Æviágrip
Kristín Ómarsdóttir er fædd 24. september 1962 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborg í Hafnarfirði 1981 og stundaði síðan nám í íslensku, almennri bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands. Kristín hefur dvalist í Kaupmannahöfn og Barcelona en býr nú og starfar í Reykjavík.
Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Hún hefur fengið fjölda tilnefninga til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, nú síðast fyrir skáldsöguna Milla (2012) og svo árið 2017 fyrir ljóðabókina Kógulær í sýningarglugganum. Hún hlaut Maístjörnuna, ljóðaverðlaun RSÍ og Landsbókasafns, árið 2018 fyrir Kóngulær í sýningarglugganum. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar sínar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form: myndbönd og skúlptúra.
Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.
Mynd af höfundi: Sveinbjörg Bjarnadóttir.
Frá höfundi
Frá Kristínu Ómarsdóttur
Ég var búin til af manni og konu sem fáar sögur fara af hvernig hittust og eignuðust svo mig óundirbúið og síðan tvö börn til viðbótar, meira og minna óundirbúið. Fyrir átti pabbi minn eitt barn en ég er fyrsta barn mömmu minnar sem kenndi mér að skrifa og tala og hugsa. Útafþví að hún kann að fara með orð á viðbrugðinn hátt, er blíðmálg, hvassyrt, með beitta kímnigáfu, ver sig með tungumálinu, skemmtir öðrum með því, notar það til að búa til varnarmúra, byggja brýr milli fólks og brjóta brýr, brjóta upp ástand, viðhalda ástandi, láta mann hlæja og gleyma sér. Skammast sín og hugsa. Hugga mann. Pabbi minn kenndi mér að reikna og nota sérstaka penna sem hann gaf mér í afmælisgjöf og líka þegar ég var lasin. Ég var oft lasin sem krakki, að minnsta kosti einu sinni að vetri. Ég ætlaði að fara að segja einu sinni í viku en það er lygi. Einu sinni í kvefpest kom pabbi heim með bókina Litla prinsinn og penna.
j´écris parce que je suis une invalide...
Fólk skrifar vegna þess að það er eitthvað að. Það er með sérkennilegt útlit, ekki heilt á geði, hefur orðið fyrir misnotkun, kann ekki að svara fyrir sig, er barnalegt, of alvörugefið eða öfugt. Lélegt í rúminu. Hefur litla sem enga kynþörf eða er kynfíklar. Lélegir þjóðfélagsþegnar, fúnkerar ekki í hóp, hefur eitthvað að fela, er grenjuskjóður. Elskar mömmu sína of mikið, eða einhvern annan of mikið, eða getur ekki elskað neinn. Dreymir mikið í svefni, er annað hvort sóðar eða með hreinlætisæði eða miðlungs hreinlegt. Dýrkar líkamann, dýrkar hann ekki. Er með minnimáttarkennd. Getur ekki að þessu gert. Af einmanaleik. Kann sér ekki hóf. Hefur eitthvað að segja um eitthvað sem það vill koma á framfæri.
j´écris parce que mon amour me désole...
My baby left me and i lost my mind and then i found this beautiful red raincoat - in a dream - and then i wrote this poem:
rauð regnkápa
mundi fara þér vel
værirðu hér
útí rigningunni
j´écris parce que je suis une chanteuse sans mélodie...
Þegar ég var lítil lék ég stundum mótorhjólastrák sem sat á mótorhjóli sem var draslhrúga uppá appelsínugulri kommóðu inní litla herberginu og var að tala við annan strák sem stóð þar hjá. Svo svissaði ég yfir í strákinn sem stóð þar hjá og talaði fyrir hann. Við áttum löng samtöl, ég og þessi strákur sem stóð þar hjá, ég og mótorhjólastrákurinn, á tungumáli sem var ekki til. Bara hljóð og taktur en ekki orð með merkingu.
Eins og sjampó býr til þau áhrif að hár hreinkast, vín að fólk hressist við. Súkkulaði að fólk róast. Þannig vil ég gera, búa til áhrif með orðum. Þó það líti út fyrir að vera fjarstæðukennt þá er það markmiðið. Verða sjampóuppfinningarmaður og vínframleiðandi, súkkulaðigerðarkona og smyglari.
Ég byrjaði að skrifa því ég var ekki góð í að tala. Þegar ég var tuttugu ára var þetta ómögulegt fyrir mig. Ég forðaðist ástir vegna þess hvað maður þarf mikið í ástum að tala og vita hvað maður vill með orðum, verbally. Hvers konar lífsgæði maður kýs til dæmis. Eins og að merkja við præoritís í könnun hjá Gallup nema ekkert er skriflegt. Enda enda ástarmál oftast með ósköpum. Ekkert er skriflegt þar.
Með árunum læknast maður smá og byrjar að tala hrein ósköp en þá eru skriftir orðnar vinna manns og maður stendur í skeytasambandi við heiminn. Og ætlar að fara að tala en þá hlusta fáir á mann nema ef maður talar vitlaust, eins og í búðum í útlöndum. En þá er gott að eiga góðan vin að. Og lesendur. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem hafa lesið bækurnar mínar og séð leikritin mín. Takk.
j´écris parce que j´aime la langue islandaise et tous les gens qui lisent mes livres. merci pour l´attention. i love your reading eyes...
Kristín Ómarsdóttir, 2001
Um höfund
Hér að neðan er að finna tvær greinar eftir Úlfhildi Dagsdóttur um verk Kristínar Ómarsdóttur. Til að lesa þá nýrri, smellið hér.
„Hæ, litla skrímsli, ég er komin aftur heim“ : Í ferðalagi með skáldskap Kristínar Ómarsdóttur
Mér fannst þessi orð úr fyrsta ljóði bókarinnar Inn og út um gluggann (2003), eftir Kristínu Ómarsdóttur, eins og töluð til mín, því mér finnst alltaf eins og hún sé komin heim þegar hún skrifar ljóð. Inn og út um gluggann er fimmta ljóðabók Kristínar og önnur bókin sem hún gerir í samstarfi við myndlistakonur, en þessi bók er samvinnuverkefni Önnu Hallin, Kristínar og Óskar Vilhjálmsdóttur, líkt og Sérstakur dagur (2000) var samvinnuverkefni Kristínar og ljósmyndarans Nönnu Bisp Büchert. Þannig er þessi bók, þó hún sé ekki mikil um sig því hvorki ljóð né myndir birtast í miklu magni, full af gleði og undrum sem felast annarsvegar í samslætti mynda og orða og svo náttúrulega líka bara í myndunum og ljóðunum sjálfum.
Stemningin minnti mig svolítið á 27 herbergi Rögnu Sigurðardóttur, enda skrifar hún formála að bókinni. Myndirnar snúast allar um leik með rými, og tengjast sýningu sem listakonurnar héldu í Ásmundarsafni. Gert hefur verið líkan af sýningarsal þessa fallega húss og svo er leikið með það líkan, það sett í ólíkustu aðstæður, inn í svínastíu, út á tún eða því er ekið inn á bráðamóttökuna. Og allt er þetta ljósmyndað.
Ljóð Kristínar eru að vanda skrýtin og jafnvel dálítið skrumskæld í anda líkansins. Sömu stefin eru endurtekin, við erum stöðugt stödd inni á vaxmyndasafni, hittum hafmeyjar og göngum yfir glerbrot. Hafmeyjartemað tengdi ég alltaf við Sundhöllina, en á sumum myndum minnti líkanið mig á þá fríðu laug. Erótíkin er aldrei fjarri frekar en fyrri daginn í verkum Kristínar og er að vanda ákaflega fjölbreytt – hinsegin, en kannski fyrst og fremst kynstruð, sker sig þvert á allar markalínur kynja og kyngerfa. Eitt ljóðið reyndar dregur upp hefðbundna kynjamynd, móðirin sem heldur á barninu af því hún er kona og faðirinn sem heldur utanum hana af því hann er karl og svo er smellt af „*kligg“, og myndin er tekin: „við tökum bara þessa einu mynd/aldrei fleiri“. Hér birtist okkur fjölskyldan, sem aðeins einu sinni stillir sér upp í hefðbundið mynstur, en fjölskyldan og samskipti innan fjölskyldunnar er einskonar leiðartema í skáldskap Kristínar. Einna skemmtilegust fannst mér ljóðin sem leika sér að rýminu á sama hátt og myndirnar. Í fyrstu tveimur ljóðum bókarinnar kemur þetta sérlega vel fram en þau hefjast bæði á því að ljóðmælandi klifrar upp á pínulítinn hól og horfir yfir landið. Strax í þessari línu koma fram skemmtilegar mótsagnir smæðar og stórfengleika. Í fyrra ljóðinu eru hermenn með byssur sem ætla að skjóta ljóðmælanda, en hún sleppur því út úr rassinum hennar „vex himinlangt skott sem teygir sig til tunglsins“ og festir hana þar. Svo klifrar hún niður af hólnum og oní holu: „Hæ, litla skrímsli, ég er komin aftur heim“.
Í seinna ljóðinu horfir ljóðmælandi á agnarsmáa krakka rúlla sér í grasinu og leika sér að örsmáum boltum. Skyndilega birtast „Grænar eðlur með rauða spúandi munna. Kellingar með lesgleraugu og sokkalausir karlar“. Þarna er ljóðmælandi örugg, það er ekki hægt að drepa hana af því sverðin eru títuprjónar og byssukúlurnar eins og brot úr hagléli. En samt deyr hún, fellur „fyrir aumri byssukúlu á stærð við pínulitla nögl“. Þessi ljóð, á sinn fullkomlega absúrd hátt, eru einkennilega sterk og áhrifamikil, sviptingarnar milli stærða, sviða og leiks og alvöru eru ótrúlega magnaðar og lesandi áttar sig varla á því að hermennirnir hafa sigrað, fyrr en ljóðið er lesið aftur, svo óvænt er fall ljóðmælanda. Undir lok bókarinnar virðist hjarta hennar komið á vaxmyndasafn, og sefur þar og á bágt, en það virðist allt standa til bóta því á morgun fær það títuprjónasúpu, kannski.
Þessa sérstöku sýn ljóða og mynda mætti kalla skjönun, en það er orð sem Geir Svansson tekur upp og endurnýtir í grein sinni um hinsegin sögur á Íslandi. (1) ) Þar notar hann ’skjönun’ sem einskonar hugtak yfir þá sýn sem einkennir hinsegin bókmenntir (og væntanlega aðrar menningarafurðir) og hinsegin fræði. Sögnin að skjöna merkir samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs: að skensa, sneiða að, hæðast að. Og álítur Geir að þær merkingar falli ágætlega að þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki hinsegin fræðum, en þar er skopstæling einn þátturinn. Samkvæmt Geir hafa hinsegin fræði það að markmiði að grafa undan kyngerfum og þarmeð sjálfsmyndum og það gera þau með því að draga fram innri óstöðugleika hugtakanna. Sem dæmi um það má taka hugmynd Judith Butler (byggð á kenningum Michel Foucault) að gagnkynhneigð sé háð því að til sé skýrt skilgreind samkynhneigð, sem gagnkynhneigðin getur aðskilið sig frá og bent á sem andstæðu sína. En málið er ekki svo einfalt, því um leið og andstæðan hefur verið sköpuð skapast óþægilegt vægi; ef ekki er til skýrt afmörkuð samkynhneigð er gagnkynhneigðin í hættu. Og út á þetta gengur svo skjönunin, að benda á að þessar aðgreiningar í gagn- og sam- séu of þröngar, því kynferði raði sér ekki í svo skipulega flokka. Þetta tengist svo einnig kyninu sjálfu, en með sömu röksemdum er dregið í efa að hægt sé að skipta heiminum upp í tvö kyn, að kyngerfi fólks sé mun fjölbreyttara en hin hefðbundna tvíundarhugsun gefur sér. (2)
Vangaveltur þessar falla einstaklega vel að skáldskaparheimi Kristínar Ómarsdóttur, en þar eru kyn, kynferði og kyngerfi í stöðugri upplausn. Strax í fyrstu bókinni, Í húsinu okkar er þoka (1987), kemur skjönunin fram, kannski sérstaklega í þeirri líflegu erótík sem gegnsýrir mörg ljóðanna. Ljóðin eru líkamleg, en þessi líkamleiki er einmitt eitt helsta einkenni skrifa Kristínar, og það er í líkamanum sem skáldkonan leitar að, og finnur, tungumál sitt og ljóðið. „Ég er kræklingur“ segir stelpan í „Hlaupastelpa“, „rækja og gella“. Sjávardýramyndmálið endurspeglar kynferði stelpunnar, með beinni tilvísun til kynfæra hennar: „Munnur minn er kræklingur/Skaut mitt á bragðið eins og rækja//Brjóstin hvít og mjúk/eins og gellur“. Í þessum fyrstu ljóðum kemur fram þessi leikur og þetta líf sem einkennir verk Kristínar; þar er alltaf eitthvað óvænt og aldrei neitt fyrirsjáanlegt.
Það er líka áhugavert að skoða þessi fyrstu ljóð Kristínar í samhengi við ljóð annarra skáldkvenna á þessum tíma (síðari hluta níunda áratugarins og fyrstu ár þess tíunda), en þar er ákveðin írónísk sjálfs-rýni sterkur þráður. Eða það var allavega niðurstaða mín í yfirlitsgrein frá árinu 1993 um ljóð yngri skáldkvenna, en þar fjallaði ég meðal annars um ljóð Kristínar, Lindu Vilhjálms, Margrétar Lóu, Steinunnar Sigurðardóttur og Vigdísar Grímsdóttur. (3) Í ljóðum frá þessum tíma myndast ný sýn á konuna; ný sýn kvenna á konuna. Þessi kona er ekki eins mikið að velta fyrir sér stöðu sinni í samfélaginu eins og hún er að kíkja á spegilmynd sína í hverju því yfirborði sem er tilbúið til að láta hana í té, og líka í þeim sem ekki gera það.
Annað einkenni á ljóðum þessa tíma er erótískt ’lesbískt’ myndmál í mörgum ljóðanna, sem birtist í spegluninni í öðrum konum: í líkömum annarra kvenna. Þessi margfeldni helst í hendur við nýja umræðu um sjálfvitund kvenna – sem síðan endurspeglar sjálfsvitund almennt – og tjáningu þeirra. Í stað þess að leita að sjálfsmynd í ímyndaðri heild, er vitundin byggð upp úr brotum, einskonar klippimynd. Brotakenndir líkamar bjóða upp á óvenjulega orðræðu, sögu í ljóði, upplausn bókmenntategunda, íróníska sjálfsrýni, nýtt líkamlegt tungumál kvenna um líkama sinn. Þetta tungumál getur verið hættuleg, byltingarkennt, stelpan í „Hlaupastelpu“ Kristínar Ómarsdóttur minnir á að tunga hennar kann að hvolfa hugsunum okkar og hugmyndum og hin fínlega írónía (og stundum ekki svo fínleg) dregur allt í efa.
Það mætti kenna þetta tungumál við það sem Geir Svansson kallar kyngerfisusla og í næsta verk Kristínar, smásagnasafninu Í ferðalagi hjá þér (1989) er kyngervið sett á flot og látið ’flæða’ ef svo má að orði komast. Þótt margar sagnanna lýsi gagnkynhneigðum samskiptum kynjanna, eru þau samskipti sjaldnast á hefðbundnum nótum. Aðrar sögur segja svo af skjönuðum samböndum af ýmsu tagi. Einkenni margra sagnanna er samspil andstæðna, fegurðar og ofbeldis, heillunar og hættu. Í sögunni „Ein kona“ segir frá fallegri konu sem á feiminn aðdáanda sem hún er vond við, hún segir margt ljótt við hann og „stundum ærðist hann úr hræðslu og snerist í hringi. Þá hélt ég á hnífi.“ Hún segist drekka blóð og augu og ata hann blóði sínu: „Ég bind þig fastan“ (32-3). „Stúlka frá tungli þar sem vaxa tré og margar sólir og kona frá landi“ er um samband tveggja kvenna, önnur kemur frá fjarlægu og undarlegu landi, og hin, sem er sögumaður, vill skilja hana betur og reynir að sjá drauma hennar. Hið fjarlæga land aðkomukonunnar virkar frekar raunverulegt þegar betur er að gáð, þar er brunað mikið, sem vísar beinlínis í nútímastress. Söguna má því sjá sem draum, og fjarlæga landið er veruleikinn. Sagan endar á að sögumaður hleypur burt frá konunni; frá fjarlæga landinu, veruleikanum, og sameinast nóttinni, draumnum: „Nótt haltu áfram að koma við mig, haltu alltaf áfram að koma við mig, komdu við mig og komdu við mig og komdu alltaf við mig nótt. Nótt láttu mig alltaf vera hjá þér“ (101). Nóttin er bæði persónugerfð og kvengerfð og er greinilega erótískt viðfang sögumanns.
Skjönunin birtist ekki aðeins í efnistökum Kristínar heldur einnig í nálgun hennar á form. Sögurnar í Í ferðalagi hjá þér eru oft stuttar, óljósar í forminu og svo hlaðnar samtölum að þær minna stundum á leikrit – en Kristín hefur einmitt einnig skrifað nokkur leikrit, sem almennt eru fremur óhefðbundin í laginu. Árið 1991 gaf hún út örsagnasafnið Einu sinni sögur, en örsagan er einmitt form sem stendur milli forma, og skjönar form ljóðsins og smásögunnar (skaðar sjálfsmynd þeirra?). Eins og Árni Ibsen rekur í umfjöllun sinni um bók Kristínar varð ákveðin sprenging í örverkaskrifum á fyrstu árum tíunda áratugarins. (4) En eins og hann bendir á, eiga örverk sér langa sögu í bókmenntum tuttugustu aldar.
Örsaga er, eins og áður sagði, prósaverk sem stendur mitt á milli ljóðs og smásögu. Örsagan getur í raun verið bæði ljóð og smásaga og það er gersamlega ómögulegt að ætla sér að ákveða einhver mörk hér eða koma fram með skýrar skilgreiningar. Örsagan getur búið yfir einkennum ljóðsins, að því leyti sem hún inniheldur myndmál, auk þess sem örsagan er oft ógagnsæ eins og ljóðið og býður upp á álíka hugarflug lesands. Og örsagan býr einnig yfir einkennum smásögunnar, en smásagan er yfirleitt skilgreind sem stutt saga sem fjallar um eitt atvik, oft er það atvik einskonar afhjúpun, varpar ljósi (stundum nýju ljósi) á allt lífshlaup sögupersónunnar. Vissulega er ekki mikið um lífshlaup persóna í örsögum, en á hinn bógin fjalla örsögur einmitt um eitt afmarkað atvik sem er á einhvern hátt afdrifaríkt.
Sérstaklega fellur örsagan þó að skilgreiningu Edgar Allan Poe, en hann er talinn hafa fyrstur skilgreint smásöguna sem sérstaka bókmenntategund. Samkvæmt Poe er smásaga saga í prósaformi sem er hægt að lesa í einu á hálftíma til klukkustund og takmarkast við ákveðin einstök áhrif, og öll smáatriði sögunnar styðja við þessi áhrif. En það er einmitt einkenni örsögunnar að hún snýst um að kalla fram ákveðin áhrif og allt andrúmsloftið, öll smáatriði styðja þessi áhrif. Því mætti hugsa sér að það eina sem skilur örsögu frá smásögu er formið, það er, hvað örsagan er stutt, en þá kemur á móti að formlega séð er hún óaðskiljanleg frá prósaljóði.
Sjálf segir Kristín að með örsögum sínum sé hún að leika sér að sögum, hún hafi reynt „að skrifa ástarsögu, mömmusögu, sorgarsögu og gleðisögu, klámsögu, unglingasögu, barnasögu, ævintýrasögu, morðsögu, kvöldsögu, dæmisögu“. (5) Árni dregur þá ályktun að svo virðist sem Kristín ætli sér ekki endilega að skrifa „sögur af fólki, atburðum og örlögum, heldur sögur sem hafa ákveðna eiginleika.“ Þannig eru sögurnar einnig sögur af sögum, og hver ’saga’ á sér ’sögu’, ef svo má segja. Afskaplega skemmtileg pæling og kemur fram á margan hátt í sögunum.
Sögur Kristínar í Einu sinni sögur eru bæði glaðar og spriklandi af óvæntum atburðum, sumar byrja eins og hefðbundnar sögur, á „einu sinni var“, eins og sagan af stráknum sem vinkaði mömmu sinni svo mikið út um bílgluggann á fína bílnum sínum að hann rotaðist:
Einu sinni var strákur að vinka mömmu sinni. Hann vinkaði henni og vinkaði henni. Stakk meira að segja höfðinu og öxlunum út um bílgluggann og vinkaði henni og vinkaði henni svo hún sæi nákvæmlega að hann var einmitt staddur á þessum mjög góða bíl úti að keyra. En hann þurfti mjög mikið að láta hana sjá sig og bílinn af því hann hélt hann væri ekki lélegur sonur ef hann væri að keyra á góðum bíl. Mamma hans stóð útá svölum og pírði augun þegar hann rak höfuðið í staur og dó. Síðan hefur þessi mamma verið sár út í fína bíla.
Sagan heitir „Jagúar“ og birtir vel þá margradda sýn sem einkennir texta Kristínar. Hér skiptast á gleði og sorg, húmor og svartur húmor, og ákveðinn tregi sem fylgir erfiðum samskiptum fólks, sérstaklega fjölskyldumeðlima, en slík samskipti eru algengt þema í verkum Kristínar.
„Jagúar“ er hrein örsaga, lítil saga um afdrifaríkann atburð. Sagan af dagatölunum og tárunum er sömuleiðis ’söguleg’, en þar er heilmikilli atburðarás komið til skila í örstuttu máli:
Dagatöl og tár
Og tárin komu frá Færeyjum og voru sótt þangað. Menn fóru á skipum. Tóku með sér stiga. Og þegar nóttin kom klifruðu þeir uppí trén í kirkjugarðinum og tíndu tárin, sem héngu á perlufestum utanum greinarnar, með hönskum og stundum með töngum.
Sá sem átti tár í hirslum sínum og fórum gat (ef hann vildi) gefið ástinni sinni margt.
Dagatölin voru geymd í skúrum. Þangað steig enginn fæti nema maðurinn sem reif dagana og konan sem tíndi upp póstinn.
Eina nóttina var öllum tárunum og dagatölunum rænt. Maður með gleraugu bauðst þá tilað uppvísa ránin og honum var þá líka rænt.
Þegar hann loksins fannst (mörgum dögum seinna og þá lá hann í gleymsku) gat hann ekki sýnt tárin sem hann hafði komist í kynni við og hann varð mállaus. Sat í skúr. Í stól. Las dagblað. En hann gerðist áskrifandi að því.
Og nú veit enginn lengur hvað varð um dagatölin og tárin.
Hér má greina tón sögulegrar sögu, í upphafi þegar sagt er frá hvaðan tárin komu, síðan breytist sagan í ævintýri þegar í ljós kemur hvernig tárin eru fengin og hvaða hlutverki þau gegna. Síðan koma dagatölin við sögu, og þá höfum við tvo ólíka söguþræði sem tengjast þegar öllu saman er stolið, dagatölunum og tárunum. Og þá breytist sagan í glæpasögu, því manninum sem tekur að sér að uppvísa ránin er líka rænt. Að lokum finnst hann, en er þá gleymdur og aftur kemur ævintýrið við sögu, því fundur hans við tárin hefur gert hann mállausan og þessvegna veit enginn hvað varð um dagatölin og tárin. Sagan endar því sem einskonar þjóðsaga, með því að enginn veit örlög þeirra tveggja fyrirbæra sem sagan fjallar um.
Aðrar sögur eru frekar vangaveltur, og standa nær ljóðinu eins og „Blómin á pilsum kvenna“, sem er líklega þekktasta saga safnsins:
Úr þokulúðrum skipanna fljúga blóm og lenda á pilsum kvennanna og festast. Ef kona er skapstór fljúga til hennar skærlita blóm. Ef róleg mild jarðleit. Ef hún er skemmtileg risastór og opin blóm. Ef hljóð og fer ekki útúr húsi laumast gleymméreiarnar að henni meðan hún sefur. Og hún vaknar í náttkjól með bláum blómum. Glatíjólur þegar kona er brjáluð. Peningablóm ef hún er nísk og gáfuð. Allar konur fá sinn rósartíma ef þær bíða. Og flugublóm ef þær skoða vel sig og sína. Ásttrylltar fá þær eldliljur um sig allar en ef kona er stelpa sem er kona sem er stelpa sem er alltaf að hugsa um kynlíf í fyrsta sinn setjast baldursbrár á pilsið hennar, hugg’ana/hræð’ana, hugg’ana/hræð’ana, hugg’ana/hræð’ana. Flamingóblóm koma þegar kona er að verða gömul.
Úr þokulúðrum skipanna fljúga blóm.
Hér er á ferðinni einstaklega falleg mynd, sem kallast á við vangaveltur mínar hér að framan um samsettar sjálfsmyndir kvenna. Konurnar spegla sig í blómunum, eða, blómin endurspegla konurnar, og þannig er hver kona sett saman úr mörgum blómum.
Þessi margfalda kvenmynd minnir svo á aðra sögu af mörgum konum úr Í ferðalagi hjá þér. Í sögunni „Margar konur“ er að finna margfalda móðurmynd, margar konur/mæður með eitt stúlkubarn sem þær ala upp, tuska til og dekra, og sagan endar á því að þær fljúga burt, og stúlkan verður ein:
Ég kveð þær. Vinka þeim lengi. Stend í grænum garði með mörgum trjám, sólstól, lítilli tjörn og einni önd. Ég á garðinn.
Ég á hann ein. (27-8)
Konan er, að sögn Freuds, hinn mikli leyndardómur, og Kristín skrifar mikið um konur. Henni er kvenleikinn hugleikinn, og þrátt fyrir að hún taki sér almennt ekki fyrir hendur að ’kanna stöðu konunnar’ að hefðbundnum femínískum hætti, þá er hún stöðugt að kanna stöðu konunnar, hlutverk hennar og tilveru, og beinir þá sérstaklega sjónum sínum að innri spennu og togstreitu milli tilfinninga og hlutverka. Þessi leikur með kvenleikann tengist svo leik með kynhneigð, og skjönun kvenhlutverka og kynhneigða fer svo saman við leik með form. Líkt og Kristín leikur sér með form örsögunnar kemst skrið á skáldsöguformið í átökum skáldkonunnar við það. Fyrsta skáldsaga hennar, Svartir brúðarkjólar (1992), einkennist af einskonar karnivalstemningu, þarsem að því er virðist venjulegt lítið bæjarsamfélag býr yfir ótrúlegustu fjölbreytni í mannlegum samskiptum. Sagan byrjar eins og ævintýri: „Það gengur stúlka í hvítum kjól eftir göngustíg. Í fótspor hennar spretta samstundis blóm.“ En hinu hefðbundna ævintýri er strax hafnað í næstu setningu, því það er ekki prins eða álíka hetjulegur ungur maður sem horfir á stúlkuna, heldur önnur stúlka: „líka hvítklædd, gengur spölkorn á eftir henni og tínir upp blómin“ (7).
vintýraprinsessan heitir Selma og býr yfir mörgum sérstökum hæfileikum, en er haldin ákafri sjálfsmorðsþrá og steypir sér ítrekað í sjóinn. Sú sem gengur á eftir Selmu, full af ást, er Fjóla, en hún stundar kynlíf með karlmönnum í kvikmyndahúsum. Móðir Fjólu, Sólveig, ætlar Selmu syni sínum Jóhanni, en hún er gift manni sem hneigist meira til karla en kvenna, en hefur gifst henni til að eignast börn. Þau ná að eiga fjögur áður en hann fer í siglingar, þrjár stelpur og einn strák og Sólveig heldur mest upp á soninn.
Ein stelpan, Signý, á mann sem líka fór í siglingar og syrgir hann mjög, en hún fær nýjan mann þegar faðirinn kemur heim með elskhuga sinn, Samúel, og giftir hann Signýu, en Samúel þráir að eignast börn. Og nú spyr ég eins og kynnirinn að Löðurþáttunum fyrir langa löngu: Eruð þið orðin nægilega ringluð? Fjóla og Selma taka upp eldheitt ástarsamband eftir að Fjóla bjargar Selmu frá drukknun og kyssir hana til að halda í henni lífi og Jóhann er sár, en þó ekki sárari en svo að hann hleypst á brott með vini sínum Ton. Þriðja systirin er búin að fá yfir sig nóg af öllu ruglinu í fjölskyldunni og lætur sig einnig hverfa, með ömmu Selmu, Karlottu, sem er spákona og hefur verið að ráða drauma Ingibjargar.
Og ekki halda að hringlandinn endi hér, en ég vil ekki gefa upp lokalykkjuna.
Á sama hátt og samskipti fólks eru með óvenjulegum hætti er sagan sett saman úr margvíslegum textum þarsem rödd söguhöfundar verður stöðugt meira áberandi, á einum stað kallar hann á persónur sínar til að vara þær við yfirvofandi ógn, en tekst ekki að ná til þeirra. Ljóð og söngvar eru áberandi og minnir sú textaflétta á notkun Steinunnar Sigurðardóttur og Vigdísar Grímsdóttur á ljóðum í skáldsögum frá svipuðum tíma. Sömuleiðis birtast okkur draumar og frásagnir, auk bréfa, sem ýmist eru send eða ósend. Karnivalstemningin kemur meðal annars fram í líkamleik sögunnar, en þar er mikið um líkamlegar og kynferðislegar lýsingar, á samförum og líkamshlutum. Einnig ljá söngvarnir sögunni einskonar sveiflu, auk þess sem inn í söguþráðinn blandast framandi stemning í krafti siglinga föðurins og elskhugans og frásagna af þeim. Bærinn, sem í fyrstu virðist fremur dæmigert íslenskt fiskiþorp, verður því ævintýralegt svið – eitthvað sem lesandann ætti reyndar að renna grun í strax, því snemma í sögunni kemur í ljós að við aðaltorgið standa tvö ráðhús.
Þessi fantastíska sýn einkennir öll verk Kristínar, jafnt ljóð sem prósa. Á stundum er um hreina fantasíu að ræða en yfirleitt birtist hún sem sýn, sjónarhorn, kannski sem einskonar allsherjar skjönun sem gengur ekki aðeins yfir kyngervi og kynhneigð, heldur yfir sögusvið og hugmyndir um veruleika. Þannig er fantasía Kristínar alltaf virkjuð í þágu þess að sjá hlutina upp á nýtt, kollvarpa viðteknum viðhorfum og viðmiðum og leggja í þeirra stað nýjar línur.
Einna lengst gengur fantasían í annari skáldsögu Kristínar, Dyrnar þröngu (1995). Skáldagan vakti mikla athygli, en það er sagan sem Geir Svansson tekur sérstaklega fyrir í grein sinni um hinsegin sögurnar og Eiríkur Guðmundsson gerir henni einnig góð skil í yfirlitsgrein sinni um nokkrar skáldsögur ársins. Það er reyndar eftirtektarvert að Kristín er höfundur sem mikið hefur verið fjallað um, eins og sjá má af listanum hér á síðunni yfir greinar og umfjallanir. Kristín myndi frekar teljast jaðarhöfundur, verk hennar njóta almennt ekki almenningshylli, en eru greinilega uppspretta vangaveltna fræðimanna, sem, samkvæmt hefð, gefur þeim heilmikið bókmenntalegt vægi.
Dyrnar þröngu er sú skáldsaga Kristínar sem gengur hvað lengst í að ganga þvert á form og hefðir í sagnaskáldskap. Sagan er nokkuð óaðgengileg en vel átakanna virði og segir frá ferð Þórunnar Björnsdóttur til borgarinnar Dyrnar þröngu, en þar lendir hún í og veldur heilmiklum kyngerfisusla. Geir lýsir sögunni þannig að „þrátt fyrir myrðingar og misheppnaðar ástfarir“ þá ómi í textanum „jákvæðni, leikgleði, frelsi frá fortíð og óttaleysi við framtíð.“ Og hann ítrekar hina fantasísku hlið og segir: „frásagnarrýmið er að vísu ekki „raunsæislegt“ heldur draumaheimur og fantasía, nokkurskonar ævintýraland.“ (6) Ævintýralandið er líka undraland, en sagan kallast á við söguna af Lísu í undralandi, enda eru flestar persónur sem Þórunn hittir tvívíðar táknmyndir. Tvær þeirra, Ágúst og fröken Sonja Lísa Hrís, virðast standa fyrir hefðbundnar kynjamyndir, en þau þrá Þórunni bæði ákaft. En þegar til á að taka „reynast þær stöðluðu manngerðir, sem Þórunn hittir í upphafi bókar, gæjinn og piparmeyjan, ekki eiga sér stöðug kyngervi.“ (7)
Eiríkur Guðmundsson ræðir skáldsöguna einnig útfrá kenningum um kyngervi og þá sérstaklega í tengslum við kenningar Michel Foucaults um þá orðræðu sem mótar hugmyndir okkar um kyn, kynferði, kynhneigðir og kyngervi. (8) Þó túlkun hans á sögunni sé að nokkru leyti ólík umræðu Geirs, eiga lestrar þeirra það sameiginlegt að skoða hvernig fantasían (og/eða súrrealisminn samkv. Eiríki) brýtur upp hefðir og viðmið og býður upp á aukið frelsi í tjáningu og tökum á atburðum og atburðarás. „Annarsvegar stendur skáldsaga Kristínar föstum fótum í veruleikanum,“ segir Eiríkur, „hinsvegar gefur höfundur honum langt nef með því að fjalla um heim staðleysunnar sem í þessu tilviki er gegnsýrður af orðræðu kynferðisins.“ (9)
Í upphafi er kynntur til sögu eiginmaður Þórunnar, en þau hjónin eru á ferð um Sikiley þegar eiginmaðurinn veikist. Hann hvetur konu sína eindregið til að halda ferðinni áfram og heimsækja hina spennandi borg, sem þau hafa lesið svo mikið um og þannig æxlast það að Þórunn fer ein til Dyranna þröngu. Eins og áður sagði er fjölskyldan og samskipti fjölskyldumeðlima, sérstaklega hjóna og foreldra og barna, algengt tema í verkum Kristínar, og er beinlínis viðfangsefni löngu smásagnanna tveggja í Hamingjan hjálpi mér I og II, en þar er lýst erfiðum og óvenjulegum fjölskyldumynstrum. Þetta tema er minna áberandi í Dyrunum þröngu, þarsem konan er ein á ferð, en samt er lesandinn ávalt minntur á að Þórunn er „ábyrg fjölskyldukona sem hefur áhyggjur af magaveikum og fjarstöddum manni sínum og ellefu ára dóttur“. (10)
Fjölskyldutemað er hinsvegar alltumvefjandi í næstu skáldsögu Kristínar, Elskan mín ég dey, sem segir, líkt og Svartir Brúðarkjólar, frá fjölskyldu í sjávarþorpi sem virðist dæmd til að farast, og flytjast inn í himnaríki. Þegar sagan hefst eru móðirin og elsta systirin þegar dánar, en nú hefur yngri systirin Jóhanna framið sjálfsmorð og eftir lifa aðeins karlkyns meðlimir fjölskyldunnar; örlög þeirra virðast ráðin þegar faðirinn deyr.
Sem fyrr er frásagnartækni Kristínar Ómarsdóttur sérstök og þrungin fantasíu, en í stað hefðbundinnar sögu eða atburðarásar er textinn drifinn áfram af margvíslegum smáatvikum og litríkum lýsingum sem jafnframt því að taka á sig sjálfstætt líf, fléttast inn í söguþráðinn og toga hann áfram.
Dæmi um þessar litríku lýsingar er himnaríkið, en það er bar sem rekinn er af Guði. Guð hrekkur við í hvert sinn sem einhver leggur nafn hans við hégóma, það er, notar það sem upphrópun, svosem: ’Guð hvað mér brá’. Guði til aðstoðar eru fljúgandi englar, og hann heldur registur yfir gesti sína þarsem hann skráir inneignir og skuldir, debet og kredit, og gefur hegðunareinkunn. Þeir sem haga sér illa eru settir í að pússa glös, þeir sem standa sig vel fá að velja lög í glymskrattanum og drekka frítt á barnum. Við eitt borðið er kíkir og flókinn nýtísku tækjabúnaður sem gerir liðnum kleift að fylgjast með lífi eftirlifenda og við annað borð situr engill og skrifar stöðugt, líklegast fjölskyldusögu úr sjávarþorpi.
Skilin milli fantasíu og veruleika eru lítil sem engin og skiptir þar miklu notkun tungumálsins, en stíllinn tekur oft á sig súrrealískan blæ í þeim fjölmörgu óvæntu og fjölæru myndlíkingum sem þar leika lausum hala. Gáfur ágústhiminsins felast í því að hann leikur sér með skýjahnoðra. Myrkur ágústmánaðar er nýkomið úr sumarfríi og veruleikinn hefur tennur, og þeim fækkar þegar málin óskýrast eins og aðalsögumaðurinn Högni bendir á snemma í sögunni: „Ég gerði ráð fyrir að um það bil tíu tennur vantaði í þrjátíuogsex tennur veruleikans. Þær lægju grafnar og faldar í skúmaskotum víðsvegar í sýnilegu og sýndarlegu rými hússins“ (57).
Þessi spurning um hið sýnilega og sýndarlega rými er einmitt kjarni málsins þarsem höfundur leikur sér með andstæður og lætur þær skarast og renna saman í sýnilegu og sýndarlegu rými skáldsögunnar. Sá óhugnaður sem liggur eins og rauður þráður í gegnum alla söguna vegna yfirvofandi útþurrkunar fjölskyldunnar er ævinlega blandaður ljúfsárum trega og lúmskum húmor. Á sama hátt er ástinni ævinlega ógnað með þráhyggju sem síðan liggur á mörkum sifjaspells í stöðugri togstreitu systkinanna um ást foreldranna. Erótíkin sem einkennir alltaf texta Kristínar er hér allsérstæð þar sem hún kemur fyrst og fremst fram í nákvæmum og þokkafullum lýsingum á þvotti og sérstæðum umbúnaði á líkum fjölskyldumeðlimanna, og þannig rennur erótíkin saumlaust saman við óhugnað.
Þetta samspil óhugnaðar og leiks einkennir líka ljóð Kristínar. Sex árum eftir útkomu fyrstu ljóðabókarinnar, birtist sú næsta og bar titilinn Þerna á gömlu veitingahúsi (1993). Sem fyrr einkennast ljóðin af leik, í samspili við þemu dauða og sársauka, sem Kristín heldur áfram að kanna. Þetta samspil kemur strax fram í fyrsta ljóðinu, „Dúfurnar hvítu“, en þar er því lýst hvernig dúfurnar heima hjá ljóðmælanda eru hvítar sem segl, og þær leika gardínur meðan hún sefur og vakir og ást hennar ef hún deyr. Þarna birtist undarlegur tregi, en hefðbundin tákngerving hvítu dúfunnar er guðleg, til marks um sátt. En þessar dúfur virðast fremur þjóna því hlutverki að fela ljóðmælanda – bak við gardínur – hylja hana með blæju, sem breytist í líkklæði í lokin, og í lokaorðunum felst bæði sorg og gleði: ástin kemur ekki fyrr en eftir dauðann, en hún lifir hann líka af. Og hvað eigum við að hugsa um ljóðið „á heitum degi“ sem lýsir því hvernig fjöldi hvítra blindra kvenkanína sýgur upp orðin sem ljóðmælandi skilur eftir á borði í garðinum, meðan hún nálgast „berfætt/með eyrnahlíf/og loðinn riffil“. Það er ljóst að ljóðmælandi samsamar sig kanínunum að einhverju leyti (eyrnaskjólin og loðni riffillinn) en samt ógnar hún þeim. Enn er fantasían á flugi og snýr öllu á hvolf, úr þessu ljóði verður trauðla greitt.
Álíka óleysanlegar ljóðþokur mæta lesanda í næstu ljóðabók Kristínar Lokaðu augunum og hugsaðu um mig (1998). Sem fyrr festist lesandi við skrýtnar og skemmtilegar myndir eins og lýsingu á garði, þarsem „rifsið dreyfir sér um allt eins og ölvuð ljósker“. Hið ölvaða rifs er úr ljóðinu „Afskiptir hnífar“, en það er eitt af mörgum ljóðum bókarinnar sem fjallar um ást og mat og líkama. Það er svosem ekkert nýtt við það að gera samlíkingar milli matar og ástar, en Kristín kreistir ferskt blóð úr þessu myndmáli, enda er blóð hennar tómatsósa eins og kemur fram í einu ljóðinu.
Í því ljóði birtist einmitt sú sérstaka líkamlega stemning sem fylgir notkun Kristínar á líkingamáli matar og kynlífs, en í ljóðum hennar verður matur bókstaflega að líkama og líkaminn að mat, sítrónubrjóst fá nýja merkingu í ljóðinu „Sítrónubrjóst“, hver vökvi á sér sína stund og sín líkamlegu einkenni í „Stund vökvans“ og í ljóðinu „Prótein“ elda konur mat handa mönnum sínum til þess að þeir geti framleitt prótein til að sprauta í líkama þeirra. Og það ljóð er skylt ljóðinu um afskiptu hnífana, en þeir eru afskiptir vegna þess að próteinframleiðandinn er fjarri. Ljóðið er einskonar hvatning til hnífa, sem ekki eru brýndir því eigendur þeirra nota mikið heimsendingaþjónustu og elda þarafleiðandi takmarkað. Í fyrstu er ákallið sakleysislegt; hnífana verður að brýna svo ástkonan geti matbúið fyrir ástina sína, síðan eru hnífarnir tengdir karlmanninum sem skilað getur próteinunum aftur inn í kvið eldhúseigandans, en sú athöfn fær fljótlega hliðstæðu í matbúningi þarsem grænmeti er sneitt með beittum hníf oní maga hinnar elskuðu. Og þar er eins og sú ógn sem óbrýndu hnífarnir buðu óljóst uppá í byrjun blómstri í hugmyndinni um óþægilega beinan og milliliðalausan aðgang grænmetis að maganum. Þessi ímynd ísmeygilegs hryllings er kunnugleg úr fyrri verkum Kristínar, þarsem hún bregður upp myndum sem eru allt í senn, fallegar, óhugnanlegar, fyndnar og sorglegar. Í fyrsta ljóðinu, „Kveðja“, er mynd af dánu jólatré í barnalíkkistu; án sængur, kodda eða skrauts er þessi hugmynd um lítið dáið jólatré í líkkistu í senn fyndin og tragísk, en kannski fyrst og fremst falleg í einfaldleik sínum.
Í ljóðinu „Þula“ gefur titillinn tóninn, án þess þó endilega að ljóðið sé svo þululegt. Í því ljóði kemur einmitt fram sú skemmtilega nálgun á tungumál og myndmál, fantastískt og furðulegt, sem einkennir skáldskap Kristínar og gerir hann að svo ógleymanlegri lífsreynslu. „Þulan“ er ljóð um myndmál, þarsem hverju laginu á fætur öðru er flett ofan af upphafsmyndinni, sem er af skrefum í vatni. Vatnið er dulbúningur og þegar því er flett burt finnst fluga sem gleypti skrefin en breyttist við það í pínulitla stelpu á stærð við nögl sem grenjar í lófa þínum.
Áðurnefnd ljóðabók, Sérstakur dagur, fylgdi Lokaðu augunum eftir, en hún er eins og áður er sagt einnig ljósmyndabók. Í bókinni er safn áður birtra og nýrra óbirtra ljóða og ýmist eru ljóðin samin við myndirnar eða ljóðin valin við myndirnar. Það sannast hér, sem reyndar var orðið löngu ljóst að Kristín er einn af okkar albestu rithöfundum og ljóðið leikur í höndum hennar. Eitt ógleymanlegt ljóð fjallar um „Rúmið mitt“: koddinn er fullur af ófæddum draumum, sem deyja í fæðingu ef óvænt hljóð heyrist, svo sem öskur úti á götu, utan á sænginni er púður sem kviknar í við minnstu snertingu óvinarins, lakið er dúkur, svo ef guð verður svangur þá ligg ég hérna einsog fiskur á fati. Og dýnan er til skiptis full af peningum og heyi. Sömuleiðis minnir Kristín okkur á í öðru ljóði, „Varúð“, að myndavélar og svefn eiga ekki saman, ef sofið er í svefnherbergi með myndavél breiða vel yfir hana, og ekki sofa í ljósmyndastúdíói, myndavélabúð, kvikmyndaveri, lyftu, speglabúð, hraðbanka og breiðið vel yfir linsurnar líka. Myndin sem fylgir þessu ljóði er af fiskhausum með starandi augum. Í þessum ljóðum er spilað á tilfinningar sem allir kannast við, annarsvegar öryggi rúmsins og svefnherbergisins, og hinsvegar þessi tilfinning, að liggja á strekktu laki í rúmi er álíka og að liggja á dúkuðu borði sem veislumatur. Hinsvegar er þetta öryggi rúms og svefns brotið upp af tilfinningunni um að verið sé að horfa á þig meðan þú sefur, eitthvað sem er óþolandi, svefninn er örugg höfn og þar á ekki að vera að skoða þig, innrás myndavéla og augnlinsa í svefnherbergið og svefninn, kíkja á draumana. Einnig birtist þessi dásamlega hugmynd um að sofna hér og hvar, eins og til dæmis í beinni útsendingu.
Sem fyrr eru ljóð Kristínar fyndin en samt ekki eitthvað grín, því iðulega er mjög alvarlegur undirtónn. Þessi margröddun endurspeglast svo í myndunum, sem eru einmitt uppfullar af óvæntu myndmáli, óhugnaði og trega. Beiting tungumáls og myndmáls er hinsvegar alltaf óvænt og glöð, en hæfileiki Kristínar liggur ekki aðeins í því að draga fram sérstakar aðstæður og opna nýja sýn á hversdaginn, heldur hefur hún þann sérstæða hæfileika að finna og fanga einhverja gleði í tungumálinu sem getur ekki annað en hrifið lesandann með í ferðalag.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2003.
Tilvísanir
(1) Geir Svansson, „Ósegjanleg ást: Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“, Skírnir, haust 1998, bls. 476-527.
Greinin er mjög áhugaverð, bæði fyrir þá kynningu á nýju fræðasviði sem þar kemur fram svo og fyrir úttekt Geirs á því hversu lítið hefur verið fjallað um hinsegin þætti í verkum þeirra höfunda sem hann tekur sem dæmi, en það eru Vigdís Grímsdóttir, Guðbergur Bergsson og Kristín Ómarsdóttir.
(2) Þessi orð kyngervi og kynferði eru erfið viðureignar og eiga sér þvælda hugtakasögu á íslensku. Hefð er fyrir því í kynjafræðum að tala um ’sex’ og ’gender’ sem aðskilda hluti – sbr. þú fæðist ekki kona, þú verður kona, og er þá ’gender’ félagslegi þátturinn, meðan ’sex’ stendur fyrir hið líffræðilega kyn. Á íslensku hefur þetta verið þýtt sem ’kyn’ og ’kynferði’, en ég er sammála gagnrýni Geirs Svanssonar á það hugtak og kýs að nota það sem hann býr til, en það er ’kyngervi’ yfir félagslega mótaða kynið og kynhlutverkið, en kynferði yfir það sem á ensku kallast ’sexuality’, sbr. að eitthvað sé kynferðislegt.
(3) Greinin nefnist: „Appelsínur, kræklingar og kynjablóm – Oranges, Mussels and Monstrous Flowers“, og birtist í Nordisk Lyrik – Nordic Poetry, Klima – Climate, Transit Production, København 1994.
(4) Árni Ibsen, „Ör saga ástar og leiks“, Skírnir, haust 1995, bls. 507-519. Í greininni er einnig fjallað um bók Þorvaldar Þorsteinssonar, Engill meðal áhorfenda (1992).
(5) Tilvitnun fengin úr grein Árna, en þetta mun hafa komið fram í viðtali við Kristínu Ómarsdóttur í Mbl. 21. des. 1991.
(6) Geir Svansson, bls. 517.
(7) Geir Svansson, bls. 521
(8) Eiríkur Guðmundsson, „Ofbeldi tímans: Hugað að nokkrum skáldsögum ársins 1995“, Andvari, 121 ár, 1996, bls. 138-159.
(9) Eiríkur Guðmundsson, bls. 147
(10) Eiríkur Guðmundsson, bls. 147
Sjáið fegurð kóngulóa í sýningargluggum : Kristín Ómarsdóttir
Brúasmíði
Með skáldsögunni Hér (2004) urðu ákveðin þáttaskil í höfundarverki Kristínar Ómarsdóttur. Hér er stríðssaga, saga um stríð, saga af stríði. Kristín sagði í blaðaviðtali að þegar hún var yngri var hún dauðhrædd við orð eins og boðskapur, en nú tæki hún því fagnandi og væri bara alveg til í að samþykkja að nýja bókin hennar væri full af boðskap. Enda er Hér full af boðskap, þetta er án efa skáldsaga sem deilir á stríð, fáránleika þess og tilgangsleysi. Við vitum aldrei hvaða stríð er í gangi, við vitum ekki hvar við erum stödd, við erum bara Hér, í dal sem stendur fyrir utan stríðið – eða hvað?
Það sem gerir Hér svo áhugaverða er hið undirliggjandi þema stríðsleikjanna, stríð sem (stráka)leikur - nema náttúrulega að Hér er stríðsleikurinn barbíleikur. Í fyrsta kafla er því lýst að þrír hermenn koma að bóndabæ og skjóta þar alla ábúendur, fullorðna og börn, utan eina hálfstálpaða stelpu. Síðan skýtur einn hermaðurinn hina tvo og sest að á bænum með stelpunni og er greinilega á flótta, liðhlaupi, hættur í stríðsleiknum og fer nú í hversdagslegan bóndaleik. En til að halda þeim leik við þarf að færa vissar fórnir. Hvað á að segja meira? Annar hermaður kemur svífandi í fallhlíf með vistir, þeir félagar eiga fallegt samtal um fótabað og viskýdrykkju eftir tannburstun, daginn eftir er fallhlífamaðurinn horfinn, að sögn hjólaði hann burtu – en hann skildi annan skóinn sinn eftir. Og svo drífur að fleiri gesti, meðal annars syngjandi nunnu... og stúlkan óttast um örlög þeirra.
Þannig er heimurinn í Hér veröld þar sem allt getur gerst og það sama á við um næstu skáldsögu Kristínar, Hjá brúnni (2009). Sagan er svo hlaðin táknum að það er ákaflega freistandi að reyna að lesa hana sem lykilsögu og þá sérstaklega út frá þeim hluta hennar sem fjallar um kúgun stjórnvalda og óttann við listina.
Sagan gerist á rúmlega sólarhring í ókunnugri borg sem sómir sér vel meðal margra heillandi ímyndaðra borga bókmenntanna. Aðalsöguhetjan er ballerínan María, en auk hennar kemur fjöldi persóna við sögu, meðleigjandi hennar og nágrannar, skáld, leikhússtjórar og barnshafandi tengdadóttir leikhússtjórahjónanna, leikhúsfólk, aðdáendur Maríu, brjálaðar konur og ringlaðir ungir menn, og þannig mætti lengi telja. Ekki má heldur gleyma ánni sem rennur í gegnum miðja borgina og klýfur hana í tvennt, yfir ána liggja svo fjölmargar brýr. Hér er strax kominn freistandi táknlykill til túlkunar, ekki síst með tilliti til þeirrar umræðu um sjálfsmorð og dauða tengdum brúm og borginni allri sem er hvað mest áberandi í fyrsta hluta bókarinnar. Tákna brýrnar þau flóknu samskipti sem stöðugt fara fram innan borgarinnar? Samskipti milli yfirvalda - sem á endanum sýna vald sitt - og listamanna, listamanna og almennings, eða mætti frekar hugsa sér brýrnar sem táknmynd eyðingu sköpunarkraftsins sem á endanum markar söguna, þegar alræðið ræðst gegn listamönnum?
Hjá brúnni skiptist niður í sextán hluta, sem hver skiptist í fjölmarga stutta kafla, sem margir hverjir bjóða uppá linnulausa, stundum þreytandi, en aðallega heillandi útúrdúra. Á sama hátt er ferðast fram og til baka í tíma, einn lykilhluti nefnist „Söguminjar”, en þar er lýst gerræðislegum aðgerðum föður og borgarstjóra gegn dóttur sem hneigist frekar til kvenna en karla.
Í fyrstu hlutunum, þar sem sviðið er sett ef svo má segja, kynnist lesandinn borginni nokkuð vel. Einkenni verka Kristínar Ómarsdóttur njóta sín vel hér, annarsvegar í því hvernig hún skapar tilfinningu fyrir hinu líkamlega - sem ballerínan er glæstur fulltrúi fyrir - og hinsvegar fyrir dásemdum smáatriðanna. Textinn er svo þéttur að lesandi verður að hafa sig alla við. Þó hugmyndin um lífið sem leiksvið sé orðin ákaflega þreytt og þvæld þá öðlast hún algerlega nýtt líf í öruggum tökum Kristínar sem lýsir því í kafla um kaffihús hvernig fjölmargar fullkomnar stundir eru beinlínis gerðar til að verða endurteknar, eins og í leikhúsi.
Andspænis þessari dásamlega nánu tilfinningu fyrir smáatriðum hversdagsleikans er svo stillt stórum spurningum, um skáldskap og sköpun, dauða og alræði. Skáldskapur er borginni mikilvægur og listin er Maríu mikilvæg, en hún hefur yfirgefið öruggt starf til að sinna þeirri hlið listarinnar sem henni finnst skipta meira máli og hafa meira uppreisnarafl. Listin sem afl, til vakningar, gagnrýni og uppreisnar - og líka sem vettvangur dauðans - er mikilvægt stef bókarinnar og það eru einmitt þessi hlutverk sköpunarinnar sem stjórnvöld ráðast gegn.
Þannig ítrekar Kristín, bæði í umfjöllunarefni og framsögn bókarinnar sjálfrar, að listin er ekki endilega eitthvað þægilegt og handhægt, fallegt eða aðgengilegt, listin á (líka) að ýta við fólki, ögra og trufla. Hinsvegar er varasamt að ætla að líma of einfalda merkimiða á svo þéttofið og marglita verk. Vissulega er Hjá brúnni hápólitísk bók um samfélagslegt og róttækt hlutverk lista og ógn alræðisins, en sagan er líka dásamlegt ferðalag um undarlega hugarheima furðulegs fólks, listaverk sem teygir anga sína inn í hvern krók og kima borgarlífsins og afhjúpar hið hversdagslega sem undursamlegt ævintýri.
Hinsegin undirtónar hafa einkennt skáldverk Kristínar Ómarsdóttur allt frá upphafi og í skáldsögunni Millu (2012) er heimurinn ákaflega hinsegin. Milla er 21 árs gömul stúlka, þunglynd og vinnur á Borgarbókasafninu. Hún elskar Maríu sem er hjúkrunarkona og fáeinum árum eldri en Milla, en María hefur áhyggjur af þunglyndi Millu og er ekki viss um hvort hún elski hana nægilega mikið. Öðrum þræði er sagan því ástarsaga, saga af átökum ástarinnar, aðskilnaði og ástarsorg. Á bókasafnið kemur kona og ræður Millu til að skrá heimili sitt sem safn ‚Safn um hina venjulegu íslensku fjölskyldu í lok tuttugustu aldar‘. Loks er sagt frá ömmu Millu, en sá hluti er hvað minnst bundinn veruleikanum, þó hann reynist á endanum búa yfir hvað mestu félagslegu raunsæi.
Safnið myndar einskonar ramma um verkið, Milla er ráðin snemma í sögunni og að lokinni skráningu, undir lok bókarinnar, býður yfirkona Millu henni til örlagaríks kvöldverðar á Hótel Holti. Það er líka í safninu sem ævintýri hversdagsleikans koma hvað best fram en skrásetning Millu á hinum ýmsu munum safnsins er ákaflega sérstæð, bæði í einfaldleika sínum og auðugu ímyndunarafli. Ímyndunarafl Millu skiptir miklu máli, en eins og fleiri persónum Kristínar Ómarsdóttur lætur henni ákaflega vel að segja sögur. Þessar sögur eru bæði af henni sjálfri og fólkinu í kringum hana, sumar segir hún, aðrar ná aldrei út fyrir hugskot hennar.
Sem fyrr í sögum Kristínar býður textinn upp á fjölmörg augnablik munúðar og mýktar, sem birtist bæði í líkamlegum samskiptum og lýsingum á mat. Kristín er ákaflega fundvís á augnablik, myndir og hugmyndir. Margt af þessu býr yfir mikilli táknauðgi, en Kristín á auðvelt með að leika sér með táknhlaðið efni, eða kannski frekar að hlaða texta, atburði og hluti táknrænum farangri – sem oft er misvel merktur og getur vel ratað á annan áfangastað en gert hafði verið ráð fyrir.
Þessar skörpu og skondnu lýsingar öðlast svo aukakraft fyrir það að ramba ævinlega á mörkum veruleikans eða raunsæisins, en þetta skapar skjönun í textann, lesandinn getur aldrei verið alveg viss hvar hann er staddur eða hvað er að gerast. Þetta er eitt af því sem Kristínu lætur svo vel, bækur hennar fjalla ekki aðeins um hinsegin veruleika samkynhneigðra para, heldur verður heimurinn allur hinsegin, öll viðmið fara á skrið og ekkert er sem sýnist; eða kannski einmitt ekki, hér er allt sem sýnist, þetta er hinn nýi heimur sem hefur losað sig undan höftum hinnar gagnkynhneigðu stöðlunar.
Raunsæið er öllu meira í skáldsögunni Flækingurinn (2015). Þar segir frá mállausum flækingi: hann talar hrognamál sem enginn skilur nema mamma hans. Hann heitir Hrafn, kallaður Krummi og hann langar til að eignast barn og kenna því allt um ást. Aðstæður hans bjóða þó ekki beint upp á að þessi draumur rætist, hann er atvinnu- og heimilislaus og hefst við í ólæstri kompu í iðnaðarhúsi, er eignalítill og notar eiturlyf í nokkru magni. Þrátt fyrir þetta kann hann að njóta þess góða í lífinu, nýrra fata úr ferðatösku sem var skilin eftir í leigubíl, vináttu sem honum er auðsýnd; að auki hefur hann hæfileika til að sjá fegurð í kringum sig, þegar svo ber undir.
Þetta gæti hljómað eins og tilfinningaleg saga af undirmálsmanni, tilraun til að upphefja líf hans og gera úr því hálfgerða helgisögu. Sú er þó ekki raunin, þrátt fyrir að Krummi sé vissulega saklaus á margan hátt, jafnvel einskonar engill, þá er ljóst að líf hans er fjarri því að vera himneskt og myrkari hliðum tilveru hans er miskunnarlaust gerð skil. Jafnframt forðast sagan alla tilfinningasemi þegar kemur að því að deila á stöðu þeirra sem verða undir í samfélaginu, þó sannarlega sé í henni þungur undirtónn.
Í upphafi sögunnar er Krummi ágætlega settur. Hann er fastagestur í húsi Laufeyjar og á þar góðan vinahóp sem sér honum fyrir þeirri vímu sem hann þarfnast. Hann aðstoðar Laufeyju við að gera upp húsið og þrífa og er í nokkuð góðu jafnvægi. En jafnvægi meðal eiturlyfjaneytenda er ekki mjög stöðugt og svo fer að hann reiðist og rýkur burt í fússi – en þó miður sín. Næst verður á vegi hans Engilbjartur Bjartson (sem heitir Pétur Karlsson), svartur smáglæpamaður sem verður fyrir fordómum vegna litarháttar síns. Saman ferðast þeir um breiða braut afbrota, en samstarfið felst í því að hinn hávaxni Hrafn lyftir fínlegum félaga sínum upp í opna glugga og þaðan tæmist þeim fé. En svo fer allt úrskeiðis þegar Engilbjartur byrjar að hefna harma sinna og harma Hrafns.
Sögur þessara tveggja eru uppistaðan í ‚plottinu‘, og hægt og rólega raðast saman mynd af því hvernig þessir tveir gerólíku menn, með gerólíkan bakgrunn, enda á götunni af ólíkum ástæðum. Við fáum minna að vita um aðrar persónur, þó helst um velgjörðakonu Hrafns. Meginþungi verksins liggur í lýsingum á daglegu lífi hins heimilislausa og tilraunum hans til að búa sér heimili, samskiptum við umhverfið og svo athugunum hans og hugsunum. Það er í þessu sem hinn sérstaki stíll Kristínar og sýn hennar á umhverfið, nýtur sín út í ystu æsar:
„Herra fulltrúi, ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðjum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum [...].“ (161)
Ádeilan, sem nóg er af, birtist ekki í langorðum lýsingum á kerfi sem bregst eða ístarlegum útlistunum á yfirvöldum sem koma illa fram, heldur er henni komið að á látlausan hátt, í lýsingum á daglegu lífi Krumma og félaga, auk vangavelta hans um hitt og annað sem á vegi hans verður.
Flækingurinn er að mörgu leyti ein aðgengilegasta saga Kristínar, án þess þó að höfundurinn slaki á þeim kröfum sem hún er vön að gera til lesenda sinna. Verk hennar einkannast af flókinni fjölröddun sem ekki er alltaf auðhlaupið að festa hendur á, en gerir það að verkum að einbeitingin verður fullkomin, því það er áhætta að missa úr slag. Hún spilar á tóntegundir trega og gleði, andúðar og samúðar og blandar sinni sérstæðu útgáfu af hinu ævintýralega, án þess þó nokkurn tíma að tapa jarðtengingu við það sem kalla má veruleika.
Speglanir
Þó Kristín hafi afar sterk tök á skáldsagnaforminu og starfi ötullega að því að reyna á þanþol þess þá er það í styttri textum sem sérgáfa hennar kemur best fram. Dæmi um það er smásagnasafnið Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo (2011), en auk sagnanna inniheldur safnið eitt ljóð og fjölmargar teikningar. Sögurnar lýsa allar samskiptum þessara tveggja íkonísku leikkvenna og kvikmyndastjarna, en í þessum söguheimi eru þær miklar vinkonur og bralla hitt og annað saman. Sögurnar eru sex talsins, afar mislangar og ákaflega fallegar, en þrátt fyrir myrka undirtóna einmanaleika og sjálfsmorðs einkennast þær af hlýju og næmni, auk gleðinnar sem býr í góðri vináttu.
Í fyrstu sögunni, „Síðdegi við Kyrrahafið“ er tónninn sleginn, en eitt af því sem sameinar þessar konur er ást þeirra á bókmenntum og sögum. Þær lesa saman og hvor fyrir aðra, eða segja hvorri annarri sögur. Og Marilyn bakar fyrir Gretu: „Bókmenntir og brauðsnúðar sameinuðu þær“ (5). Með þessu drekka þær „champagne“: „Fátt var laugardagslegra en kampavín eftir alla laugardagsbrönsana á millistríðsárunum. Og nú ríkti heimsfriður þó hún hefði engu gleymt og margir fallið í valinn. Aldrei myndi hún hætta að syrgja en freyðandi vökvi styrkir lamandi geð“ (5). Á þennan hátt teiknar Kristín upp hið sögulega samhengi, en í sögunum eru ýmsar tilvísanir til atburða veraldarsögunnar, frægar persónur hafa sent Gretu Garbo bréf og þær velta fyrir sér lúxuslífi Maós í menningarbyltingunni. Þó er ekki hægt að vita neitt um nákvæmar tímasetningar, en í heimi skáldskaparins skiptir slíkt ekki máli. Eða eins og segir fremst í bókinni: „Við tilheyrum sama myrkrinu fjallar ekki um raunverulega atburði; sögurnar og ljóðið sem hér birtast eru skáldskapur þar sem leikkonurnar Marilyn Monroe (1926-1962) og Greta Garbo (1905-1990) leika aðalhlutverkin. Allar persónur sem við sögu koma, jafnvel þær Marilyn og Greta, eru skáldaðar.“
Í einni sögunni koma tveir karlar við sögu, en af þeim stafar ógn og þeir telja sig eiga erindi við konurnar, telja sig greinilega eiga rétt á því að taka þær konur sem þeir vilja. Tvímenningarnir eru einskonar táknmynd fyrir alla þá karlmenn sem troða sér inn í líf og tilveru þessara kvenna, vilja eigna sér þær, taka myndir af þeim, krefja þær um nekt og fegurð, kossa, kynlíf, aðdáun og bros. Líkt og með hinar handahófskenndu tilvísanir til heimsatburða er vísað til þessara karla hér og þar. Áherslan er þó ekki á að fjalla um áhrif þeirra á konurnar, heldur þvert á móti ganga sögurnar út á að þær skapa sér sitt eigið rými í krafti vináttu sinnar, sem sameinar þær og verndar gegn ágangi. Einmanaleikanum sem fylgir frægðinni er haldið utandyra þau augnablik sem þær eiga saman, eða eins og Marilyn segir: „Ég vil síður drepa mig í kompaníi með þér“ (29).
Lesendum Kristínar kemur varla á óvart að textarnir eru hreinlega ilmandi af hinsegin erótík, og reyndar bara allskonar erótík, en leikkonurnar ræða kynlíf og líkama hvorrar annarar.
Teikingar Kristínar mynda fullkomna samfellu við textana, en Kristín hefur áður unnið með samþáttun mynda og orða í ljóðabókum sínum. Reyndar eru verk hennar öll sérlega myndræn, en ítarlegar lýsingar á smáatriðum fleyga reglulega framrás frásagnarinnar og skapa sérstæð augnablik innan hennar, rjúfa flæðið og afvegaleiða hugann.
Örsagnasafnið Elífar speglanir : Vísindalegar athuganir (2013) er smárit sem býr yfir ótrúlega miklu efni, enda er viðfangsefnið speglar og speglanir sem umbreyta öllu, bæði rými og einstaklingum. Þessir speglar birtast hvað með í samlíkingum, hendur eru eins og dúfur, fingur eru vitnisburður um kynorku og sem fyrr en munúð og erótík alltumvefjandi í bland við dauðann :
22
Eins og greint var frá er sólin spegill appelsínanna. Nei. Appelsínurnar eru spegill sólarinnar. Eplin kvöldsólarinnar, morgunroðans og mánans. Grænu eplin kjósa að spegla mánann. Hin gulgrænu geta ekki gert það upp við sig. Taugakerfi mitt hermir eftir greinum trjánna. Bananar og gúrkur herma eftir kynfærum karldýra. Hindberin eftir kynfærum kvendýra. Hefurðu borðað hindberjasultu í morgunmat með ristuðu brauði og tei? Ekki ég.
Sögurnar eru skráðar í erlendri borg og þar blandast saman athuginar á heimstunglum, heimaeyjunni þar sem nóg er af heitu vatni, heimssögunni þar sem rithöfundar fremja sjálfsmorð í kjölfar styrjalda. Víða er komið við, meðal annars er ýmislegt sem er ókeypis talið upp, svo og að minnt er á þá þræði sem tengja fólk, meðal annars með ferð peninga á milli handa. Draumar og svefn eru mikilvæg atriði að ekki sé talað um góð ráð varðandi skrímsli. Enn einn þráðurinn eru heimsóknir í nammibúðir þar sem sælgæti þekur alla veggi, en þar gerist ýmislegt óvænt.
Eilífar speglanir er líklega sú bók Kristínar sem býr yfir hvað hreinustum súrrealisma, allt frá hinum óvæntu stefnumótum allskonar fyrirbæra, til þess hvernig hún þræðir saumlaust saman hversdaginn við undur og ævintýri og umbreytir lífinu í list. Súrrealisminn er hinsvegar alltaf nálægur í verkum hennar á einn eða annan hátt og þá ekki síst í fylgd með einum af fyrirrennurum sínum, symbólismanum, en tákn Kristínar eru víðóma og umfram allt; gersamlega óniðurneglanleg.
Morgunbleik jól
Smásögur og örsögur Kristínar eru náskyldar ljóðum hennar, en líkt og í speglasögunum eru ljóð Kristínar á stundum bæði óbærilega víðfem og fögur, en fyrst og fremst ævintýraleg. Bókin Jólaljóð (2006) er gott dæmi um það en þar færir hún jólin í ljóð, sem jafnframt verða að einskonar ævintýraljóðum. Víða er vísað til þess að lesa eins og í ljóðinu „Vetrarmorgun“, þar er „nóttin þykk af myrkri en ekki færðu að vakna fyrr en þú hefur lesið þúsund blaðsíður af myrkrinu”. Hér er strax dæmi um þann hæfileika höfundar að skapa nýjar myndir úr kunnuglegum aðstæðum. Við kynnumst manni sem er ósáttur við að vera ekki lengur engill, en fær þau góðu ráð að taka heimili sitt í gegn og þrífa og þá mun hátíð ljóssins færast nær. Og svo er fjallað um jólakjóla, vetrarsnjó, álfa og engla, kanelstangir og vanilluhringi, og svo auðvitað Maríu og jólabarnið, jólakötturinn kemur við og hreindýrin klikka heldur ekki. Jólakjólarnir eru ýmist bláir eða rauðir og jólakötturinn eltir þær stelpur sem eru bara á sokkabuxum og ekki komnar í kjólana. Ekki má heldur gleyma að gera allt hreint fyrir álfana: “iljar frá öðrum heimi munu stíga þann dans / í ofnum gullsokkum / tylla sér á stólana og lesa bækurnar okkar”, eins og segir í “Álfarnir koma í heimsókn”. Og englarnir, þeir svífa “undir fallhlífum sem ofnar eru / úr sama efni og kóngulóarvefur”, í ljóðinu “Englaher flykkist til jarðar”.
Síðustu tveir hlutar bókarinnar eru svo einskonar prósar, annarsvegar er kaflinn “Myndir”, en þar er upptalning á ýmsum ævintýra- og draumamyndum sem sumar eru kunnuglegar úr ævintýrum en aðrar markaðar sérstæðri sýn skáldkonunnar. Þriðji hlutinn heitir “Barnaleikrit” og þar er á ferðinni alveg dásamlega skemmtileg - og sorgleg - útgáfa af ævintýrinu um Hans og Grétu.
Húmor og grimmd einkennir líka ljóðabókina Sjáðu fegurð þína (2008), en segja má að samspil þessara þátta séu ómissandi hluti af textum Kristínar Ómarsdóttur. Ljóðin fjalla um skáld og gagnrýnendur og dauðann og kynlíf. Sem fyrr er ævintýrið þó alltaf nálægt.
Bókin byrjar á leiðsöguljóði, vel til föllnu til að leiða lesanda inn í þá króka og kima ljóðlistar, hugmynda og ólíkra heima sem birtast í bókinni. Skáld fylgir leiðsögumanni sem fer fyrir hópi “úlpuklæddra túrista” og tilkynnir að nú séu skáldin næsta útdauð, eða hvað? Allavega er af þeim nálykt (“Leiðsögn”). Ekki samt halda að þau séu horfin úr bókinni, seinna taka þau gagnrýnanda höndum (hann öðlast nýjan skilning á skáldskap í “Skáld taka gagnrýnanda höndum”) og enn síðar eru þau á vappi um leikfangabúðir (“Úr leikfangabúð”) að “blása ryki skáldskaparanis yfir leikföngin. Eins og dísir í ævintýrum þyrla þau dufti úr töfrasprota - þess vegna lifnar dótið við í höndum barnanna.”
Þetta ævintýratema birtist í ýmsum myndum í bókinni, borgarmynd úr pappír rís upp og hetja semur óð til eilífrar æsku (með tilheyrandi ótta við það að eldast) og svo er eitt ljóð ort til skuggans. Ekki má heldur gleyma einskonar Öskubuskuljóði (“velmektardagur”), en þar klæðir kona sig töfravoðum náttúrunnar, fer í leikhús “í síðkjól úr hríslum / bar hálsmen þrætt ánamöðkum”: “handtaskan úr bleki / sokkar úr munnvatni / hælaháir blágrýtisskór”. Ljóðið er gott dæmi um nálgun Kristínar á ‘náttúruljóð’, en þau eru ákaflega jarðbundin á allan hátt, næstum full af nálykt. Tvö fyrrnefndra ævintýraljóða (“hetjukvæði” og “skuggi minn”) vísa sömuleiðis til þess dauðatema sem nær hámarki sínu í ljóðinu “Þetta er ekki búið”, en þar er fegurðardrottning hinna dauðu krýnd.
Hinn efnislegi dauði er þó ekki eini dauðinn sem gengur með brugðinn ljá um bók Kristínar, eins og oft áður í verkum höfundar er dauði hinnar borgaralegu tilveru áberandi, og eirir engu. Hér þarf ekki kreppu til, dauði borgarans er löngu kominn og farinn og skilur eftir sig viðeigandi tómleika í ljóðinu um “Heimilisföðurinn” sem vakir á nóttunni og ímyndar sér að hann sé snigill, stingur fótunum í skó sem eru “gjöf frá konunni, / en var það kannski vísbending: / “Farðu, yfirgefðu okkur...”” Í “Íslensku þjóðerniskvæði” býr ljóðmælandi í herberginu Ísland sem er fest með sæstreng við Evrópu og “Lífið gengur sinn vanagang.”
Lífið gengur þó einmitt alls ekki sinn vanagang í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur, eins og sést vel í bókinni Kóngulær í sýningargluggum (2017). Í upphafsljóði bókarinnar er ljóðmælandi „með ljóðin krosssaumuð í tunguna“. Fyrir miðri bók er „kveðja“, þar sem „broddur orðblárrar tungu snertir kartöfluna laust“ og málstola veggur spyr „hvað vildirðu sagt hafa ungfrú raddlaus?“ Á undan „kveðju“ er ljóðabálkurinn „úr dagbók“ en þar kemur fram að „tungumálið styrkir sig á kolum sem tilfinningarnar halda heitum / ástríðuleysi fælir orðin burt“. Ljóðið „vers“ fjallar líka um orð:
í lófanum liggur dáið orð mjúkt einsog andvarinn og rósin úti í porti
og jafnheitt nýkulnuðum eldi og nýorpnu eggi
orðið færði mér eitt lamb og grænan tvinna
rödd þín færir mér vissu um að ég búi á öðrum stað
þegar varir þínar snerta eyrað ferðast ég örugg
Næsta ljóð, „minnisflís“, hefst á því að „moldin geymir orð sem ólíkt mér þekkja vitjunartímann“ og síðan kemur í ljós að „þau stinga sér upp úr jörðinni í þessari bók“.
Þannig spinnur Kristín Ómarsdóttir kóngulóarvef orða sem mynda ljóð og liti, myndir og muni – minningar og tilfinningar. Orðin vella fram því tungumálið hefur innbyrt kol sem halda á því hita eins og nýorpnu eggi. Og hvað sem líður málstoli og raddleysi komast þau til skila, þó ekki væri nema við snertingu orðblárrar krosssaumaðrar tungu, vara og eyrna. Orð Kristínar Ómarsdóttur spretta upp úr moldinni, velta út úr kóngulóarvefjum og umbreyta öllu á andartaki.
Nálgun Kristínar á tungumál og orð einkennist af sérstæðri og á stundum súrrealískri sýn sem afhjúpar áður óþekkta möguleika til skynjunar, skilning og samskipta og á sama hátt er myndvefnaður hennar afar fjölskrúðugur og litfagur. Enda kemur fram í ljóðinu „dans“ að „litir snyrta hugarfarið“.
Kóngulóarblár litur einkennir „undirbúning“, en þar eru „kóngulóarblá rúmföt einsog þráin kóngulóarbláa“ og „neyðarlitt snæri“. Bleiki liturinn er víða, útvörpin eru bleik í „úr dagbók“, í „gluggakistum“ er smiðsbakið bleikt og í „minjagripur“ handsamar spegillinn „mynd mína þegar ég handgreiði morgunbleikt hárið“. Tólgin er himinbleik í „flótta“ og sófarnir munnrjóðir í „boðflenna“. Bleiki liturinn tengist meðal annars dauðanum eins og kemur fram í „bekkur“, en þar er hann sessunautur ljóðmælanda dauðinn sjálfur og „bregður fyrir á bekknum“ á meðan „morgunbleikir tónar hvítta sóttbjart eldhúsið“.
Óhugnaðurinn er reglubundið stef í verkum Kristínar, allt frá hnífaleikjunum í smásagnasafninu Í ferðalagi hjá þér (1989). Ferðafélagi hans er „sakleysið“, en „unggrænt fæðist sakleysið hvert vor / svo breytist liturinn, eins og merkingin, og logar í haust“. Á sama hátt skipta ljóð Kristínar litum og merkingu, spanna andstæður og sundra samstæðum: „myrkrið styður og styrkir blinduna“.
Kynjapólitík hefur alltaf verið sterkur þáttur í verkum Kristínar, í formi leiks með kyn og kyngervi. Eins og oft áður er mikið um kvenleg tákn, en þar er glerbrjóstið – eða glerbrjóstin – fyrirferðarmest. Glerbrjóst birtist sem reglulegt stef í gegnum alla bókina, og þau má lesa sem tákn um hvað kvenlíkaminn er viðkvæmur, en líkt og oft áður fylgir valda(ó)jafnvægi kynjamyndmáli Kristínar. Feðraveldið birtist á óvenjusterkan hátt í ljóðunum eins og í „erfingjar mannúðar / ofan af toppöld“, en þar slá hjörtu piltanna með flúruðu vörumerkin á bakinu „takt í feðraskjóli“. Kóngulær í sýningargluggum er óvenju pólitísk miðað við ljóðabækur hennar, en segja má að þetta sé nokkuð í takt við það hvernig ljóðið almennt hefur orðið pólitískara síðasta áratuginn. Pólitík Kristínar býr yfir þeim eiginleikum sem einkenna verk hennar öll, að hún er í senn beinskeytt og hreinskiptin og flókin og margræð.
Allt er þetta í takt við þá sérstæðu sýn skáldkonunnar sem málar allt í kóngulóarbláum og morgunbleikum litum. Sem fyrr opnar Kristín verkuleikaflöktandi völundarhús fyrir lesandanum, villir honum sýn og tryllir hann, en ljóð hennar eru í senn heillandi fögur og bullandi óþægileg. Orðblár tungubroddurinn stingur sér inn í þægindarammann og áður en veit hafa þræðir kóngulóarvefsins vafið sig um vitundina. Beiting endurtekninga og stefja hefur bæði sefjandi og truflandi áhrif og takturinn er órólegur og á stundum beinlínis ískrandi.
Það er ákaflega viðeigandi fyrir Kristínu Ómardóttur að nefna kóngulær í bókatitli því verk hennar hafa sömu áhrif og vefir kóngulóa, um leið og stigið er út á þá er ekki aftur snúið. Allt fer á ferð og flug og vegir liggja til allra átta. Áður en veit eru allir útlimir fastir og eina úrræðið að vefja sig þéttingsfast inn í vefinn og dvelja þar, lengi.
úlfhildur dagsdóttir, 2019
Greinar
Almenn umfjöllun
Dagný Kristjánsdóttir: „Tómið og tilveran: um skáldsögur Kristínar Ómarsdóttur“
Ritið, 6. árg., 3. tbl. 2006, s. 81-99
Dagný Kristjánsdóttir: „Hvað er á bakvið dyrnar þröngu? Um skáldsögur Kristínar Ómarsdóttur“
Í Irma Erlingsdóttir (ristj.): Fléttur 2, kynjafræði, kortlagningar. Reykjavík: Rannsóknarstofa í kynjafræðum við H.Í. 2004, s. 51-61
Halldóra Jónsdóttir: „Við ferðumst öll með töskur : viðtal við Kristínu Ómarsdóttur um nýja bók hennar „Í ferðalagi hjá þér“
Vera; tímarit um konur og kvenfrelsi, 8. árg., 6. tbl. 1989, s. 32
Hrefna Haraldsdóttir: „Skáldatími: Kristín Ómarsdóttir“
Reykjavík: Hugsjón, 1998. [Myndband]
Kristján B. Jónasson: „Allt sem ég sé. Um samtímaljóðlist“
Tímarit Máls og menningar, 64. árg., 3.-4. tbl. 2003, s. 38-41
Tone Myklebost: „Historiesamleren : møte med Kristín Ómarsdóttir“
Vinduet, 54. årg., nr. 1, 2000, s. 38-41
Um einstök verk
Draumar á hvolfi
Freyr Þormóðsson: „Draumar á hvolfi“
Mímir, 26. árg., 1. tbl. 1987, s. 81-85
Dyrnar þröngu
Auður Halldórsdóttir: „Borg uslans: um hinsegin skáldsöguna Dyrnar þröngu eftir Kristínu Ómarsdóttur“
Lokaritgerð við Háskóla Íslands 2007
Auður Halldórsdóttir: „Usli í dyrunum þröngu“
Torfhildur, 2007, s. 152-167
Kristín Ólafsdóttir: „Dyrnar þröngu“
Vera; tímarit um konur og kvenfrelsi, 14. árg., 6. tbl. 1995, s. 28
Eiríkur Guðmundsson: „Ofbeldi tímans : hugað að nokkrum skáldsögum ársins 1995“
Andvari, 121. ár, nýr flokkur XXXVIII, 1996, s. 138-159
Marín Guðrún Hrafnsdóttir: „Þó fjarri væri það óskum mínum að lenda á sjens...“
Tímarit Máls og menningar, 57. árg. 1. tbl. 1996, s. 112-115
Geir Svansson: „Ósegjanleg ást : Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“
Skírnir, 172. ár, haust 1998, s. 476-527
Einu sinni sögur
Hólmfríður Þórisdóttir: „Einu sinni sögur“
Vera; tímarit um konur og kvenfrelsi, 11. árg., 2. tbl. 1992, s. 38
Ingeborg Huus: „Hliðar ástarinnar“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 4. tbl. 1992, s. 105-109
Árni Ibsen: „Ör saga ástar og leiks“
Skírnir, 169. ár, haust 1995, s. 507-519
Elskan mín ég dey
Dagný Kristjánsdóttir: „Du er hvad du gør“ : de skriver om livet med udgangspunkt i døden og når frem til at [...] = „You are what you do“ : they discuss life from the pont of view of death and come to the conclusion that […]“
Nordisk litteratur, 1998, s. 70-71
Soffía Auður Birgisdóttir: „Að týna tölunni“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 2. tbl. 1998, s. 148-154
Flækingurinn
Úlfhildur Dagsdóttir: „Málleysingjar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hjá brúnni
Úlfhildur Dagsdóttir: „Augnablik alsælu og alræðis“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hér
Erna Erlingsdóttir: „Þegar stríðið kom í sveitina“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 105-108
Úlfhildur Dagsdóttir: „Stríðsleikir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Í ferðalagi hjá þér
Halldóra Jónsdóttir: „Við ferðumst öll með töskur: viðtal við Kristínu Ómarsdóttur um nýja bók hennar „Í ferðalagi hjá þér“
Vera; tímarit um konur og kvenfrelsi, 8. árg., 6. tbl., 1989, s. 32
Jón Karl Helgason: „Fjórir ónúmeraðir fuglar“
Skírnir, 164. ár, haust 1990, s. 495-507
Jólaljóð
Úlfhildur Dagsdóttir: „Englar, snjór, álfar og jólakjólar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kóngulær í sýningarglugganum
Úlfhildur Dagsdóttir: „Morgunbleik og kóngulóarblá glerbrjóst“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Lokaðu augunum og hugsaðu um mig
Friðrika Benónýsdóttir: „Lokaðu augunum og hugsaðu um mig“ (ritdómur)
Vera, 17. árg., 6. tbl. 1998, s. 57
Margrét mikla (leikrit)
Kristín Ólafs: „Margrét mikla : hræðilegur ærslaleikur“
Vera, 15. árg., 1. tbl. 1996, s. 40
Milla
Auður Aðalsteinsdóttir: „Sagan endurrituð“
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 9-17.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Safn undarlegra viðburða“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Segðu mér allt
„Andinn kemur þegar honum þóknast, segir Kristín Ómarsdóttir“
Vera, 24. árg., 1. tbl., 2005, s. 49
Sjáðu fegurð þína
Úlfhildur Dagsdóttir: „Snert hörpu mína...“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Við tilheyrum sama myrkrinu
Úlfhildur Dagsdóttir: „Skáldkonan og leikkonurnar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2018 – Maístjarnan: Kóngulær í sýningarglugganum
2009 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Sjáðu fegurð þína
2005 – Gríman; Leikskáld ársins: Segðu mér allt
1998 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Elskan mín ég dey
1997 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1985 – Samkeppni Þjóðleikhússins í tilefni loka kvennaáratugarins: Draumar á hvolfi, 1. verðlaun
Tilnefningar
2020 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Svanafólkið
2019 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Kóngulær í sýningarglugganum
2017 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Kóngulær í sýningarglugganum
2017 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Kóngulær í sýningargluggum
2015 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Flækingurinn
2012 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Milla
2011 – Útvarpsverðlaun Grímunnar: Í speglinum sefur kónguló
2008 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Sjáðu fegurð þína
2008 – Útvarpsverðlaun Grímunnar: Smásögur
2001 – Norrænu útvarpsleikritaverðlaunin: Margrét mikla
2000 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Elskan mín ég dey
1999 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Lokaðu augunum og hugsaðu um mig
1998 – Norrænu leikskáldaverðlaunin: Ástarsaga 3
1997 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Elskan mín ég dey
1995 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Dyrnar þröngu
Móðurást: Draumþing
Lesa meiraEinsog fyrir dularfullan galdur þetta fermingarvor, þarfnaðist ég mjög skyndilega og allt í einu, sem þegn dansks konungsveldis, að leika mér við þegn úr öðru ríki og byrjaði að elta tófur útum grund og móa þar til þær hurfu mér sjónum. Upplýsti svo föður minn, bræður og frændur um grenin og bræðurnir í fylgd sonanna lögðu af stað niður hólinn með riffla á öxl, sneru til baka upp hólinn með bráðirnar á hinni öxl. Ég elti tófurnar einsog bolta afþví hvað ég sá vel heiminn og sérhvert atriði hans.Móðurást, Oddný
Lesa meiraBreyti dagstefin einhverju um næturdraumana gæti mig hafa dreymt næstu nótt eldrauða ísjaka sem flutu úr Gullfoss niður Hvítá og til hafs.Borg bróður míns
Lesa meiraLjóðasafn
Lesa meiraSvanafólkið
Lesa meiraWaitress in Fall
Lesa meiraShtëpia e fëmijëve: në Reindeer woods
Lesa meiraWaitress in fall: poems
Lesa meiraSpindlar i skyltfönstren
Lesa meira