Nornadómur er framhald skáldsögunnar Við urðarbrunn (1993). Sögurnar voru gefnar út saman undir titlinum Korku saga árið 2001.
Úr Nornadómi:
Korka sat á stórri klöpp í fjörunni og horfði út á Péttlandsfjörð. Það hafði hlýnað í veðri og komið logn. Kvöldsólin varpaði gylltum roða yfir kyrran hafflötinn og segl skipanna, sem lágu við festar úti á víkinni, bærðust varla. Jarlinn hafði fylgt ráðum hennar í einu og öllu. Konungurinn hafði staðfest óskoruð yfirráð hans yfir Orkneyjum og eignarhald hans á öllum óðulunum, gegn því að Torf-Einar greiddi honum sextíu mörk í gulli í sonarbætur. Sumir Orkneyinganna voru reiðir en smábændurnir áttu ekki annars úrkosti en að hlíta skilmálunum. Stórbændurnir sáu fram á að geta leyst óðulin til sín aftur þegar betur áraði. Fullum griðum hafði verið lýst á báða bóga. Að morgni myndu skipin sigla frá Katanesi. Konungur hafði gert það að skilyrði að jarlinn leysti þegar upp her sinn. Sjálfur ætlaði hann með lið sitt til Orkneyjar. Hann myndi hvergi fara fyrr en gjaldið hefði verið greitt að fullu.
(s. 71)