Georges Perec: Les choses (Une histoire des années soixante).
Úr Hlutunum:
Þeirra mesta skemmtun var að gleyma saman, þ.e.a.s. stytta sér stundir. Eftirlæti þeirra var drykkja og þau drukku ótæpilega. Þau stunduðu Harry's New York Bar í Daunou-stræti, kaffihúsin á Palais-Royal, Balzar, Lipp og nokkra aðra. Þau höfðu mætur á Münchenar-bjór og Guinness, gini, groggi - ýmist heitu eða köldu, áfengi brugguðu úr ávöxtum. Þau eyddu stundum heilu kvöldunum í að þjóra, samanþjöppuð við tvö borð sem höfðu verið færð saman af tilefninu og þau skröfuðu án afláts um lífið sem þau gátu hugsað sér, myndir sem þau höfðu séð eða ætluðu að sjá, framtíð mannkyns, stjórnmálaástandið, fríið sem fór í hönd eða liðin frí, ferð uppí sveit, skreppitúr til Bruges, Anvers eða Bale. Þau gáfu sig á vald þessum sameiginlegu draumum og gættu þess að sleppa ekki af þeim takinu heldur gengu æ lengra með þegjandi samþykki hinna og fyrir kom að þau misstu alveg tengslin við veruleikann. Öðru hverju fór hönd á loft og þjónninn kom og fjarlægði tómar krúsir og kom með nýjar og brátt urðu samræðurnar þunglamalegri og snerust að mestu um það sem þau voru að enda við að drekka, um ölvun þeirra, þorsta, hamingju.
Þau voru gangtekin frelsisþrá. Þeim fannst heimurinn vera kálfskinn eitt; þau lifðu eins og þeim leist best og kátína þeirra var óslökkvandi, eldmóðurinn þekkti engin mæri. Þeim hefði verið í lófa lagið að ganga, hlaupa, dansa, syngja alla nóttina.
Daginn eftir forðuðust þau hvert annað. Hvert par hélt sig innadyra og fastaði með æluna í hálsinum, svelgdi svart kaffi og sódavatn. Þau hættu sér ekki út fyrir hússins dyr fyrr en undir miðnætti og fengu sér steik á dýrum skyndibitastað. Þau tóku örlagaríkar ákvarðanir: hætta að reykja, hætta að drekka, hætta að eyða og spenna. Þau fundu til tómleika, þeim blöskraði hvað þau gátu verið heimsk og í endurminningunni um hina eftirminnilegu drykkju var jafnan snertur af angurværð, óljóst ergelsi, blendnar tilfinningar eins og hvötin sem hefði komið þeim til að detta í það ylli enn djúpstæðari misskilningi, enn þrálátari pirringi, enn kviklæstari mótsögn sem þau sáu enga leið út úr.
(s. 42-43)