Beint í efni

Fangar Breta

Fangar Breta
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
Sögur útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Fræðibækur

Um bókina

Vitað er með vissu um 47 Íslendinga sem Bretar handtóku á stríðsárunum frá 1940-1945 og vistuðu í fangelsum í Englandi. Þeir sátu innilokaðir í Bretlandi allt frá nokkrum mánuðum til tæplega þriggja og hálfs árs.  Sakargiftir voru misjafnar og í æði mörgum tilvikum veigalitlar.

Enginn fanganna fékk að leita sér lagalegrar aðstoðar eða verja sig fyrir dómstólum. Iðulega dró fangavistin dilk á eftir sér og skildi eftir djúp ör á sálum þeirra sem lentu í þessum hremmingum. Hér birtist saga þessa fólks.

Úr bókinni

Grámálað varðskipið hafði vaggað á ytri höfninni í Reykjavík í fjóra sólarhringa þessa köldu haustdaga í október. Um borð í matsalnum hímdu sjö manneskjur á aldrinum átján ára til fimmtugs - órólegar, öngur, reiðar, óttaslegnar, fullar óvissu. Farþegarnir gægðust annað slagið út um saltstokkin kýraugun til að sjá borgina sem blasti við augum í nánast seilingarfjarlægð. En þeim var stranglega bannað að stíga á land. Innilokuð í matsalnum minntu þau helst á persónur í lokakafla glæpasögu eftir Agöthu Christie - ef ekki hefði verið fyrir breska hermanninn sem stóð með alvæpni við dyrnar. Úti á þilfari stjákluðu fleiri hermenn um með riffla við öxl. Á þessari stundu vissu þau ekki að þrír úr hópnum yrðu fluttir nauðugir til Bretlands næsta dag.
   Hálfum mánuði fyr, í byrjun október 1940, höfðu þau öll setið í hrörlegum rútum sem renndu þunghlaðnar og hægfara inn í finnska bæinn Petsamo; örsmár og nöturlegur staður á hjara veraldar. Farþegarnir voru Íslendingar sem höfðu ferðast langan veg frá heimilum sínum og dvalarstöðum á Norðurlöndum, alls 258 konur, karlar og börn. Í Petsamo beið strandferðaskipið Esja eftir þeim með 33 manna áhöfn, tilbúið að flytja þá heim til Íslands sem hafði verið hernumið af Bretum fimm mánuðum fyrr.
   Eftir flókinn undirbúning og ótal tafir, japs, jaml og fuður í stjórnkerfum nokkurra landa, hafði tekist að afla þessum stóra hóp ferðaleyfis frá Þjóðverjum, sem þá réðu lögum og lofum í Danmörku og Noregi, sem og sænskum og finnstum yfirvöldum, auk auðvitað breskra og íslenskra yfirvalda. Oft hafði munað mjóu að málið sigldi í strand. Á stundum ríkti á meðal skipuleggjendanna ekkert nema "vonleysi, kveljandi vonleysi og bið, engar úrlausnir, engar nýjar leiðir". Bretar höfðu veitt áformunum einna hörðustu mótspyrnuna og fundið þeim allt til foráttu, enda óttuðust þeir að Þjóðverjar myndu grípa tækifærið til að smygla útsendurum sínum til Íslands.

(s. 57)

Fleira eftir sama höfund

Fljótið sofandi konur

Lesa meira

Ljóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui

Lesa meira

Smásögur og ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Dóttir mæðra minna

Lesa meira

Ljóðveldið Ísland

Lesa meira

Skuggaveiði

Lesa meira

Góðir farþegar

Lesa meira

Flóttinn

Lesa meira

(M)orð og myndir

Lesa meira