Beint í efni

Flateyjarbréfin

Flateyjarbréfin
Höfundur
Kristjana Friðbjörnsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Barnabækur


Myndskreytingar: Margrét Einarsdóttir Laxness.



Úr bókinni:



Fratey, 12. júní



Komdu sæl og blessuð, Arnfríður mín,



Hvað heldurðu? Eftir hádegið kallaði pabbi á mig og sagði mér að það væri komið bréf til mín. Loksins! Ég verð að segja að það var svolítið gaman að fá svona sendibréf. Þetta er fyrsta sendibréfið mitt í lífinu. (Ég tel ekki jólakortin með.) Það var bara nokkuð spennandi að halda á bréfinu og vita ekkert hvað það innihélt. Það var líka svo gaman að lesa allt sem þú skrifaðir. Þú ert góður skrifari, Arnfríður. Ég varð alveg undrandi að heyra að þú værir enn í vinnunni. Ég hélt að kennarar hættu bara að mæta í skólann þegar krakkarnir færu í frí. Hvað ertu eiginlega að gera þarna? Það hlýtur að vera mjög einmanalegt í kennslustofunni þegar við erum öll farin. Mikið er nú heppilegt að ég skyldi ákveða að endurmenntast. Gott fyrir þig að hafa verkefnin frá mér til að fara yfir, annars værirðu bara að stara út í loftið. Já, takk fyrir hrósið. Ég er sammála því að verkefnin mín séu vel unnin. Ég leyni á mér, eins og mamma segir stundum.



Það er sko ekkert gott að frétta af mér. Dagurinn byrjaði ömurlega þegar ég fékk SMS frá Möttu. Það hljómaði svona: Hei Ó, allir að fara á Ævintýranámskeið. Stebbi skotinn í Sólu. Bæ. M. Einmitt það, þau voru greinilega búin að jafna sig á því að ég gæti ekkert leikið í sumar. Allir eru búnir að gleyma mér og hugsa nú bara um að skemmta sér. Ævintýranámskeið, huhh, er það ekki bara fyrir smákrakka! Og Stebbi ömurlegi bara búinn að finna sér nýja kærustu. Gangi honum vel! Sóla er hrikaleg væluskjóða og fer að grenja bara ef einhver segir nafnið hennar óvart vitlaust eins og Spóla eða Snjóla. Það hefur stundum komið fyrir mig, alveg óvart sko, enda mjög sjaldgæft nafn.



Eins og þetta væri ekki nógu slæmt upphaf á deginum þá kallaði mamma á mig, einmitt þegar ég ætlaði út með nýja eldgamla hjólið mitt. (Manstu, Steindór gaf mér gamalt hjól frá dóttur sinni. Þegar hann sagði að hjólið væri gamalt þá áttaði ég mig greinilega ekki á hversu gamalt. Hjólið sem hann kom með gæti allt eins verið sýningargripur á Þjóðminjasafni Íslands.) En já, mamma kallaði og sagði mér að kaffihúsið væri að fyllast af gestum sem hefðu komið með ferjunni. Pabbi hafði stungið af um morguninn (fór með trillukarli í Stykkishólm að versla) og Harpa ætlaði að hjálpa mömmu við veitingasöluna. Sem þýddi að einhver þurfti að passa Róbert litla … og Kristján. Ég reyndi að finna upp allar afsakanir sem mér duttu í hug en allt kom fyrir ekki. Mamma gafst upp á mér og skipaði mér (aðeins of reiðilega fyrir minn smekk) að hjálpa nú einu sinni til. (Ég er ALLTAF að hjálpa til.) Ég benti líka á að Kristján væri orðinn átta ára og þyrfti ekki pössun en þá hvæsti mamma á mig að Kristjáni litla leiddist svolítið núna, hann hefði engan að leika við og ætti erfitt með allar þessar breytingar og því þyrftu allir að vera svolítið góðir við greyið. Svo henti hún okkur út og bannaði okkur að koma heim fyrr en gestirnir væru farnir með Baldri – það var eftir þrjá klukkutíma!



(s. 27-29)


Fleira eftir sama höfund

Freyja og Fróði í klippingu

Lesa meira

Freyja og Fróði geta ekki sofnað

Lesa meira

Freyja og Fróði eru lasin

Lesa meira

Freyja og Fróði fara í búðir

Lesa meira

Freyja og Fróði eignast gæludýr

Lesa meira

Freyja og Fróði rífast og sættast

Lesa meira

Rosalingarnir

Lesa meira

Fjóli Fífils: Sverð Napóleons

Lesa meira

Reisubók Ólafíu Arndísar

Lesa meira