Beint í efni

Dyrnar þröngu

Dyrnar þröngu
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Skáldsögur

Úr Dyrunum þröngu:

Til borgarinnar

Dyrnar þröngu heitir borg á Silkieyju, hún er fáum kunn. Hún liggur á miðri eyjunni sem er að mestu leyti óbyggð að strandlengjunni frátalinni en þar hafa myndarlegar borgir risið á síðustu áratugum vegna frábærra baðstranda. Mýkt hafsins er þekktasta ströndin en höfuðborg Silkieyju, Borgin blíða, stendur einmitt á nyrsta odda hennar. Dyrnar þröngu rekja hinsvegar sögu sína til frumbyggja Silkieyju sem gáfu staðnum nafn og höfðu þar jafnan nætursetu á þröngri en fjölfarinni leið gegnum eyjuna. Til Dyranna þröngu er sjö tíma akstur í suðaustur frá Borginni blíðu.
 Maðurinn minn og ég höfðum dvalið í Borginni blíðu og ferðast um nágrenni hennar í um það bil tvær vikur. Það litla sem ferðaskrifstofufólkið hafði sagt okkur af Dyrunum þröngu hafði vakið ákafa forvitni okkar, við vorum staðráðin í að heimsækja borgina áður en við yfirgæfum Silkieyju. Við höfðum verið á löngu ferðalagi um suðurhvel jarðar, vorum í þann veg að gera okkur klár fyrir heimferðina til Íslands og áttum bókaða vikudvöl í Dyrunum þröngu þegar maðurinn minn veiktist skyndilega en samþykkti ekki annað en að ég héldi ein af stað samkvæmt fyrri ferðaáætlun okkar. Hann varð eftir á þægilegu hóteli í Borginni blíðu sem er kunn fyrir góða læknisþjónustu.
 Ég hef ferðast ein og var laus við beyg og full eftirvæntingar um áfangastaðinn.
 Þegar til Dyranna þröngu kom stöðvaðist rútan á stóru mannauðu torgi. Við farþegarnir, fimm að tölu ásamt bílstjóranum, stigum út og sérkennilegur blámi mætti okkur. Töflur með götukortum litu sjálfkrafa til okkar og buðu okkur velkomin með viðkunnanlegri mannsrödd. Á hæsta turni torgsins sneri risavaxin klukka andliti sínu til okkar og mælti:
 - Tólf fimmtíu og fimm.
 Ekki var ég fyrr búin að veita klukkunni eftirtekt en undir pilsið fauk ylvolgur loftstraumur úr mjórri holu í gangstéttinni. Ég færði mig í snarheitum en lenti strax í sömu aðstöðu. Óvart fór ég að skellihlæja og samferðamenn mínir horfðu undrandi til mín, þess vegna gafst mér ekki færi á að segja hverslags var og einbeitti mér að því að láta ekki á neinu bera.
 Bílstjórinn opnaði geymsluhurðina og handlangaði farangurinn niður á stétt. Heiti straumurinn lét mig ekki í friði á meðan ég sótti töskuna, hann fylgdi hverju fótmáli mínu einsog einhver lægi undir gangstéttinni miðandi af nákvæmni ryksuguskafti með sugunni út uppundir mig, og hefði komið segulstáli fyrir í skóhælum mínum til að missa ekki sigtið. Ég var orðin feimin við einhvern sem ég vissi ekki hver var og bjóst við að mæta hvað úr hverju.
 Taskan mín var stór handtaska sem mátti bæði halda á og bregða á öxlina. Hún var úr leðri og rúmaði fyrirhafnarlaust vikuskammt af nærfötum, þrennar sokkabuxur, tvær blússur, aukapeysu, skó, slæður og nokkra vasaklúta. Hreinlætisáhöld og vasabrotsbók. Töflur við höfuðverk og dömubindi ef ske kynni að ég fengi blæðingar.

(s. 9-10)

Fleira eftir sama höfund

Draumar á hvolfi

Lesa meira

Hamingjan hjálpi mér I og II

Lesa meira

Gud hjälpe mig I och II

Lesa meira

Vi kommer att svara i Eran telefon - Við munum svara í síma yðar

Lesa meira

Einu sinni sögur

Lesa meira

Elskan mín ég dey

Lesa meira

Lokaðu augunum og hugsaðu um mig

Lesa meira

Sjáðu fegurð þína

Lesa meira

Ástarsaga 3 : lovestory #3

Lesa meira