Beint í efni

Fjarvera þín er myrkur

Fjarvera þín er myrkur
Höfundur
Jón Kalman Stefánsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Er það ábyrgð eða hugleysi að sætta sig við örlög sín? Hér tvinnast saman yfir staði og tíma, frá Hólmavík suður eftir Evrópu, kynslóð fram af kynslóð, líf sem kannski eru jafn tíðindalítil og girðingarstaurar en halda þó öllu uppi.

Kornabarn sem rétt er yfir eldhúsborð, löngu dáið þýskt skáld, trillusjómaður sem er sérfræðingur í Kierkegaard, döpur rokkstjarna, stúdína úr MR, dánir hvolpar og hver er þessi prestlærði rútubílstjóri? Sum bros geta breytt heimum og sum líf kvikna eingöngu vegna þess að heimar gengu úr skorðum. Þetta er saga mennsku og breyskleika og hinnar óseðjandi gleymsku.

Úr bókinni

Einhver - kannski ég - hefur lagt bláum Volvó svo þétt upp við háan kirkjugarðsvegginn að sá sem stendur inni í garðinum kemur ekki auga á hann. Mér til mikils léttis reynist bíllinn ólæstur, en þegar ég ætla að setjast inn í hann sé ég konu koma frá steyptu húsi sem trónir á bæjarhól skammt ofan við kirkjuna, og stefna niður til mín. Grönn, með sítt, dökkt og úfið hár, og brúnn bakpoki hangir kæruleysislega á annarri öxlinni. Hún er ekki ein á ferð því mórauð kind rennur á undan henni, hleypur hiklaust upp að mér, þefar af skónum mínum, reynir síðan að flaðra upp um mig eins og hundur, af slíkum ákafa að ég er næstum dottinn aftur fyrir mig. Hættu þessu, Hrefna, kallar konan hvasst, og þá hættir kindin.
   Æ, afsakaðu Hrefnu, segir konan brosandi, komin alveg til mín, hún lætur stundum svona - en hjartanlega velkominn! Jesús minn, ég þori varla að segja hversu glöð ég varð þegar ég leit út um stofugluggann áðan og sá þig á vappi í kirkjugarðinum. Glöð en auðvitað hissa; því á dauða mínum átti ég frekar von en að sjá þig hér. Hvenær komstu? Ég varð ekki vör við þegar þú ókst að kirkjunni, maður tekur nú eftir slíku, sjaldan bílar á ferð svona snemma á sunnudagsmorgni. En þú ert væntanlega á leið inn að hóteli, til Sóleyjar? Sú á eftir að kippast við þegar ég segi henni hver sé á leiðinni!

Konan þekkir mig! Hún getur þá kannski hjálpað mér með minnisleysið, í það minnsta sagt mér nafn mitt; það eitt gæti hugsanlega opnað einhverjar dyr.
   En eitthvað stöðvar mig. Kannski orð prestsins í kirkjunni, nema hann sé rútubílstjóri eða sjálfur djöfullinn: Hafðu það í huga að stundum eru spurningarnar lífið, svarið dauðinn - stígðu því varlega til jarðar, manneskja!
   Konan horfir á mig með bros í stórum, dökkum augunum, bíður líklega eftir að ég segi eitthvað en þá jarmar kindin og horfir upp að húsinu þaðan sem svartur og hvítur hvolpur kemur hlaupandi á mikilli ferð, með tunguna lafandi af ákafa, svo fullur af kátu lífi að jafnvel hinir dauðu brosa. Ég krýp hjá honum, kem mér þannig hjá því að segja eitthvað í bili. Hrefna nuddar sér svo fast utan í mig meðan ég klóra hvolpinum að ég á í erfiðleikum með að halda jafnvægi. Suss, segir konan hvasst við kindina, biður mig síðan aftur að afsaka þessa óvenjulegu kind - hún standi nefnilega í þeirri trú að hún sé hundur.
   Sífellt hnusandi, segir konan, og merkjandi sér svæði í stað þess að éta gras og vera stygg við manneskjur eins og kinda er háttur. En henni er ekki sjálfrátt; alin upp af tík sem norsk hjón keyrðu yfir í fyrrasumar. Einhverju þurfum við líklega að fórna fyrir túristaflóðið. Vesalings Snotra mín, betri hund og félaga var trauðla hægt að hugsa sér. Þau norsku voru alveg miður sín, mega eiga það, sendu mér jólakort síðustu jól, og geitaost með, sem er fallegt, en verður náttúrlega til þess að ég gleymi Snotru síður. Eins og ég geti gleymt því þegar ég tók hana upp, illa lemstraða í vegkantinum, þangað sem hún hafði kastast við höggið, fór með hana bak við hús til að aflífa hana, stytta þjáningarnar. Snotra horfði allan tímann á mig og brúnu augun hennar svo full af trúnaðartrausti, sannfærð um að ég mundi hjálpa sér. Þess í stað skaut ég hana.

(bls. 11-13)

Fleira eftir sama höfund

Hjarta mannsins

Lesa meira

Harmur englanna

Lesa meira

Himnaríki og helvíti

Lesa meira

Verschiedenes über Riesenkiefern und die Zeit

Lesa meira

Skáldskapur er ekki kanínur upp úr hatti

Lesa meira

Að breyta lífi: gestaskrif

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira

Umskiptingurinn

Lesa meira

Gullregn úr ljóðum Jóhanns Gunnars Sigurðssonar

Lesa meira