Framhald af skáldsögunni Auður (2009).
Um Vígroða:
Auður djúpúðga elur upp son sinn á eigin jörð á Katanesi. Hún hefur haldið sig fjarri Suðureyjum frá því að leiðir hennar og Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs skildu af ótta við að Ketill flatnefur, faðir hennar, gefi hana manni á ný. Að veturnóttum 865 kemur hún þó í föðurhús, til brúðkaups bróður síns og dóttur Ingólfs Arnarsonar. Þar spá dísirnar því að vígroða muni brátt slá á víkinga í Vesturhafi. Og víst horfir ófriðvænlega á norðanverðum Bretlandseyjum þar sem innfæddir veita norrænum mönnum æ meiri mótspyrnu og Orkneyjajarl ásælist aukin völd. Þá ræðst Dyflinnarkonungur inn í Péttland, öllum að óvörum, og leiðir þeirra Auðar liggja saman að nýju
Úr Vígroða:
Þetta er Auði allt kunnugt en missir aflgjaldanna sem faðir hennar hefur í aldarfjórðung heimt frá Ýl og Dýrey eru henni ný tíðindi. Engu að síður er óþarfi af Þórunni að sýna henni yfirlæti. Ekki hefur fjarvist Auðar frá Suðureyjum átt nokkurn þátt í því hvernig komið er fyrir höfðingjaveldi Ketils flatnefs. Hún er í þann veginn að svara systur sinni snúðugt og spyrja hana til hvers hún ætlist af sér þegar ákafar samræður við karlaborðin vekja athygli kvennanna. Helgi magri Eyvindarson, maður Þórunnar, hefur hækkað röddina.
„Það eru engin lönd ónumin í vestri, Steinólfur. Ég hef heyrt móðurfólk mitt á Írlandi segja sams konar sögur um grænar og grösugar eyjar sem rísa úr djúpinu þegar þoku léttir af sjó. Þar drýpur smjör af hverju strái en sá hængur er á að þessar huldueyjar sökkva í sæ jafnótt og menn sigla þaðan heimleiðis. Og ekki er nokkur leið að finna þær aftur síðar, hversu vel sem leitað er.“ Hann glottir út að eyrum, spéhrukkur birtast í grannleitu andlitinu við augu og munn. „Þessa menn hefur vísast rekið í þokunni að einhverjum eyðihólma rétt vestur af Færeyjum.“
Steinólfur Ölvisson hristir höfuðið. „Fáir þekkja leiðina frá Noregi til Færeyja jafn vel sem Naddoddur mágur minn úr Ögðum, svo oft sem hann hefur siglt þar á milil frá því að hann nam sér land þar í eyjunum. En í þetta sinn fóru saman svartaþoka og sterkir vindar svo að skipið rak lengra í norðvestur en nokkur hefur áður komið eða trúað að sigla mætti án þess að hitta fyrir hrímþursa Niflheims,“ segir hann fastmæltur. „Þeir dvöldu á þessu ókunna landi í þrjár vikur og könnuðu það sem þeir gátu, fóru ´ru firði í fjörð á austurströndinni, og sýndist þar allt óbyggt. eyhólmi er það ekki þvíá þessum tíma tókst þeim ekki að sjá endimörk landsins, svo víðfeðmt og mikið var það. Þeir gengu á hátt fjall og skyggndust þaðan til allra átta en sáu hvergi reyk af eldi eða önnur merki um mannvist. Mikill birkiskógur vex í dölum inn af fjörðum og víkum og í öllum ám og vötnum var veiðin slík að menn höfðu vart undan að draga lax og silung á land. Sjórinn var sömuleiðis spriklandi af fiski og í firðinum þar sem þeir slógu upp búðum sást til hvala svo að þeir nefndu fjörðinn þar eftir og kölluðu Reyðarfjörð. Fuglinn var svo gæfur að víst er að hann hefur aldrei orðið manna var fyrr og því auðvelt að snara hann ogh áfa. Birni og hjartardýr sáu þeir hvergi, þótt vel megi vera að slíkar skepnur sé að finna lengra inni í landinu.“
„Það má furðu gegna að mágur þinn hafi snúið til baka frá þessum sæluströndum,“ skýtur Helgi að kankvíslegur, þó er sem dregið hafi úr vantrú hans. Samræðukliðurinn við borðin er hljóðnaður; nú leggja allir við hlustir, karlar, konur og börn.
Steinólfur lætur sem hann hafi ekki heyrt þessa athugasemd. „Það haustaði mun fyrr á þessu nýja landi en hér um slóðir og þegar lauf trjánna var farið að skipta litum þótti þeim tryggast að sigla aftur til Færeyja og náðu þangað á fimm dægrum í góðum byr,“ segir hann. „En í þann mund sem þeir lögðu í haf snjóaði í fjöll osvo að þau urðu hvít yfir að líta á einni nóggu og því gaf Naddoddur þessu landi nafn og kallaði það Snæland.“ Hann lítur í kringum sig hvasseygur, líkt og hann vilji mana áheyrendur sína til að efast um orð sín.
Ketill einn hváir. „Snæland? Ekki hljómar það gæfulega, hvað sem landkostunum líður. Hyggst Naddoddur leita þess á ný að vori?“
Steinólfur ypptir öxlum. „Varla. Hann þakkar hamingju sinni að hafa náð heilu og höldnu heim eftir þessa tvísýnu.“
„Mágur okkar og systir eiga búsældarlega jörð í stærstu ey Færeyja, Straumsey,“ bætir Einar, bróðir Steinólfs, við. „Þar hefur aldrei verið við Vestmenn að kljást líkt og hér, utan fáeinna munka sem flestir hafa haft sig þaðan á brott. Og þótt allmargir hafi sest í eyjarnar af Hjaltlandi og úr Noregi á undanförnum áratug þá er ekki svo þröngt orðið þar um Naddodd að hann kjósi fremur að byggja þetta land við ystu mörk veraldar. Þess utan er allt óvíst um hvort þar sé vært fyrir kulda að vetrum þótt sumarið væri hlýtt. En vel má vera að aðrir hugsi sér til hreyfings, ekki síst þar sem ófriðvænlega horfir.“
„Þá væri nú fokið í flest skjól ef maður færi á gamals aldri í landaleit í þokusudda í jaðri Niflheims!“ Ketill flatnefur hlær við og hristir úlfgrátt höfuðið en Auður sér að fáir taka undur hlátur hans og sumir eru íhugulir á svip eftir þessi síðustu orð Einars. Fleiri spurningar eru bornar upp við bræðurna um Snæland en þeir hafa litlu við að bæta; hafa sjálfir söguna frá manni sem kom frá Færeyjum í Barreyjar stuttu eftir heimkomu Naddodds.
(48-50)