Beint í efni

Endurkoma Maríu

Endurkoma Maríu
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Seltjarnarnes
Ár
1996
Flokkur
Skáldsögur

Úr Endurkomu Maríu:

ÉG HAFÐI VERIÐ HEIMA Á BLÓMSTURVÖLLUM í tvo mánuði og á þeim tíma náði ég að ljúka við sirkusskápinn. Í raun var þetta hinn fullkomni sirkus, búinn til úr viði, málmi og taui, bæði handknúinn og rafknúinn. Einna erfiðast við smíði hans var að samstilla loftfimleikabrúðurnar þannig að þær gætu kastað hver annarri upp í loft, farið hringi og gripið hver aðra á víxl. Mér vitandi hafði slíkt tæki ekki verið smíðað áður. Sýningin átti að fara þannig fram að fyrst var hvert atriði sýnt fyrir sig, hvert á sínum stað í skápnum, en í lokin skipti ég um gír þannig að gangverk allra atriðanna sameinuðust og þau gengu öll samtímis og blönduðust. Keilur jogglarans breyttust í loftfimleikamenn sem stukku í loga eldgleypisins, og eldgleypirinn varð að töframanni sem veifaði sprota sínum og breyttist í lifandi dúfu sem stóð uppi á skápnum þegar öll hólf hans lokuðust og hörputónlist ómaði. Ég ætlaði að prófa skápinn á torgum úti því þar er maður í mestri nálægð við áhorfendur og finnur milliliðalaust hvað fólki líkar og hvað ekki. Ég smíðaði vagn undir skápinn og málaði á hann rauðum stöfum: Sirkus hinnar guðdómlegu reglu. Síðan hélt ég til stórstaðarins og tók lítið fé meðferðis því ég ætlaði að reyna að lifa af sýningunum á skápnum. Ef það gengi vel ætlaði ég að fá einkaleyfi á honum, selja hann einhverju stórfyrirtæki með samkomulagi um prósentur, kaupa svo sirkus Wallenda og bjarga honum þar með úr klóm bankanna.
 Ég hafði sofnað í lestinni en vaknaði við háreysti á brautarpallinum og leit út um gluggann. Hópur karlmanna hnappaðist í kringum eitthvað sem ég sá ekki og lét dólgslega. Þetta var endastöð. Ég tók töskuna mína og steig út úr lestinni. Sirkusvagninn með skápnum á var kominn á brautarpallinn og til að komast að honum þurfti ég að ganga framhjá þyrpingunni. Ég náði í kerruna en þegar ég var að draga hana framhjá hópnum, þeyttist maður út úr þvögunni, beint í hliðina á mér þannig að ég kastaðist til og missti töskuna sem opnaðist. Ég leit um öxl. Í miðri þyrpingunni sat kona og reyndi að skýla nekt sinni með höndunum. Samt virtist hún vera í fötum. Menn veifuðu framan í hana peningum og reyndu að fá hana til fylgilags við sig með ósæmilegum tilboðum. Er ég virti fyrir mér vangasvip hennar vaknaði hjá mér djúp samúð. Hún leit við, beint í augu mín og brosti. Andartak var ég bergnuminn af fegurð hennar. Þótt margir reyndu að fanga athygli konunnar hætti hún ekki að horfa brosandi á mig þangað til mér fannst ég verða að gera eitthvað. Mér varð litið á töskuna mína sem lá opin á brautarpallinum og töframannsskikkjan mín lafði út úr henni. Án þess að hugsa mig tvisvar um greip ég skikkjuna og ruddist inn í þvöguna.

(s. 32-33)

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Nakti vonbiðillinn

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Læknishúsið

Lesa meira