Um bókina
Ég hugsa mig er ellefta bók skáldsins Antons Helga sem kemur út á hálfrar aldar höfundarafmæli hans. Bókin inniheldur myndir eftir listakonuna Sossu, sem gerðar eru sérstaklega fyrir þessa útgáfu.
Úr bókinni
Ég spillti kvíðanum með eftirlæti
vökvaði áhyggjurnar
spjallaði við þær í gluggakistunni
Uppvaskið getur beðið. Drungi
og hvinur sprengiflauganna nálgast.
Ég þarf að róa kvíðann
svæfa áhyggjurnar
syngja
og sussa
sussa bía, sussa.
Ég tilheyri hópnum á biðstofunni
tilheyri biðstofunni
ætluðu
kjörlendi mínu.
Ég bíð eftir landvistarleyfi
tilheyri biðinni
án þess að vita
hvar væntingar mínar lenda.
Ég lýg að mér sannleiksorðum, óvænt
speglast ég í verslunarglugganum
stansa af forvitni, spegla mig betur
sé mig á stéttinni með sólgleraugun
sé mig speglast
í spegilmynd þeirra
inn í eilífa endurtekningu spegla og mynda.
Óljóst glittir í sýningargínu
handan við glerið.
Ég rýni í spegilmyndina
sé mig renna saman við gínuna
eftirmyndina
fyrirmyndina.
Við hlið mér situr og upphrokast
tannhvöss hlébarðastytta
táknmynd draums
um ógnandi frelsi
gæludýr okkar fólksins.