Beint í efni

Eldfórnin

Eldfórnin
Höfundur
Vilborg Davíðsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1997
Flokkur
Skáldsögur

Úr Eldfórninni:

Systir Jórunn stóð við opna fatakistu Katrínar og hélt á gullastokknum, þeim hinum sama og þeim hafði lent saman út af fyrsta dag Katrínar í Kirkjubæ. Systir Jórunn leit upp full sektar þegar hún kom inn en lagði stokkinn þó ekki frá sér og sagði ekkert sér til afsökunar og virtist næstum annars hugar. Hafði hún horft á Pál skera út þennan stokk fyrir laundótturina? Katrín fann reiðina bála upp. Þú átt ekkert með að rjála við mínar eigur, næstum hvæsti hún og teygði sig eftir stokknum, reif hann úr höndum konunnar og hélt honum að brjósti sér. Af hverju geturðu ekki séð mig og mitt í friði? Af hverju hatarðu mig svona mikið? Systir Jórunn horfði á hana þögul stundarkorn, mældi hana út, augnaráðið kaldhæðið og Katrín hélt ósjálfrátt niður í sér andanum, vildi ekki lengur fá svar við spurningum sínum, vildi ekki fá að heyra hlið sviknu konunnar. Hún sá eftir að hafa spurt og það hér þar sem karlæga fólkið gat heyrt það sem á milli þeirra fór ef það lagði við eyrun. Vildi ekki finna til með henni, gerði það samt. Jórunn svaraði henni og talaði hægum rómi, eintóna einsog hún hefði æft þessa orðræðu ein með sjálfri sér og kynni hana utanbókar: Ég hirti ekki um það þótt hann færi upp undir vinnukonupilsin, þau voru svo mörg. Við slíku má búast í hjónabandi og konan verður að líta undan, sagði hún. En svo var það Guðrún ein og engin önnur og þá gegndi öðru máli. Hann baðaði sig ætíð áður en hann fór upp í Dal. Þvoði sér og skrúbbaði þar til hann var blóðrisa. Hann var að þvo af sér lyktina af mér, skilurðu? Þvo mig af sér. Þess á milli kom hann ekki í baðstofuna, þreif sig ekki dögum saman eftir að hann kom frá henni. Ég fann af honum lyktina hennar, líka lyngilmi. Kannski veltust þau um úti í móum. Hún sagði þetta hugsandi líkt og það væri eitthvað sem henni hefði dottið í hug núna, öllum þessum árum síðar. Hvað hafði hún sem ég hafði ekki? spurði hún svo en ætlaðist ekki til svars af Katrínu og svaraði sjálf: Það var ekkert sem augað sér, ekkert í útliti móður þinnar gerði hana mér fremri. Ég ól honum tvær dætur og fjóra sonu, þrír þeirra lifa og eiga sjálfir börn. Hún fæddi enga syni og og þú ekki fædd fyrr en mörgum misserum eftir að kynni þeirra hófust. Hann hlaut að vera farinn að halda að hún væri óbyrja. Og hvaða ættfólk átti Guðrún? Ekkert og engan sem nokkru gildir. Fjarskyld Vatnsfirðingum sem þó hafa aldrei látið sig hana nokkru skipta. Faðir minn Gulaþingslögmaður árum saman. Nei, ekkert veraldlegt skipti hér máli. Ekkert af þessum heimi. Hún kipraði saman augun og Katrín hörfaði ósjálfrátt frá henni. Tók eftir því núna að allir í sjúkrastofunni, líka drukknaða konan og jafnvel Sóley skoffín, voru farnir að hlusta. Systir Jórunn hélt áfram, óstöðvandi einsog beljandi jökulfljót: Það sem dró þau saman í upphafinu var það að hún þurfti enga elsku. Ég veit núna að hann hraktist undan mér af því ég sárbað hann að vera hjá mér. Hún hló og lék sér að honum í fyrstunni, hleypti honum ekki nema hálfa leið. En svo snerist dæmið við og hann neitaði að láta hana niðurlægja sig lengur. Þá greip hún til sinna ráða. Katrín saup hveljur, vissi hvað kæmi næst, vissi að undan varð ekki komist. Þessum ljóta orðrómi sem hafði elt hana allt hennar líf, fylgt móður hennar og hennar móður þar á undan. Nei, ekki segja það Jórunn, hættu, ekki það! En Jórunn var búin að bíða lengi. Og hún, sem hafði talað hægum og rólyndum rómi, næstum hrópaði ásökunina fram: Hún beitti galdri, hún heillaði hann til sín!

(s. 71 - 73)

Fleira eftir sama höfund

Vígroði

Lesa meira

On the Cold Coasts

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Die Winterfrau

Lesa meira

Undir Yggdrasil

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Felustaðurinn

Lesa meira

Face to face: i islansk natur

Lesa meira