Æviágrip
Sindri Freysson fæddist þann 23. júlí 1970. Hann nam heimspeki og bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem blaðamaður, meðal annars hjá Morgunblaðinu.
Fljótið sofandi konur, fyrsta ljóðabók Sindra, kom út árið 1992. Síðan hefur hann sent frá sér verk af ýmsum toga, meðal annars fleiri ljóðabækur, smásagnasafn, skáldsögur og barnabók. Sindri hefur einnig skrifað leikrit fyrir Stúdentaleikhúsið. Greinar og skáldskapur eftir hann hafa birst í ýmsum blöðum og tímaritum. Skáldsaga Sindra, Augun í bænum, hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 1998. Þá var ljóðabókin Harði kjarninn (njósnir um eigið líf) tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2000. Haustið 2009 sendi Sindri frá sér tvö verk, ljóðabók og skáldsögu. Ljóðveldið Ísland geymir ljóðabálk sem er tileinkaður sögu lýðveldisins frá stofnun þess 1944 fram yfir efnahagshrunið 2008, en skáldsagan nefnist Dóttir mæðra minna og gerist á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Ljóðabók Sindra Í klóm dalalæðunnar kom út haustið 2011 og hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sama ár. Árið 2018 hlaut Sindri Ljóðstaf Jóns úr Vör.
Sindri Freysson býr í Reykjavík.
Forlag: Veröld / Svarta forlag.
Frá höfundi
Fáeinir minnispunktar um skrif A-G
A. Ég ánetjast hugmyndum og myndum en þegar þær hafa sýkt blóðið nánast að fullu hreinsa ég þær úr mér í texta. Ekki það að ég sjái ferlið í einhverri upphafningu, formgallarnir eru of margir til þess. Og það er ekkert orsakalögmál á milli skyndihugdettu og fullbúinnar sögu, til allrar lukku. (Talandi um formgalla: Ómeðvitaðir formgallar sumra bóka hafa gætt þær meira lífi en langvinn yfirlegan sem aðrar bera með sér.)
B. Ég held að allir textasmiðir segi sömu söguna af mótaslætti sínum. Sundurlaus brot af vitund þeirra og reynslu rata í steypuna sem þeir hræra í mótin, oft ómeðvitað. Þessu má líkja við að maður finni hönd eða eyra á svölum sínum eftir að sprengingin mikla varð á jarðhæðinni, og uppgötvar skyndilega að einmitt þessa líkamshluta vantar á hann sjálfan.
C. Við stráum orðum í moldina á mörkum hliðstæðra heima. Heima sem við höfum steypt um eigið sjálf úr minningahraukum, varnarmúrum, undanskotum og lygaþvælu. Aðeins bilið milli þessa ódýru en ógnvekjandi bygginga, heima okkar, er þokkanlega óflekkað. Er það rétta orðið?
D. Öll ímyndun mín er mettuð erótík. Svo einfalt er það og þó ekki. Innri erótík sem litar jafnfram sýnina á veruleikann ytra. Hvert orð, hverja hreyfingu, hverja mynd og hvert atvik sé ég í erótísku ljósi. Allt ber erótíska blæju og verðskuldar að vera litið berum augum sem slíkt. Á öðrum tíma hefði ég verið vændur um klámfengið viðhorf. Það er raunar helsti vandinn; að draga mörkin á milli hins klámfengna og hinnar listilega samsettu erótíkur sem getur með örfáum röngum ákvörðunum í orðavali orðið klúr, vélræn og ruddaleg – ef svipunni er ekki beitt á réttan hátt.
E. Orðin sem afar okkar og ömmur og afar þeirra og ömmur notuðu til að lýsa fegurðinni sem við blasir enn, hljóma nú fölsk og tilgerðarleg. Í dag forðumst við að vera mærðarfull og erum því orðlaus gagnvart náttúrunni. Agndofa og undarlega órótt í skapi því náttúran sem maðurinn taldi sig hafa tamið í orð lætur ekki að stjórn, eins og skelfileg dæmi sanna. Orðaforði okkar hefur ekki endurnýjað sig jafn hratt og náttúran gerir um leið og hún er söm og fyrrum.
F. Þegar bókabúðirnar hafa staflað upp bókinni og límt á hana verðmiða, get ég ekki lengur ráðskast með persónur og atburði. Ég verð að seilast annars staðar til valda. Þessu fylgir bæði léttir og tómleikakennd, því einsog sagt er; „hið heillandi við vald sem fæst án fyrirhafnar, er hversu auðglatað það er.“
G. Þegar fólk hættir að flækja sig í merkingu og hrasa um skilning finnur það hvað orðin hafa fram að færa. Þau verða einsog upphleypt mynd undir fingurgómunum. Það sem hugurinn les þegar augun lokast er oft miklu sannari mynd en sljó og gagnrýnin augun sjá.
Sindri Freysson, 2001
Um höfund
„Landakort sem blindir menn teikna“: um verk Sindra Freyssonar
Níundi áratugurinn var sérlega líflegur hvað varðar áhuga á ljóðum og urðu ljóðaupplestrar að tísku meðal ungmenna, með smá hjálp frá Medúsu-hópnum og Besta vini ljóðsins. Mikið var um að ungt fólk – og reyndar fólk á öllum aldri – gæfi út ljóðabækur eða ljóðakver og seldi á kaffihúsum að bóhemskum stíl, bækur þessar voru oft frumlegar í útliti og skáru sig greinilega frá ljóðaútgáfu forlaganna. Slík útgáfa hafði vitanlega tíðkast áður, og á rætur sínar að rekja allt aftur til upphafs tuttugustu aldar og hræringa módernismans þá, en í Rússlandi var til að mynda gefið út mikið magn af ljóðabókum sem kenndar hafa verið við framúrstefnu (avant-garde) og einkenndust einmitt af samspili mynda og texta. Pönkið átti sinn þátt í því að fylla ljóðið krafti; bæði féll hugmyndafræði sjálfsútgáfunnar vel að hugsun pönksins, og svo fann rásandi stjórnleysi og borgaraleg andspyrna þessarar óljósu hreyfingar sér flottan farveg í ljóðum ungra skálda. Þessi fallega samfella ljóða og pönktónlistar birtist kannski hvað skýrast í skáldkonunni Diddu, sem á fyrri hluta níunda áratugarins samdi texta við lög hljómsveita eins og Vonbrigða og Sogbletta, en gaf ekki út „formlega“ ljóðabók fyrr en 1995.
Sindri Freysson er fæddur 1970 og elst því upp í þessu ljóðaumhverfi frá unglingsaldri. Hann byrjaði ungur að birta ljóð í blöðum og tímaritum og gaf út sína fyrstu bók, Fljótið sofandi konur, árið 1992. Bókin var gefin út af Forlaginu og skar sig um margt frá þeim ljóðstíl sem einkennt hafði níunda áratuginn, að því leyti að tungumálið er upphafið, ljóðin eru ákaflega táknræn og einkennast af orðgnótt og fantasíu. Á margan hátt ber bókin þess merki að hér er ungt skáld á ferðinni, því sú upphafning sem einkennir orðfærið gefur ljóðunum ungæðingslegan blæ. Þessi ungæðingsháttur kemur þó ekki fram í reiði eða angist eins og oft vildi verða í ljóðum níunda áratugarins, ljóð Sindra eru undarlega fjarlæg, þrátt fyrir að tungumálið gefi til kynna miklar tilfinningar, og lesandi fær á tilfinninguna að ljóðmælandi standi á einhvern hátt utan við eigin átök. Þetta birtist vel í ljóðinu „Stiginn af himni“:
Í flughöfn
bíða svartbrýnd örlög
við vegg þeirra
er heima sátu
Bálkestirnir grænu
handan við gestaglerið
munu brenna með mér
lengi
Ber ekkert tollskylt
annað en efann
Þrátt fyrir þann dramatíska aðskilnað sem þarna er lýst, virkar ljóðið fremur kalt og analýtískt, það er næstum eins og hið kjarnyrta orðfæri hemji tilfinningarnar fremur en að veita þeim áfram. Þó má finna ljóð sem eru hljóðlátari og jafnframt nálægari, eins og „Leikur“, en þar opnar ljóðmælandi „mjúka/hálfmánann“ og „Les æðaþyt/með vörunum“, „Myrkfara dýr/þræða launstigu//Þetta verður ekki/sagt öðrum“.
Á stundum ber reyndar orðskrúðið ljóðið ofurliði og táknheimurinn verður óskiljanlegur, eins og í ljóðinu „Yfirlit fimulljóða“, en þar hvílir maður á grúfu „innan um aflóga leikföng/og vargétnar bækur“ og þangbrúnt hörund hans „minnir á trénað haustið“. Ljóðið endar á línunum: „Betliferð sólar/aflýst“, sem gera lítið til að aðstoða lesanda við að sjá myndina fyrir sér. En víða má finna skemmtilegar myndir eins og „Í gegnum spegilbrotið“, en þar er „Næturfriðurinn rofinn af/taktföstum höggum að utan/líkt og tifi/hjarta hússins/eða einhver með sleggju/hyggist heimsækja/nágranna“. Einmanaleikinn tekur hér á sig óvænta mynd, þegar hjartsláttur hins andvaka ljóðmælanda breytist mögulega í ákafan gest til nágrannans. En myndin gæti líka verið draugamynd, því glugginn er brotinn og húsið því greinilega í niðurníðslu – og ljóðmælandi sjálfur gæti verið draugurinn, eða er draugurinn gesturinn sem sést í speglinum, þegar andlitið ber „við brotinn gluggann“? Annar hvor hlýtur hann að vera, því „Svíki ekki minnið/vaki ég einn sem fyrr“. „Lestarslys“ býður einnig upp á áhugaverð hugrenningatengsl en utan glersins eru „öskrandi lestir/vofur annarra ferða“ og „Á leið inn göngin“ dreymir ljóðmælanda „hraðan/snúning jarðar/og seinast stálgosið/mót sólinni“. Enn vitum við ekki hver er lifandi og hver ekki hér, og meir að segja ferðirnar eiga sér vofur, og slysið sjálft er mögulega bara draumur. Myndin af hraða er áhrifarík jafnframt því að glerið, líkt og spegilbrotið fyrr, undirstrikar fjarlægð ljóðmælanda.
Þessi draugastemning einkennir ljóðin í Fljótið sofandi konur, en ljóðmælandi er iðulega staddur í annarlegum heimum, eða er á ferð milli heima. Að einhverju leyti mætti hugsa sér að þessi stemning sé undir áhrifum frá Gyrði Elíassyni og hans reimleikaskáldskap. Allavega gefur ljóðið „Halaminningar“ sem er tileinkað Gyrði þessi áhrif til kynna.
Ljóðið er mun liðlegra en mörg ljóða bókarinnar og það er bæði létt og glatt yfir því, þrátt fyrir þau ógnvænlegu fyrirbæri sem birtast, eins og uppstoppaða loppan í hákarlafjörunni og dimmeygi draugurinn, sem reynist þegar að er gáð búa í kaffibolla. Kaffi er algengt tema í skrifum Gyrðis. Ljóðmælandi hallar sér að teinu, enda er það hollara – og þannig ítrekar Sindri sjálfstæði sitt frá áhrifavaldinum, jafnframt því að viðurkenna hann.
Smásagnasafnið Ósýnilegar sögur kom út árið 1993 og ber mörg einkenni ljóðabókarinnar. Tungumálið er áfram upphafið og kjarnyrt, fantasían er áberandi og líkt og áður setur einkennileg fjarlægð svip sinn á textann. Sumar sögurnar, eins og „Náðarstund“, „Dagbók hringjarans“, „Horfna stafrófið“ og „Vargaklukkan“ eru hreinar fantasíur. „Náðarstund“ lýsir síðustu heimsókn drukknaðs sjómanns til konu sinnar, í fylgd mannsins með ljáinn sem á lokaorðin „Þetta er andstyggðar starf.“ (16) Þrátt fyrir dramatískan tón sögunnar, ber hér strax á ákveðinni kímni sem setur svip á margar sagnanna. „Dagbók hringjarans“ er bráðskemmtileg saga um hringjara í litlu sjávarþorpi sem er ákaflega upptekinn af félaga sínum, hringjaranum frá Notre Dame. Hann lítur á Quasimodo sem fyrirmynd og finnst klukka sú sem hann hringir í sveitakirkjunni helst til lítilmótleg og ákveður að fjárfesta – með hjálp safnaðarsjóðsins – í klukku við hæfi. Slíkur er máttur hennar að við fyrsta högg hrynur kirkjan, þorpið og heyrn þorpsbúa, björg brotna úr fjöllum og flóðbylgja lemur báta í spón. Þær sögur sem eru raunsærri, eins og „Í sunnudagsspegli“, „Lyklavöld“ og „Kryppan“ bera greinileg einkenni fantasíu og dulúðar, til dæmis þegar timbraður heimilisfaðir „Í sunnudagsspegli“ sér spegilmynd sína grípa höndum um höfuðið og flysja af því húð og kjöt. Í sögunum „Horfna stafrófið“ og „Spil“ veltir höfundur fyrir sér eðli skáldskaparins. Sú fyrri er tileinkuð Jorge Luis Borges og fjallar, líkt og sögur hans, um dularfullar bækur og afl tungumálsins. Sögumaður sem segist eiga ættir sínar að rekja til Sæmundar fróða segir frá stafrófi nokkru sem annar forfaðir hans ku hafa fundið. Stafróf, eða rúnir þessar, hafa þann eiginleika „að væru þær lagðar við hlið ljóðs“, á hvaða máli eða í hvaða formi sem er, „varð ljóðið samstundis auðskiljanlegt lesanda“. Og sögumaður bætir því við að þetta hljómi skár en það er í raun, því stafirnir „rýja ljóð öllu dulmagni og gera að augljósri og einfaldri lesningu sem heimildaskrá væri eða íþróttareglur.“ (66) Síðar lýsir hann heimferð frænda síns með rúnirnar í poka sem skipverjar ágirntust mjög og álitu dýrmæti, eðalsteina eða djásn, en engum „hugkvæmdist lykill er gert gæti Völuspá að eintóna orðaskaki og Gleðileikinn að fjasgefinni ferðalýsingu, enda dettur mönnum sjaldnast ljóð í hug þegar verðlögð eru dýrmæti.“ (70)
Hér mætti álíta að höfundurinn sé nokkuð um of upptekinn af leyndardómum skáldlegs máls, og vilji upphefja sinn eiginn oft ógagnsæa stíl, en sú kímni sem einkennir söguna vekur þó ákveðinn efa með lesandanum. Sá efi staðfestist í sögunni „Spil“ en þar er aðalpersónan að lesa bók sem hann hafði gripið af handahófi úr rekka. Í fyrstu líst honum vel á bókina sem dásamar mjög dulmagn skáldskapar: „Að skirfa er að fela, og láta leitarmönnum, blóðhundunum, eftir að ráða í vísbendingar.“ (112) En á síðustu síðu kemur athugasemd útgefanda: „Þú hefur lokið við að lesa bók Sindra F, Ósýnilegar sögur“. Þegar bókinni er lokað munu sögurnar hverfa, ef ekki sé um fölsun að ræða. Í sumum tilvikum gæti ný saga birst. Söguhetjunni gremst þetta mjög og kvartar yfir hótfyndni og ófleygum frumleika sem holi „suma þessara manna að innan eins og moldvörpur.“ (120) Með þessu er slegið á mestu upphafningu leyndardóma skáldskaparins, án þess þó að þeir séu alveg slegnir af, því sagan endar á þeirri skemmtilegu iðju söguhetjunnar að líma eitt og eitt brot úr púsluspili á fatnað fólks sem gengur götur borgarinnar: „Búturinn festist lipurlega á mussuklæddan mjóhrygg konu og rann að mestu saman við mynstrið, Nökkvi eygði hann ekki þegar konan fjarlægðist, en sá næsti skar sig frá gráleitum jakkafötum eins og gjóta í efninu. Enn lágu tæplega fimmhundruð bitar óhreyfðir í vasanum. Þetta spil yrði seint sameinað í mynd.“ (121)
Fyrsta skáldsaga Sindra, Augun í bænum (1998), kom út fimm árum eftir smásagnasafnið og ber þess merki að nokkuð er um liðið og að á þessum tíma hefur nálgun höfundar – og jafnvel viðhorf hans til skáldskaparins – breyst. Skáldsagan lýsir því hvernig slúðurtungur smábæjar geta lagt líf fólks í rúst. Söguhetjan er ungur læknir sem verður ástfanginn af konu útgerðarjöfursins í bænum, á við hana stutt samband, sem hann síðan slítur þegar hann heldur utan til frekara náms. En konunni getur hann ekki gleymt og því snýr hann aftur til bæjarins og tekur upp sambandið við hana, með afdrifaríkum afleiðingum.
Sindra tekst ágætlega að byggja upp þessa stemningu ofsókna og innilokunar í deyjandi síldarbæ, þarsem flestir ganga fyrir atvinnuleysisbótum og restin hefur vinnu af þjónustu við þá. Jafnframt fléttar hann inn félagslegu raunsæi með umfjöllun á almennri hnignun landsbyggðarinnar auk dálítillar hagsögu með stöðugum innskotum um aðdraganda að falli Sambandsins. Nafn þess horfna fyrirtækis er að sjálfsögu ákaflega táknrænt fyrir þau kulnandi og dauðadæmdu sambönd sem skáldsagan lýsir: hjónaband útgerðarmannsins er innantómt, en samband söguhetju og eiginkonunnar virðist vonlaust. Táknfræðina má síðan rekja áfram í nafni konunnar, en hún heitir Sólveig, kölluð Sól, en táknfræði þessi er mörkuð nokkurri íróníu.
Eins og í smásögunum gætir ákveðinnar meðvitundar um stöðu textans innan bókmenntaorðræðunnar, en í upphafi bókarinnar er nokkuð fjallað um skáldsagnaskrif, þarsem sögumaður lýsir yfir áhugaleysi sínu á slíkum, en finnur jafnframt fyrir þörf til að skrifa sögu sína í hálfskrifaða uppskriftabók móðurinnar. Sögumaður ávarpar lesanda sinn, og virðist þar hafa ákveðinn lesanda í huga, en sagan er að hluta til einskonar sakamálasaga. Í upphafi er vísað til yfirvofandi dauða konu, og í síðasta hlutanum kemur í ljós að ekki aðeins konan, Sól, hefur verið skotin með haglabyssu, heldur hefur maður hennar horfið – og sögumanni er kennt um hvorttveggja.
Sindri hlaut bókmenntaverðlaun Laxness fyrir skáldsöguna sem er um margt ólík smásögunum í stíl og nálgun, þrátt fyrir að ennþá einkennist textinn af fjarlægð söguhöfundar frá efniviðnum. Það er greinilegt að höfundur færist mikið í fang með þessari skáldsögu og þrátt fyrir að millikafli bókarinnar sem lýsir aðskilnaðinum og dvöl sögumanns í Reykjavík og Svíþjóð sé dálítið dauflegur þá má einnig segja að sá daufleiki endurspegli að nokkru þann leiða sem sögumaður hefur af röð skyndikynna við kvenfólk. Sindra tekst best upp í að skapa og viðhalda smábæjarstemningunni, sem birtist á köflum sem knúin einskonar öfuguggahætti hinna linnulausu njósna um líf annarra, augnanna sem horfa út og inn um glugga. Smábæjarstemningin er einnig að nokkru leyti mörkuð fantastískri sýn, sérstaklega hvað varðar ævintýralegan dauða foreldranna og ennþá ævintýralegri hegðun læknisins sem söguhetjan tekur við af. Þannig er fyrsti hluti bókarinnar vel uppbyggður, þarsem lýst er stormasamri æsku sögumanns, brottflutningi hans frá bænum og síðan læknanáminu, sem flytur hann aftur á heimaslóðir og á fund Sólar. Þegar hann snýr til baka í bæinn eftir dvölina erlendis, nær sagan sér aftur á strik, og verður nokkuð kraftmikil þegar dramatískir atburðir hlaðast upp í lokin. Í þessari þorpssýn kemur fram skýr tilfinning fyrir rými, sem gefur skáldsögunni ákveðinn ramma og er hennar mesti styrkur.
Á vissan hátt lýsir fyrsta barnabók Sindra, Hundaeyjan (2000), sem myndskreytt er af Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, einnig ákveðinni innilokun; en hún segir frá draumi hunda um eyju langt úti í hafi þar sem þeir geta verið frjálsir, en þurfa ekki að vera háðir fólki og varasömum duttlungum þess. Sagan er upphaflega skrifuð til dóttur Sindra og er ósköp fín lítil saga, ekki síst vegna myndlýsinga Höllu Sólveigar.
Eins og áður er sagt einkenndust ljóðabækur níunda áratugarins oft af frumlegu útliti, sem endurspeglaði hugmyndaauðgi útgefandans, sem jafnframt var skáldið sjálft. Slíkur leikur með yfirborð var ekki til staðar í fyrstu ljóðabók Sindra Freyssonar, en hönnun hennar var í stíl við aðrar ljóðaútgáfur forlaga. Í smásagnasafninu kvað þó við nýjan tón, en þar er hafður sá háttur að hafa heilsvarta síðu á móti titilsíðu hverrar nýrrar sögu. Í ljóðabókinni Harði kjarninn, eða njósnir um eigið líf (1999) er gengið mun lengra í því að tefla saman yfirborði og innihaldi, form og efni og er í útliti bókarinnar lögð áhersla á frumlega hönnun og öðruvísi uppsetningu en ljóðalesandi á að venjast. Bókin er breiðari um sig á þverveginn en ljóðabækur almennt og á bókarkápu er uppstækkað myndbrot úr ljósmynd af höfundi aftaná bókinni. Samskonar stækkaður úrdráttur myndar merkir síðan við kaflana þrjá. En það eru ekki bara myndirnar sem eru dregnar út, heldur er meðhöndlun textans einnig óvenjuleg að því leyti að ljóðin eru öll á hægri síðu á opnunni, meðan ein lína úr ljóðinu fylgir á vinstri síðu eins og stef.
Áhersla sem þessi á útlit og stíl hefur ekki verið mjög áberandi í hönnun íslenskra bóka, og er þá væntanlega hugsunin sú að innihaldið eigi að skipta öllu máli. En þrátt fyrir að innihaldið sé vissulega það mikilvægasta og markverðasta, þá er ekki þarmeð sagt að útlitið skipti engu máli, því markviss og vel hugsuð hönnun bóka segir oft ýmislegt um þær, og getur gefið skilaboð um allt frá ætlun höfundar til álits útgefanda á verkinu. Þannig er til dæmis vel heppnuð hönnun Harða kjarnans lýsandi fyrir þá breytingu sem orðið hefur á skáldskap Sindra og hjálpar til við að meta það sem vel er gert. Myndbrotin og fljótandi ljóðlínurnar, auk undirtitilsins, njósnir um eigið líf, undirstrika þann nærgöngula þráð sem liggur í gegnum bókina, en mörg ljóðanna eru persónuleg, sérstaklega ljóðin í öðrum hluta, einkavegur. Þessi nálægð sýnir að Sindri er óhræddur við að fara inn á nýjar brautir í ljóðum sínum, en þessi bók en þónokkuð frábrugðin fyrri ljóðum hans, líkt og Augun í bænum var ólík fyrri prósaskrifum höfundar.
Myndbrotin og ljóðlínubrotin spegla einnig form ljóðsins sjálfs, sem uppstækkaðs brots úr lífi, eða augnabliki, og draga þannig fram hvernig ljóðið er alltaf einskonar brot í sjálfu sér. Ljóðin í Harða kjarnanum einkennast nokkuð af þessari brotakennd, en hún er fyllilega í takt við heildarmyndina sem einkennist af ferðalögum og myndbrotum úr borgum, brautarpöllum, lestum og kaffihúsum, þarsem „blindur maður gengur milli/borða og býður ferðalampa/blindur selur ljós/hugsa ég en kaupi/ekkert í vaxandi húminu“. Ljóðið „blindur maður“ sýnir vel hvernig Sindri fangar augnablik sem þessi, einföld og afmörkuð, og stillir þau andartak áður en þau rjúka framhjá.
Í ljóðinu „flutningar“ kjarnast kannski sá flökkuandi sem ríkir í bókinni, en þar segir frá ófullkomnum flutningum því „eftir flutningana eru myndirnar/eins og óskýrar í fjarska/Þær eru lengi að raðast á veggina/Húsgögnin þykjast enn/eiga heima á gamla staðnum“. Búslóðin er persónugerð og hefur sína eigin skoðun á málunum, en ljóðmælandi er sjálfur „fluttur /af heilum hug“ allur nema draumarnir, „Þeir hjúfra sig að nýja leigjandanum/sem sefur lítið/fyrstu næturnar“. Þetta ljóð kallast á við ljóðið um málverk Stefáns frá Möðrudal sem hallast alltaf á nóttunni, „eins og fjallið halli undir/flatt eða sólarlagið að baki því/sé þyngra öðrum megin himins“. Enn lifna húsmunir við, enda er húsið fullt af sögum sem fjögur veikburða hjól blaðburðakerru ná aldrei að bera, eins og segir í ljóðinu „fjögur veikburða hjól“. Þar koma við sögu tvær blaðburðadrottningar sem bera ábyrgð á sjö þúsund síðum af smáu letri og kornóttum myndum. Enn kallast þessi mynd á við útlit bókarinnar sjálfrar, en síðan á móti er einmitt grá eins og húsið sem er öskugrátt og „Á köldum nóttum sem þessum er það einsog fast í ís“.
Flutningar og ferðalög enda síðan öll í nafnlausu lokaljóði sem lýsir ferð yfir kaldan eyðisand, rútan er full af „dánu fólki, að tala/um ódýra framköllun/eitraða skyndibita/landakort sem blindir menn teikna“ og „Bílstjórinn hefur brætt með sér/árum saman/stystu leiðina“.
Fyrri verk Sindra buðu lesanda sjaldan upp á stystu leiðina, en þessi nýju ljóð eru aðgengileg og jafnframt áhugaverð, orðgnóttin hefur vikið fyrir beinskeyttara myndmáli og fjarlægðin hefur vikið fyrir „heilum hug“.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Um einstök verk
Blindhríð
Ingvi Þór Kormáksson: „„Kvalarinn og hinn kvaldi““
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fljótið sofandi konur
Eysteinn Þorvaldsson: „Hugarganga: kynnisferð um ljóðagerð fjögurra skálda.“ (Gyrðir Elíasson, Jónas Þorbjarnarson, Lindu Vilhjálmsdóttur og Sindra Freyssonar).
Skírnir, 167. árg. (vor) 1993, s. 259 – 274
Flóttinn
Jón Yngvi Jóhannsson: „Saga um tryggð, vináttu og svik“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 103-106
Ljóðveldið Ísland : 65 ár í 66 erindum um þig
Eiríkur Örn Norðdahl: „Að gera Ísland einfaldara“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., haust, bls. 36-7.
(M)orð og myndir
Bjarni Bjarnason: „Útsmogni laumufarþeginn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 2. tbl. bls. 136-41.
Skuggaveiði
Haukur Þorgeirsson: „Skuggaveiði“ (ritdómur)
Són 2018, 16, bls. 174-175.
Verðlaun
2018 - Ljóðstafur Jóns úr Vör
2011 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Í klóm dalalæðunnar
1998 - Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness: Augun í bænum
Tilnefningar
2013 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Blindhríð
1999 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Harði kjarninn (njósnir um eigið líf)
Skuggaveiði
Lesa meiraGóðir farþegar
Lesa meiraBlindhríð
Lesa meiraÍ klóm dalalæðunnar
Lesa meiraDóttir mæðra minna
Lesa meiraLjóðveldið Ísland
Lesa meira(M)orð og myndir
Lesa meiraLjóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui
Lesa meiraFlóttinn
Lesa meira