Úr Efstu dögum:
52
Eftir því sem náminu miðaði og útlegðin lengdist voru þau farin að heimsækja ættjörðina oftar og leggja á ráðin um heimkomu. Síðasta veturinn tók Flóki kirkjurétt við háskólann heima.
Lokasprettinn voru þau svo rækilega komin heim í huganum að Danmörk var nánast eins og skynvilla. IKEA var þeirra jarðsamband, þau voru að efna sér í búslóð til að hafa með sér heim eftir öll þessi ölkassa- og spónaplötuár. Sófasett og sófaborð, eldhússtólar og eikarborð, rúm, körfur, kókosteppi, kaffistell, matarstell, ljósahjálmur...
Keyra það í gám.
Að því búnu: loftferðin til Íslands.
Vera fékk vinnu á Borgarbókasafni, Flóki í afleysingum sem farprestur.
Og svo.
Tók íslenskra horrimin við.
Raunar var margoft búið að útmála það fyrir þeim. Heimfluttir vinir höfðu varað þau við. En þau ímynduðu sér að það yrði öðruvísi í þeirra tilfelli.
Það varð alveg eins.
Það var enga pössun að fá fyrir Oktavíu og enn síður fyrir Málfríði þegar hún kom til sögunnar. Þau þurftu sjálf að verða sér úti um dagmömmu og endasendast eins og þeytispjöld hverfanna á milli.
Í stað hinna vinalegu dönsku vagna sem bíta í skottið hver á öðrum kom reykvíski dratthalinn sem fólk norpaði eftir í heilar tuttugu mínútur!
Einkabíllinn alfa og ómega. Strætisvagnar fyrir alka og ómaga.
Launin aftur á móti virtust ætluð sem vasapeningar fyrir einhleypa í foreldrahúsum. Enda ekki gert ráð fyrir að menn væru að fokka í eintómri dagvinnu - menn áttu að vinna eftirvinnu og næturvinnu en umfram allt einhverja aðra vinnu - sama hvað - í því skildi á milli feigs og ófeigs.
(s. 111-112)