Æviágrip
Anton Helgi Jónsson fæddist 15. janúar 1955 á Sólvangi í Hafnarfirði. Fyrstu æviárin bjó hann í Hraunkoti við Hellisgerði en seinna í Sjálfstæðishúsinu við Strandgötu þar sem móðir hans var húsvörður. Toni, eins og flestir kölluðu hann, gekk í Lækjarskólann, var í bekk hjá Herði Jafetssyni og vissi ekki betur en hann lifði í besta heimi allra heima. Tólf ára fluttist hann til Reykjavíkur og bjó þar síðan í mörg ár en flutti að lokum aftur í Fjörðinn og býr þar núna.
Auk þess að fást við ritstörf hefur Anton Helgi Jónsson starfað við eitt og annað um ævina. Hann vann m.a. sem sviðsmaður hjá Leikfélagi Reykjavíkur í nokkur ár og var seinna forstöðumaður þjónustumiðstöðvar fyrir fatlaða stúdenta í Stokkhólmi. Þá hefur Anton einnig unnið við auglýsingagerð og almannatengsl og rak um tíma fyrirtæki á því sviði. Anton lagði stund á heimspeki og bókmenntafræði við Stokkhólmsháskóla.
Anton Helgi Jónsson hefur einkum fengist við ljóðagerð en hefur einnig gefið út eina skáldsögu og birt nokkrar smásögur í tímaritum. Skáldsagan heitir Vinur vors og blóma og kom út 1982. Þá hefur hann skrifað nokkur leikrit og þýtt önnur. Mesta frægð hefur Anton líklega fengið fyrir útvarpsleikinn Frátekna borðið í Lourdres. Handritið hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni hjá RÚV og var í kjölfarið þýtt á nokkur tungumál.
Anton Helgi hefur setið í nefndum fyrir hönd Rithöfundasambandsins í tengslum við bókmenntaverðlauna og úthlutun styrkja til höfunda.
Heimasíða : anton.is
Um höfund
„Í mínum skáldskap er leyfilegt að hlæja“: Anton Helgi Jónsson
Titillinn á áttundu ljóðabók Antons Helga Jónssonar, Tvífari gerir sig heimakominn (2014), er afar viðeigandi í ljósi ferils skáldsins, en hann á sér í raun og veru tvö skáldalíf, fyrir og eftir síðustu aldamót.
Fyrsta verk Antons Helga var ljóðabókin Undir regnboga, sjálfsútgáfa frá árinu 1974, en þá var hann 19 ára. Fimm árum síðar kom Dropi úr síðustu skúr út hjá Máli og menningu og vakti þónokkra athygli. Eins og mörg önnur ljóðskáld reyndi höfundur sig næst við skáldsögu, Vinur vors og blóma (1982). Þar á eftir byrjar hann að skrifa leikrit, fyrst Aðlaðandi er veröldin ánægð (1984) sem sýnt var hjá Thalíu, leikfélagi Menntaskólans við Sund. Ári síðar gaf hann út þriðju ljóðabókina, Ljóð nætur, í takmörkuðu upplagi; „Hvatamaður útgáfunnar var vinur skáldsins, Guðjón Davíð Jónsson, en hann teiknaði myndir og hannaði bókina sem hluta af skólaverkefni við MHÍ,“ segir á heimasíðu Antons, http://www.anton.is/ljodabokarbras/. Meginhluti þeirrar bókar birtist í fjórðu bók Antons Helga, Ljóðaþýðingar úr Belgísku (1991).
Eftir það tekur Anton Helgi sér langt hlé frá útgáfu ljóðabóka og skrifar og þýðir nokkur leikrit fyrir svið og útvarp. Á nýrri öld hallar hann sér svo að ljóðinu á ný og 2006 sendir hann frá sér limrusafnið Hálfgerðir englar og allur fjandinn, bók sem er á mörkum þess að vera bókverk, en limrurnar eru færðar í myndrænan búning á margvíslegan hátt. Sú bók vakti ekki mikla athygli, ekki fyrr en hún var gefin út á ný, í endurskoðaðri útgáfu, en í millitíðinni hafði Anton Helgi sent frá sér tvær ljóðabækur sem nutu mikilla vinsælda, Ljóð af ættarmóti (2010) og Tannbursti skíðafélagsins (2011). Og árið 2014, eins og fyrr segir, birtist Tvífari gerir sig heimakominn. Síðan þá hefur Anton aðallega birt ljóð og greinar í tímaritum og á vefsíðu sinni, auk samfélagsmiðla.
Með þessari nýju syrpu hefur höfundaferill Antons gengið í endurnýjun lífdaga, sem er fagnaðarefni, því ljóð hans eru sérdeilis skemmtileg – bæði íhugul og uppfull af athyglisverði rýni á smáatriði og heildarmyndir og svo afar fyndin á köflum, eða eins og segir í ljóðinu „Einn á hvítum“, þá er leyfilegt að hlæja í skáldskap Antons (úr Ljóðaþýðingar úr Belgísku).
Ljóð I
Eitt helsta einkenni ljóða Antons er hversu fimlega hann vinnur með tungumálið og nýtir það til að varpa nýrri sýn á viðfangsefni sín – og tungumálið sjálft. Þetta er þó ekki endilega áberandi í fyrstu ljóðabókinni, Undir regnboga. Hún er að mestu frekar hógvær og hefðbundin fyrsta ljóðabók skálds, uppfull af ástarljóðum um bros og kossa sem koma ljóðmælanda í sólskinsskap. Önnur ljóð lýsa vori og hausti og öðrum kunnuglegum viðfangsefnum ljóða.
Inni á milli eru þó áhugaverðar myndir, eins og í „Undrum“, en þar undrast ljóðmælandi ekki að skipt sé um hjörtu í fólki, „Hitt finnst mér alltaf skrítið / að ég heyri hringla í sparibauk / þegar hjörtun hætta að slá.“ Þó tónninn sé í það heila frekar dramatískur, þá bregður líka fyrir íróníu eins og í „Örlög“ þar sem ljóðmælandi heyrir grát um nótt fyrir utan heimili sitt. Þar situr hann sjálfur með „tárvota kinn“:
Einmanaleikinn
í borginni býr
sorgin er skáldleg
og við-
við munum aldrei hittast.
Sá leikur með tungumálið sem seinna varð áberandi stingur upp kollinum í „Ljóð“, en þar gengur ljóðmælanda illa að læra reglurnar og hefur ekki stjórn á farkosti sínum; „því eitt er víst: / oft ek ég tilfinningum mínum / yfir á rauðu ljósi.“
Í Dropa úr síðustu skúr er hinsvegar öllu meiri sláttur á skáldinu og tökin hans á ljóðinu orðin mun sterkari. Bókin hefst á ákalli til skáldskaparins, ljóðmælanda er hugstæð „kýrin / sem ágæt þótti / af öðru meir en bauli.“:
Gefið hljóð
ú opna ég fjósið
læt þanka mína út
í glórulaust vorið.Huppa frá Kluftum blessuð nytjaskepnan
á básinn þinn kemst aldrei vængjað hross.
Ó skáldkýrin snjalla
já þú skalt vera skáldkýrin mín snjalla.
Bókinni er svo skipt niður í fjóra kafla sem nefnast „Heimslystarsálmar“, „Farsælda Frón“, „Mánudagar“ og „Þjóðvísur“. Fyrsti hlutinn inniheldur þrjú ljóð sem snúast að mestu um ljóðmælanda sjálfan sem lýsir sér sem útlendingi, án þess þó að hafa ferðast, bendir á að letin sé dyggð og loks skrifar hann ástarljóð sem enginn mun skilja til fulls nema viðtakandinn. Heimslystin minnir meira á ólyst og ádeila á þjóð og þjóðrembu einkennir einnig næsta hluta, „Farsælda Frón“. „Á Skeiðarársandi“ dotta börnin í bílnum „uns kemur að straumþungu kóki“ og Siglufirði er lýst sem smábæ „í herpinót skyndigróðans“ – „Var það örugglega síldin sem brást?“ Helsti kostur Djúpavogs er að lesa má úr „hörundslitnum / að menn af ýmsu þjóðerni / vörðu stofninn gegn úrkynjun.“ Þjóðsagnastef stinga sér niður í „Hvalfirði“ þar sem draugar vafra um hálsa og „í tjörnum leynast skrímsl“, en verksmiðjutröllið „Í Straumsvík“ bregður ekki svip þó dagur renni upp. Á 17. júní í Reykjavík er fáninn „Á Stjórnarráðinu“ talinn „lævís auglýsing á ullarvörum / ætluð bjórvana túristum“ og spariklætt fólk, „Nýkomið úr verkfalli“, labbar um bæinn og „telur sig sömu þjóðar og viðsemjendur“.
Þessi pólitíski tónn heldur áfram í „Mánudögum“, en fyrsta ljóðið fjallar um alla mánudagana í lífi verkamannsins: „Handan við stimpilklukkuna / gína stórverslanir yfir æti“. „Textar úr veruleiknum West Side Story“ taka herstöð Bandaríkjanna í Keflavík fyrir, en fjórði hluti þess endar svo:
Já, í gullnu hliðunum á Miðnesheiði
talar Sankti Pétur ensku.
Englarnir jórtra tyggjó
gagnteknir af yfirþyrmandi friði.
Síðustu tvö ljóðin eru stef við þekkt ævintýri þar sem spunakonan segir sína hlið af svefni Þyrnirósar og hvetur sitt fólk til að láta hana sofa áfram og „Bak við fjöllin sjö“ lýsa dvergarnir reynslu sinni af Mjallhvíti. Í „Þjóðvísum“ er fjallað um föðurleit, en faðirinn er huldumaður og sonurinn saknar þess að þekkja hann ekki og lofar að sjálfur skuli hann gera betur. Það endar þó svo að hann og barnsmóðir hans eru aðskilin, „leitin er á enda ég hef hlaupið apríl / fundið huldumanninn / í mér sjálfum“.
Þrátt fyrir alla ádeiluna er húmorinn aldrei langt undan, án þess þó að grafa undan alvarleikanum. Húmorinn er enn meira ríkjandi í Ljóðaþýðingum úr Belgísku, en titillinn sjálfur er dæmi um orðaleiki skáldsins. Belgíska er ekki til sem tungumál (í Belgíu eru töluð tvö tungumál, franska og flæmska, hvorugt kallast belgíska) og ljóðin eru því alls ekki ‚valin og búin til prentunar‘ af Antoni Helga Jónssyni eins og segir á forsíðu, heldur frumsaminn skáldskapur hans. Reyndar leynast þýðingar inni á milli, en þær eru frekar ábyrgðarlausar, eins og „óbirt ljóð eftir ezra pound“ sem fjallar um þann viðburð sem fundur slíks ljóðs væri, í formi miðilssambands ungs íslendings „við erkibiskum atómskálda“. Hitt ljóðið nefnist „skreiðarlest“ og er „eftir Hugo Ball; lauslega þýtt og staðfært“. Hugo Ball var þekktaska skáld Dada hreyfingarinnar og ljóð hans eru romsur af hljóðum og merkingarlausum orðum, enda var það markmið dadaista að hafna tungumálinu, merkingu og samskiptagildi.
Líkt og Dropi úr síðustu skúr skiptast Ljóðaþýðingarnar í nokkra kafla, en munurinn er sá að þar eru kaflaheitinn (blekkingar)leikur. Flestir kaflanir bera yfirskriftina ‚fyrsti þáttur‘ sem gerir fyrsta lestur bókarinnar nokkuð athyglisverðan, því annar þáttur birtist aldrei. Lesandi er því alltaf að byrja upp á nýtt og auðvelt er að tapa áttum. Bókin er að auki efnismikil, tæpar 90 síður og ljóðin sitja nokkuð þétt á síðunum ólíkt hefðbundinni uppsetningu þar sem hvert ljóð fær sína síðu. Eins og fram kemur að ofan eru þetta í raun tvær bækur og þess sjást nokkur merki, því öfugt við agaða byggingu Dropa úr síðustu skúr eru Ljóðaþýðingarnar mun sundurlausari, sem kannski á við þar sem um ‚þýðingar‘ er að ræða og það úr tungumáli sem ekki er til.
Í bókinni ægir því öllu saman, konkretljóðum, ljóðabálkum, ádeiluljóðum, næmum ljóðum um móður, fimmaurabröndurum og ljóðum um ljóð og það að skrifa skáldskap, en slík áttu eftir að setja mark sitt á nýaldar bækurnar. Eitt sameiginlegt einkenni er þó, sem fyrr vinnan með tungumálið. Líkt og Dadaistar beittu tungumálinu sem vopni gegn algildri merkingu notar Anton ljóðið til að rýna í og kanna möguleika tungumálsins. Þetta birtist einna skýrast í kaflanum „Fyrsti þáttur: Tollari leitar merkingar“ sem endar einmitt á fyrrnefndri lauslegri þýðingu á ljóði Hugo Ball. Þar eru nokkur ljóð sem eru einskonar andljóð og sækja einnig í súrrealisma:
alþingi í nýjum ljóðahætti
bandvanur draumur
og tannburstarnir gjóta
dansandi kenningumsem þokurnar ræða
en broddgöltur gleymirsér við afstæð andvörp
meyrar sekúndur
sárfætt skýandstuttur sigur
brunnin þögn
einn rennandi draumur ogþing
hús
flugunnar
Aðferð súrrealisma að tefla saman ólíkum hlutum og bregða upp ómögulegum myndum birtist hér vel, auk þess sem tannburstinn, sem síðari bók skáldsins dregur nafn sitt af, leikur hér lykilhlutverk. Í tveimur tækifærisljóðum til Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar er dadaisminn nærtækari: „bækur jón að réttum telja / uppteknir / reykdalín // íslenskar // skýra uppúr / menn / aðra rifja / hér útirauðsmýri snemma / upphátt mikill“. „Bréf til Láru“ hefst svo: „blóðmörskeppur ritlist ég forklárast / titrandi innblæstri lyftingu / ljómar átölur raust umturnar“. Þessar romsur eru einna helst í anda Æra-Tobba. Þessi kafli inniheldur einnig konkretljóðin og þau sem snúast hvað mest um skáldskapinn sjálfan, eins og „stand in“:
(skáldið flutti
ljóðiðyfir á næstu síðu
og skrapp á klóiðmerkingin ein
bíður)
Ljóðið er einskonar gjörningur, viðburður innan bókarinnar sem ferðast sjálft á milli síðna. Þessi sjálfsmeðvitund kemur einnig fram í neðanmálsgreinum og ýmsum öðrum tilbrigðum við framsetningu, sem bætast við titilinn og kaflafyrirsagnirnar.
Víða er vísað til kunnuglegra fyrirbæra og bókmennta, eins og í ljóðinu „rauðanótt másarans“, en þar ávarpar ljóðmælandi barbamömu og segir: „ekki skella á, ekki / halda að nú ætli ég að stynja upp einhverjum ljóðhrokanum“. Hér er á ferðinni kunnugleg fígúra úr vinsælum frönskum barnabókum, fyrirbæri sem gat auðveldlega breytt um lögun og ljóðið vísar til umbreytinga á ýmsan hátt, enda segir ljóðmælandi „mér geðjast að sífelldum hamförum þínum“. Þó telur hann sig ekki verðugan, „trúðu mér / barbamama / engan veginn geng ég sem fyrirmynd í barnabók“ og segist einnig „fullur af lifandi mótsögnum“:
trúðu mér
barbamama
ljóðið mitt er síst af öllu ljóð
það er tærasti sultardropinn í ár
það leggur sitt af mörkum við að hola steininn
Þannig (af)sannar skáldið orð sín og leggur ljóð sitt á vogarskálar skáldskaparins.
Skáldsaga og leikrit
Skáldsagan Vinur vors og blóma: Saga um ástir og örlög kemur út árið 1982, á tíma heilmikilla umbrota í íslenskum skáldskap. Nýraunsæið er að víkja fyrir nýjum atlögum að skáldsögunni og þarna eru að koma fram höfundar sem áttu eftir að setja varanlegt mark sitt á íslenskar nútímabókmenntir. Sem dæmi um verk sem komu út sama ár má nefna Riddara hringstigans eftir Einar Má Guðmundsson, Af manna völdum eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Hjartað býr enn í helli sínum eftir Guðberg Bergsson, Vegurinn heim eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, Heitur snjór eftir Viktor Arnar Ingólfsson og Hallærisplanið eftir Pál Pálsson. Sú síðastnefnda er sérlega markverð fyrir að fjalla um unglinga í miðbæ Reykjavíkur en á þessum tíma var pönkið áberandi – kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík, var frumsýnd sama ár. Pönkið var þó ekki allsráðandi því tímabilið einkenndist meðal annars af átökum við diskó, sem skipti ungmennum í tvo hópa sem enn eimir eftir af. Þessi átök áttu sér svo einskonar hliðstæðu í pólitískum átökum þessa tíma, milli vinstri og hægri manna, samstöðu og gróðahyggju. Og það eru þessi átök sem eru bakgrunnur sögu Antons Helga, en þar segir frá ‚okkar manni‘, Magnúsi sem þráir helst að eignast fjölskyldu og verða stöndugur maður. Helsta vandamálið er að hann veit ekki alveg hvað hann vill, er ekki sérlega fastur fyrir og lætur auðveldlega tilleiðast í hitt og annað sem ekki er kannski heppilegt fyrir framtíðaráformin. Stéttabaráttan og græðgisvæðingin sem þarna er lýst er sérlega sláandi í ljósi þeirrar umræðu sem einkennt hefur pólitískt landslag tuttugustu-og-fyrstu aldarinnar og bókin er athyglisverð bæði sem vitnisburður um sinn tíma og það hvernig fátt breytist. Í lokin streymir neysluhyggjan fram þegar Magnús stendur frammi fyrir búðarglugga:
Í fallegum öskjum nýju sængurfatasettin, gul og rauð og blá, upplífgandi í svefnherbergin, unaðsleg umgjörð um samfarirnar, trygging fyrir ljúfum draumum. Alveg nýtt. [...] Allt fyrir herrann, allt fyrir dömuna. Og heimilið. Mogadon hvíldarstóllinn. Kósi-korner sófasettið. Nýju Lunatic sjónvarpstækin. Bókahillur og skápar sem raða má á ótal vegu, glæsilegt í höll sem hreysi – og í hillurnar fást ritsöfn, ritsöfn nóbelskálds, alþýðuskálda, kvennaskálda; í svörtu, í bleiku; meter, tveir metrar, þrír metrar. [...] Vanti þig styttu á borðið fæst hún hér; hinar heimsfrægu Breakeable postulínsstyttur; englarnir Frans frá Assisí talar við fuglana, Móðirin gefur barni brjóst. Bandaríkjaforseti talar við þriðja heiminn. Allt í hvítu, lit hreinleikans og einlægninnar. Og hér fæst þvottavélin sem fer sigurför um heiminn, auðveldari en allt sem áður þekktist, fyrir suðuþvott, heitþvott, bleiuþvott, viðkvæman þvott, ullarþvott, heilaþvott, stífan þvott, forþvott. Hárþurrkur, krullujárn og saumavélar. Og frystikistur sem taka fjögur lík. Ilmvötn fyrir dauðvona. (168)
Það þarf ekki að koma á óvart að Magnúsi er bent á að hann sé nú ansi orðhagur og ætti jafnvel að vinna á auglýsingastofu.
Að auki er skáldsagan um margt nútímaleg fyrir þá sjálfsmeðvitund sem er gegnum gangandi og hefur verið kennd við póstmódernisma, en á þessum tíma eru slík verk einmitt að ryðja sér til rúms. Anton er sjálfur persóna í bókinni (sem ungskáldið Toni sem hefur nýlega gefið út ljóðabókina Undir regnboga) og staða höfundarins er þannig flækt, en umræður um bókmenntir (og listir) dúkka annað slagið upp.
Þrátt fyrir að skáldsagan hafi hlotið frekar jákvæðar viðtökur og þótt athyglisvert innlegg sneri Anton sér aftur að ljóðinu og það er sem ljóðskáld sem hann er þekktastur í dag – enda segir í „Poste restante“: „Verst / hvað ég er mikið skáld.“ (Ljóðaþýðingar úr Belgísku)
Auk skáldsögu og ljóða hefur Anton Helgi samið nokkur leikrit fyrir svið og útvarp eins og áður segir. Þar vinnur hann með ýmis þemu úr skáldskap sínum, lúmskan húmor, ádeilu og sjálfsmeðvitund, en einnig má greina ágengari rödd en þá sem einkennir ljóðin og skáldsöguna. Anton vinnur á áhugaverðan hátt með leikritaformið og það er greinilegt að hann nýtir vel reynslu sína af leikritaskrifum í ljóðunum, eins og kemur einna berlegast fram í hinum mörgu ólíku röddum sem tjá sig í Ljóðum af ættarmóti.
Ljóð II
„Hver erum við? / Hvar erum við? / Erum við / við?“ Svona hefst eitt ljóðanna í Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson. Þetta er afskaplega kunnugleg tilvistarleg spurning sem öðlast nýtt líf í þessu samhengi, því þótt ættarmótið sjálft komi aldrei til tals utan titlisins, þá er óhjákvæmilegt að lesa ljóðin í ljósi þess. Þannig verða spurningarnar áhugaverðar á nýjan hátt, því ættarmótið sem vísað er til má skoða í samhengi örsamfélagsins Íslands: „Ég get ekkert sagt. / Ég er sonur mömmu. / Ég er frændi. Ég er mágur. Ég er vanhæf.“ Bókin endar svo á því að elsti Íslendingurinn deyr, aftur: „Elsti Íslendingurinn er látinn. Lifi elsti Íslendingurinn.“
Annað einkenni bókarinnar sem ein tilvitnanana hér að ofan leiðir í ljós er kynjaflöktið, sem í þessu tilfelli kemur til af því að raddirnar eru margar og af öllum kynjum. Stundum er jafnvel skipt um kyn í miðju ljóði, eins og hér að ofan. Þanngi skapast furðulega skemmtileg tilfinning fyrir margröddun, einskonar mennsku fuglabjargi þar sem hver talar upp í annan, segir sögur af sér (eða ekki), sumar raddir láta mikið fyrir sér fara, aðrar - flestar - eru hljóðlátar og íhugular. Hver er ég í þessu samhengi á þessum stað?
Það er svo sannarlega ýmislegt sem kemur upp. Fyrsta röddin svarar spurningunni um „hvað hafi orðið úr mér“ og segist hafa „gert ágætis mistök“. Önnur man hvernig var þegar hún fæddist: „Svartþröstur hoppaði um garðinn. / Þrífættur köttur gægðist fyrir horn.“ Tvö ljóð lýsa landinu og landsbyggðaflóttanum. Landið er svona: „Grjót. Mosi. Vatn“ í sex mismunandi útgáfum. Og þegar gamli bóndinn, sá sem hélt út hvað lengst á jörðinni dreymir að Lykla-Pétur leiði hann inn í himnaríki en þar sér hann engan sem hann þekkir: „Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur. / Þitt fólk er allt farið suður.“
Hér birtist húmorinn sem einkennir mörg ljóðanna, þó kannski sé ekki beint um hefðbundna íslenska fyndni að ræða. Ekki er þetta heldur beint írónía, heldur frekar einhverskonar íhugul kímni með grátbroslegum undirtónum eins og í ljóðinu um ellilífeyrisþegann sem er hættur störfum en þó ekki gagnslaus: „Ekki batnar mér samt af ellinni.“
Annað einkenni er einmanaleikinn, sem er vissulega annað kunnuglegt ljóðstef, en lifnar í þessu samhengi ættarmótsins. Ein vaknar alltaf ein, og önnur hefur ekki fengið boðskort. Í þá þriðju er aldrei hringt, hvorki sölumenn né skoðanakannanir ónáða hana yfir matnum. Einn hittir þarna fyrir kvíðann og er feginn að þekkja þó einhvern, en svo eru það líka ljóðin sem fjalla um þörfina fyrir að sleppa undan sjálfum sér, en hvorki barinn né það að flytjast til annarra landa dugir. Enn einn er fullur af óljósri löngun í eitthvað, en það er ekkert sem freistar í ísskápnum.
Kannski eru það einmitt örlög Íslendingsins, að vera alltaf einn og alltaf að bíða eftir einhverjum öðrum, eins og segir í einu ljóðinu:
Íslendingur er maður
sem leitar að öðrum.Á krá erlendis
líta fæstir upp úr kollunni
þótt einhver síðbúinn komi inn.Bara einn lítur til dyra.
Hann væntir þess alltaf að hitta annan.
Á þennan hátt byggist upp dálítið mögnuð tilfinning fyrir óþoli í ljóðunum, allir eru á einhvern hátt að leita að einhverju, óska eftir einhverju, sambandi, friði, tengslum, því að láta ljós sitt skína eða bara að segja sögu sína. Raddirnar tala hver upp í aðra og það er ljóst að þarna á sér ekki stað neitt samtal milli þeirra, heldur hljóma þær allar hver úr sínu horni. Þó er ljóst að margar þeirra eiga ýmislegt sameiginlegt, eins og til dæmis þessa leit, eða þörf fyrir leit.
Er þetta niðjatalið?
Já, þetta er niðjatalið.
Svona tala niðjarnir.
Í Tannbursta skíðafélagsins eru einnig fjölbreyttar raddir þó tengslin milli þeirra séu ekki eins sterk. Fyrsta ljóðið, sem einmitt nefnist „Tannbursti skíðafélagsins“, má mögulega sjá sem einskonar stefnuskrá ljóðsins. Þar er sögð saga af fundi sem fjallar um stöðu ljóðsins. Óvæntur fundargestur segir sögu af manni sem tannburstaði sig í skála og reyndist hafa tekið traustataki tannbursta annars skálagests: „Ég hélt þetta væri tannbursti skíðafélagsins.“ Niðurstaða ljóðsins er þá að ljóðið sé einmitt tannbursti skíðafélagsins, allra gagn, ef þeir vilja nota það.
Í framhaldinu tekur svo við fjölbreytt og forvitnileg ferð um lendur ljóðsins sem gefur einmitt vandlega til kynna að ýmsir hafi tekið sér þennan tannbursta í munn, við ýmis tækifæri.
Í fyrirlestri á málþingi í Basel í Sviss, um kreppu og íslenskar bókmenntir, fjallaði Bergljót Kristjánsdóttir um Ljóð af ættarmóti og tengdi kreppunni, setningin „Ég get ekkert sagt“ fékk þar vægi sem dæmigerð fyrir ástandið, bæði á tímum gróðæris og kreppu (sjá grein Bergljótar, „“Ég get ekkert sagt.“. Skáldskapur og hrun“ í Ritinu, 2:2011). Og eins og fram hefur komið hér að ofan hikar Anton Helgi ekki við að vera pólitískur, bæði í ljóðum og lausu máli. Tannbursti skíðafélagsins geymir nokkur ljóð sem lesa má í ljósi samfélagsástands, sum á beinskeyttan hátt eins og ljóð númer 3 í bálki sem mögulega ber yfirskriftina „7 x ávarp fjallkonunnar eða I miss Iceland“.[1] Í þessu ljóði brýst fram gróðærisafkvæmið sem langar í allt, sparnað, lífeyrissjoð, handsmíðað úr, fótboltalið – og ljóðið endar á sífrun: „Mig vantar svo vantar svo / vantar svo vantar svo vantar svo / vantar svo vantar svo vantar svo / vantar.“
Auk ádeilunnar er gamalkunnur húmor skáldsins ríkjandi og birtist bæði í viðfangsefni og beitingu tungumáls. Ljóðið um hrafninn og loftandann, „Flugatvik í Dyradal“, er til dæmis bráðskondið, en þar veltir hrafn sér á flugi opnar gogginn og gleypir loftanda. Þetta veit ljóðmælandi þó ekki fyrr en hann kemur heim því þar hann flettir „upp í gamalli bók / sem útskýrir atferli hrafna.“ Hér birtist á lipran hátt sýn nútímamannsins sem hefur ekki lengur þjóðsagnaarfinn á hraðbergi, en veit nóg til að fletta honum upp. Tengslin eru ekki alveg rofin, en þau er fyrst og fremst ekki eins saumlaus og oft vill vera í skáldskap sem inniheldur tilvísanir af þessu tagi. Annað skondið ljóð af svipuðu tagi er „Eyðidalurinn“ en þar spyr einhver hvað hafi orðið „um huldufólkið / eftir að fór í eyði?“ Þriðja náttúruaugnablikið er „Bensínstöði við þjóðveginn“, en þar horfir ljóðmælandi inn eftir dal meðan hann dælir bensíni á bílinn og er ákveðinn í að „snúa aftur við betra tækifæri. / Kanna dalinn.“ Nema að næsta ár stendur hann á sama stað og hugsar það sama. En hann gefst ekki upp: „Næsta sumar ætla ég að koma hingað aftur / dæla bensíni á bílinn og horfa inn eftir dalnum.“
Önnur ljóð lýsa hversdagsleika og borgarlífi. „Miðaldra helgi“ fjallar um Ikea og segir frá hjónum sem vantar ekki neitt, en fara samt á föstudögum Í Hagkaup og Ikea, aðallega þó „til að rekast á gamla vini og kunningja.“ En í leiðinni kaupa þau varning sem þau hafa ekkert við að gera og þá er að leigja sér söluborð í Kolaportinu og hitta þar fleiri gamla vini. Loks enda þau á Vínbarnum, með tekjurnar af sölunni „og ná restinni“. Hér birtist skemmtilegur fatalismi nútímamanneskjunnar sem veit einfaldlega ekkert hvað hún á af sér að gera í gráma hversdagsins. En hversdagurinn þarf ekki alltaf að vera svona dauflegur, í „Pottur með eyru“ læðist ljóðmælandi (eða er hann potturinn?) niður „til að hlera hvað þeir væru að segja.“ Eru ‚þeir‘ pottar? Allavega er einn með heimþrá, annar segist vera framandi og sá þriðji álítur að hann verði aldrei neitt. En skjótt skipast veður í lofti.
Lokaljóðið, „Huldubókasafnið í Hafnarfirði“, lýsir bókasafni, en þar líta allar bækur út fyrir að vera eitthvað annað en þær eru. Afgreiðslumærin útskýrir: „Við notum ykkar stafróf, ykkar letur, en okkar mál er annað og fleira en þér kann að virðast á prenti.“ Þetta býður að sjálfsögðu uppá endalausa möguleika og kallast á við þá nálgun sem skáldið hefur á ljóðið, ekki síst í ljósi dadaískra tilvísana í Ljóðaþýðingum úr Belgísku.
Einskonar vinna með sjálf(smeðvitund) og raddir er einnig til staðar í Tvífari gerir sig heimakominn. Og líkt og í skáldsögunni og leikritunum er skáldið að fjalla um hversdagsleikann, þann hversdagsleika sem er alltaf eins en þó ekki. Eða eins og kemur fram í ljóðinu „Eftirþankar leiktjaldamálarans“:
Ég hef víða þvælst um ævina og málað ýmsa fleti
en aldrei vitað hvaða svæði
vöktu helst athygli
á handverki mínu
þau sem mér tókst að þekja
eða hin sem óviljandi urðu útundan.Þetta er sagan um líf mitt og störf.
Ég veit ekki hvaða orð lýsa mér best
þau sem ég sagði og setti á blað
eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota.
Ljóðið fjallar reyndar um helgidaga, bæði þá sem teljast (gagnslausir) frídagar og svo þá sem verða til við misjafna málningarvinnu. Helgidagarnir eru auðvitað lykilhluti hverdsagsleikans („Ekkert hægt að gera. / Ekkert hægt að kaupa. / Allt var lokað og enginn vissi hvers vegna.“) og það er hversdagurinn sem skín í gegn þegar helgidagurinn birtist á leiktjaldinu.
Handboltaleikurinn skiptir gamalmennin á elliheimilinu litlu, aðalatriðið er að koma skyrinu upp í munninn á því: „og endurtek ótvíræð hvatningarorð / Borðaðu nú skyrið þitt, pabbi“ („Seinni hálfleikur á dvalarheimilinu“). Og ekki má gleyma ánamöðkunum:
Séð og heyrt úr beðinu
Það fréttist ekki mikið úr lífi ánamaðkanna
meðan við sitjum hérna á pallinum
og drekkum volgan ávaxtasafa.Núna gætu elskulegar hlussur
verið að draga sig saman
þarna úti í beðinu.Við þurfum ekki að nefna nein nöfn.
Tveir ánamaðkar, hann og hann
skrúfa sig oft listilega saman
strax á fyrsta hittingi
og dæla sæði
hvor í annan
eins og herrum einum er lagiðen skiljast svo að og eru þá hún og hún
tvær
með frjóvguð egg.Þannig eru ánamaðkarnir
fyrst eru þeir eitt
og svo eru þær annaðog þannig er allt lífið
eitt
og annað.
Þannig getur hversdagsleikinn líka verið fullur af ævintýrum, eins og í „Verslunarmannahelgin í borginni“ þar sem húsin í Árbæjarsafni slá upp dansiballi eða þegar hvalur blæs á Miklubrautinni:
Hann maraði í yfirborði götunnar
en bílarnir tóku fram úr
án mikilla vandræða.
Á móts við innstu húsin
stakk hann sér loks í djúpið
og sporðurinn reis yfir malbikið.
Hér er fer minna fyrir ádeilu en oft áður, þó vissulega kannist margar konur sjálfsagt við sendiferðabílstjórann sem er sífellt að villast og alltaf að spyrja konur til vegar „og horfist í augu / við geirvörtur konunnar“ („Botnlangi“). Einnig kannast margir við sjálfa sig í lýsingunni á dagblaðalestri í „Maður kominn á miðjan aldur flettir blaðinu“, en hann les ólíkar fréttir af fjárfestingum og jarðsprengjum og reynir að ímynda sér hvað fólk í Mósambík heitir. Þessi ljóð vísa til mikilvægis þess að vera meðvitaður um umhverfi sitt og sjálfan sig, eins og „Óskilapésinn“, sem bíður eftir sektarlausa deginum:
Þegar sektarlausi dagurinn kemur
þá fer ég á safnið
þá fer ég og skila bókinni
þá fer ég með mig í leiðinni og játa allt mitt líf.Á sektarlausa deginum játa ég allt mitt líf.
Tvífarinn býður því upp á annarskonar ádeilu, en segja má að deilt sé á hversdaginn, eða kannski aðallega hugmyndir okkar um hversdaginn, það að láta stjórnast af rútínu og gráma. Þessari ádeilu er komið á framfæri með því að gefa hversdagsleikanum ævintýralegt yfirbragð, en birtist einnig í þeim tilvísunum til einmanaleika og ósýnileika sem finna má í ljóðunum, einmitt þeim ljóðum sem kalla tvífarann hvað ákafast fram. Hver er ég í hinu daglega lífi og hver er ég utan þess? Í „Fantasíu á morgunvaktinni“ sendir starfsmaður matvælaframleiðandi kveðju með einum matarbakkanum, kveðju til þess einstaklings sem síðar mun sitja einn og borða matinn:
Þú lítur upp og reynir að horfa í augu mín
þar sem ég sit ekki handan við borðið.Þú ert betri en enginn
og ég
gæti líka verið betri en enginn.Þetta segir þú
við mig
þar sem ég sit ekki handan við borðið.
Titilljóð bókarinnar lýsir samskonar tilfinningu, en þar stendur ljóðmælandi fyrir utan heimili sitt „og kemst ekki inn.“
Ég kemst ekki inn.
Kemst ekki inn í líf mitt.
Kemst ekki inn í drauma mína.Ég stend hér utan við mig.
Utan við veröld mína.Takk.
Ég hef átt ágætis líf.Ég er löngu kominn heim.
Ég sef í mínu rúmi.
Mig dreymir.
Vissulega hefur einmitt þessi tilfinning fylgt ljóðinu um langan tíma, en álíka stef fjarveru og ókennilegrar einsemdar stórborgarlífsins er einkenni nútímaljóðsins, eins og birtist svo vel í atómljóðunum svokölluðu. Hér birtist þó önnur hlið þessarar skynjunar, bókstaflega, því ljóðmælandi hér er ekki aðeins sá sem upplifir sig fjarri, hann er einnig sá sem er nær; sýn hans er klofin – eða tvöfölduð. Eða eins og segir í „Eftirþönkum leiktjaldamálarans“:
Ég veit ekki hvaða orð lýsa mér best
þau sem ég sagði og setti á blað
eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota.
Þetta minnir nokkuð á mörg ljóðanna í Belgísku þýðingunum, en þar er staða skáldsins nokkuð til umræðu. En í ljóðinu um leiktjaldamálarann má einnig sjá samslátt þriggja hliða skáldskapar Antons Helga: ljóðið, leikritið og myndina. Ljóðabókin Hálfgerðir englar og allur fjandinn sem birtist fyrst árið 2006 og svo í endurskoðaðri útgáfu sex árum síðar, er afar myndræn og hönnuð af skáldinu. Brotið er smátt og ljóðin eru felld inn í myndir sem styðja við þau. Sömuleiðis er Tannbursti skíðafélagsins mjög myndræn. 31. ágúst 2017 opnaði Anton Helgi ljóðasýningu ásamt myndlistakonunni Sossu. Þannig heldur Anton áfram að leika sér með form og miðla, raddir og sviðsetningar.
Að lokum má geta þess að öll ljóð Antons Helga má nú lesa á heimasíðu hans, www.anton.is.
úlfhildur dagsdóttir, júní 2020
[1] Anton Helgi hannar bókina sjálfur. Sum ljóðanna eru sett upp á myndasíðum og sum birtast með stærra letri á gráum síðum. Þau eru örstutt og virðast geta verið hvort í senn, ljóð eða kaflafyrirsagnir.
Greinar
Umfjallanir um einstök verk
Ljóð af ættarmóti
Úlfhildur Dagsdóttir; „Tilvistarlegt ættarmót“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Tvífari gerir sig heimakominn
Úlfhildur Dagsdóttir: „Tvífari hversdagsleikans“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2014 - Ljóðstafur Jóns úr Vör
2009 - Ljóðstafur Jóns úr Vör
1995 - Fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni Ríkisútvarpsins
1989 - Verðlaun í Ljóðasamkeppni Menningarmálanefndar Akureyrar
1980 - Fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Vikunnar
Handbók um ómerktar undankomuleiðir
Lesa meiraHöfuðljóð
Lesa meiraTvífari gerir sig heimakominn
Lesa meiraHálfgerðir englar og allur fjandinn, endurskoðuð og aukin útgáfa
Lesa meiraTannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð
Lesa meiraLjóð af ættarmóti
Lesa meiraHálfgerðir englar og allur fjandinn
Lesa meiraHótel Hekla. Leikrit með ljóðum
Lesa meira