Beint í efni

Dýralíf

Dýralíf
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Sjöunda skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur gerist í vetrarmyrkri, rétt fyrir jól, þegar áður óþekkt lægð er í aðsigi. Á þriðju hæð við Ljósvallagötu býr ljósmóðir í íbúð sem hún erfði eftir einhleypa og barnlausa ömmusystur sína. Upp úr kassa undan Chiquita-banönum koma þrjú handrit sem ömmusystirin vann að, Dýralíf, rannsókn á því sem mannskepnan er fær um, Sannleikurinn um ljósiðog Tilviljunin.

Dýralíf fjallar um leitina að mennskunni í myrkrinu en einnig um þá jörð sem við skiljum eftir fyrir næstu kynslóðir.

Auður Ava hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin (2016) og bókmennta-verðlaun Norðurlandaráðs (2018) fyrir Ör og hin virtu Médicis-verðlaun í Frakklandi fyrir Ungfrú Ísland (2019). 

Úr bókinni

Flora Islandica

Ég sting lyklinum í skrána, opna dyrnar og þreifa eftir slökkvaranum hjá fatahenginu til að kveikja ljós. Það kviknar á ljósakrónu með kögri úr búi ömmusystur minnar, síðan blikkar peran nokkrum sinnum og það heyrist suð, líkt og þegar fluga flýgur á glóandi peru og gagnsæir vængir brenna upp og ljósið slokknar. Ég hef átt í vandræðum með rafmagnið í íbúðinni í nokkurn tíma, bæði perur og innstungur, og þetta er önnur peran sem fer á ganginum í vikunni. Ég renni niður rennilásnum á úlpunni og hengi hana á snagann, þreifa síðan á appelsínugulu, upphleyptu vínilveggfóðri eftir slökkvaranum í stofunni.
              Með íbúðinni sem ég erfði helmingshlut í fylgdi allt innbú. Í raun tvær búslóðir því þegar amma dó, var hluti af búslóð hennar fluttur til geymslu á Ljósvallagötuna og varð þar innlyksa. Það var mikill léttir fyrir móður mína að þurfa ekki að fara gegnum tvö dánarbú. Það skýrir líka hversu ósamstæð búslóðin er og sömuleiðis hvers vegna ég á tvö sófasett, annað vínrautt úr flaueli, hitt með gráyrjóttu ullarblönduáklæði.
              - Eins og þykkur þokubakki, segir systir mín. Það hefur lengi staðið til að taka íbúðina í gegn og systir mín hefur margsinnis boðist til að hjálpa til við að grisja búslóðirnar.
              - Þetta er eins og Rauða kross búð. Eða lager fyrir antíkbúð, segir hún og býður fram mág sinn í flutninga. áður en ég flutti á Ljósvallagötuna bjó ég á tímabili í leiguíbúðum víðs vegar um borgina og mágur minn hafði einu sinni flutt fyrir mig rúm og nokkra bókakassa í svörtum, gljábónuðum sendibíl, merktum útfararstofunni.
              Ég sef í tekkrúmi frænku minnar sem er ein og hálf breidd, eins og lítið hjónarúm, í svefnherberginu er líka skrifborð sem frænka mín sat við og grúskaði þar í ýmsum pappírum eftir að hún komst á eftirlaun og sömuleiðis tvö náttborð og kommóða úr tekki. Á gólfinu í einu horni svefnherbergisins, við hliðina á straubrettinu, stendur gömul tölva sem ég hvatti frænku mína til að kaupa og gerði tilraun til að kenna henni á. Hún minnir á lítið túbusjónvarpstæki. Í stofunni eru tekkhillur og skenkur með gömlu sjónvarpi og borðstofuborðið er sömuleiðis úr tekki.
              - Tekk og pluss, pluss og tekk, segir systir mín.
              Á stofugólfinu er teppi með gullrósum og fyrir ofan sjónvarpið hilla með tveimur postulínshundum og á milli þeirra ljósmynd af okkur nöfnunum saman sem tekin var þegar ég útskrifaðist úr ljósmæðranáminu, ég held utan um ömmusystur mína sem brosir út að eyrum og nær mér rúmlega í öxl. Hún hafði klætt sig upp fyrir tilefnið í svartan, silfursanseraðan kjól og var með hvíta perluhálsfesti og eyrnalokka, ég var í blárri buxnadrakt.
              Úr stofunni og eldhúsinu er útsýni yfir kirkjugarðinn en svefnherbergisglugginn snýr út að bakgarðinum með stétt og ruslatunnu. Þar vex líka gamall tvístofna hlynur.
              Í neðstu kommóðuskúffunni er saumadót frænku minnar, box með tölum, annað með títuprjónum og þrír nálapúðar. Tölurnar eru í málmkassa sem eitt sinn geymdi svissneskt súkkulaði, á kassanum er mynd af háu fjalli og grenitrjám í hlíðum þess, það er snjór yfir öllu, fullt tungl og stirnir á snjóinn. Í annarri skúffu eru skartgripirnir hennar og í baðskápnum varaliturinn, púðurdós og ilmvatnsglas. Öðrum megin í fataskápnum hanga fötin mín, hinum megin á slánni sparikjólarnir hennar. Ég nota viskustykki og hraðsuðuketil frænku minnar og er enn með gardínurnar sem hún saumaði og setti upp á áttunda áratugnum. Ísskápurinn er fjörutíu ára gamall og lekur ekki. Þegar ég flutti inn var hálfur kremkexpakki í eldhússkápnum, pakki af döðlum, blómkálssúpa og fimm óuppteknar Del Monte dósir með niðursoðnum ávöxtum, bæði perum og ferskjum.
              Íbúðin ber þess merki að frænka mín hafi verið handavinnukona. Það er útsaumaður púði á hverjum stól – systir mín taldi sautján púða – fjöldi klukkustrengja og bróderaðir dúkar. Á púðana hefur hún saumað út náttúruperlur á borð við Gullfoss og Dettifoss, sömuleiðis Almannagjá, Geysi og Keili, en einnig sýnishorn af Flóru Íslands, Flora Islandica, blágresi, túnfífil og holtasóley. Mesta athygli þeirra sem koma á Ljósvallagötuna vekur þó stórt útsaumað veggteppi sem hangir yfir sófanum og sýnir Maríu mey gefa Jesúbarninu brjóst. María er í rauðri kápu með bláu fóðri og horfir á barnið sem situr í kjöltu hennar á flöskugrænum flauelspúða. Barnið sem er nakið fyrir utan lendaskýlu lyftir höfði frá brjóstinu og ber þumalfingur að munninum. Brjóstið og það hvernig guðsmóðirin heldur um brjóstið og beinir því að barninu er aðalatriði og þungamiðja myndarinnar.

(s. 53-56)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Afleggjarinn

Lesa meira

Rosa candida

Lesa meira

Svartur hundur prestsins

Lesa meira

Undantekningin – de arte poetica

Lesa meira

Weiß ich, wann es Liebe ist

Lesa meira
eden

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. 
Lesa meira

Stiklingen

Lesa meira

Výhonek osmilisté růže

Lesa meira