skellir á eftir sér hurðinni. Svo sparkar hann í hurðina.
 Líklega ætti ég að reiðast yfir því hvernig maðurinn lætur en þess í stað er mér létt yfir að hann skuli vera kominn út úr bílnum. Ég ímynda mér að eitthvað hafi stungist upp í rassinn á honum og þess vegna hafi hann forðað sér svona fljótt út. Ég sé að hann klórar sér í höfðinu, kippir svo töskunni af húddinu og sveiflar henni yfir öxlina. Síðan gengur hann burt, í átt að hringtorginu við Þjóðminjasafnið. Ég stend upp, fylgist með honum fjarlægjast og geng síðan hægum skrefum að bílnum.
 Það er ekki að sjá að hann hafi hreyft við neinu í bílnum. Ég kveiki á viðvörunarljósunum, tek handryksuguna undan sætinu og geng með hana heim á leið. Öðru hverju sný ég mér við til að horfa á viðvörunarljósin blikka.

(s. 59 - 61)

Fleira eftir sama höfund

[Þrjú ljóð]

Lesa meira

Dragsúgur

Lesa meira

Við hinir einkennisklæddu

Lesa meira

Ansjósur

Lesa meira

Nöfnin á útidyrahurðinni

Lesa meira

Ljóð og smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Ljóð í Brushstrokes of Blue: The Young Poets of Iceland

Lesa meira

Isländisches Theater der Gegenwart

Lesa meira

Rómantískt andrúmsloft: 30 og eitt ljóð

Lesa meira