Úr Nöfnin á útidyrahurðinni:
Kennslustund í skóla
Við fengum í hendurnar örk með þrjátíu og sex mismunandi umhugsunarefnum. Hvert þessara þrjátíu og sex umhugsunarefna tók eina línu af blaðinu, ritað með gömlu Olivetti-ritvél kennarans sem hann hafði uppi á skrifstofunni sinni og var eins á litinn og jakkafötin hans. Þau einu sem hann átti, að minnsta kosti þau einu sem hann klæddist í vinnunni. Út af fyrir sig voru bæði ritvélin og jakkafötin hans verðugt umhugsunarefni.
Við nemendurnir, sem vorum nokkru færri en línurnar á blaðinu, þögðum allir sem einn þegar við renndum augum yfir þessar hugdettur kennarans. En ég tók eftir, þegar ég fylgdist með kennaranum á meðan ég var að lesa, að hann horfði gaumgæfilega yfir hópinn án þess að láta á því bera, og brosið í andliti hans var svo greinilega sett upp til að leyna ánægjunni og stoltinu yfir eigin verki.
Hvað vakir fyrir honum? hvíslaði einn nemandinn fyrir aftan mig. Vegna þess hvernig spurningin var orðuð fannst mér eins og hún hefði komið frá mun eldri manneskju en hún kom. Það var eitthvað fornt við hana, að minnsta kosti samræmdist hún ekki því sem maður var vanur að heyra úr munni þessa náunga fyrir aftan mig. En það sem raunverulega vakti fyrir kennaranum okkar var að hver og einn af nemendum bekkjarins veldi sér ákveðið efni af blaðinu, legði það á minnið en hugsaði ekki meira um það að sinni. Síðan átti hann að láta reyna á það næstu daga hvort efnið sem hann valdi sér dúkkaði upp í höfðinu eða, eins og kennarinn orðaði það, ylli sér heilabrotum eða ekki. Mér fannst þetta einhver sú allra bjánalegasta hugmynd sem ég hafði heyrt alla mína skólagöngu; maður velur sér einfaldlega ekki umhugsunarefni. Ekki tók ég það upp hjá sjálfum mér til dæmis, að verða ástfanginn af stærðfræðikennaranum sem tók við af Elínborgu þegar hún dó rétt fyrir miðsvetrarprófin. Það var bara eitthvað sem gerðist. Og það olli mér virkilegum heilabrotum.
Ég þoli ekki þetta orð, heilabrot.
(s. 43-44)