Beint í efni

Reisubók Ólafíu Arndísar

Reisubók Ólafíu Arndísar
Höfundur
Kristjana Friðbjörnsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Barnabækur


Myndskreytingar: Margrét Einarsdóttir Laxness.



Úr bókinni:



Frá: olardis@farnet.is



Dags.: 11.06



Til: sigkla@alnet.is <Hekla og Sigrún>



Efni: Gríma og gistiheimilið Ormsstöðum



Hæ, uppáhaldstvíburavinkonur mínar!



Eruð þið komnar út í Flatey? Mikið vildi ég vera í eyjunni núna. Örugglega besti staður á jörðinni!



Takk fyrir að senda mér mynd af kærastanum hennar Sigrúnar. Ég hefði nú samt sent aðra mynd. Hann hlýtur að myndast betur en þetta … hann … Horror … nei ég meina Hörður. Ég vona bara að þú, Hekla, verðir ekki mjög einmana þegar Sigrún hugsar bara um kærastann. Þú manst að muna eftir Heklu, Sigrún! En Hekla, ef Sigrún liggur í tölvunni alla daga að spjalla við kærastann þá er ég með verk fyrir þig . Vildirðu vera svo væn að njósna um hann Skírni, hálfkærastann minn. Það er brjálæðislega flókið að eiga svona kærasta – þú skilur mig, Sigrún! Skírnir nennir eiginlega aldrei að skrifa og ég er búin að eyða allri inneigninni minni í að hringja í hann. Hann er samt æði og ég veit að hann verður í Flatey núna í júní. Hekla, ég treysti á þig. Gangi þér vel með kærastann, Sigrún. Vá, hvað það er flókið að skrifa tölvupóst til ykkar beggja í einu.



En hvar haldið þið að ég sé? Eins og þið vissuð er ég í húsbílaferð með frú Hrönn og Gyðu ömmu og núna erum við staddar á Austurlandi, við Lagarfljótið. Þetta er búið að vera skrítnasta ferðalag lífs míns. Ég bara verð að segja ykkur frá því. Eftir fyrstu svefnlausu nóttina á Vopnafirði, þar sem ég hlustaði á undarlegustu hljóð sem nokkur manneskja hefur gefið frá sér, keyrðum við sem leið lá til Ormsstaða en það er sveitabær rétt hjá Egilsstöðum. Þar býr vinkona hennar ömmu sem heitir Gríma Brynleifsdóttir, rosalegt nafn, alveg! Hún rekur gistiheimili í rauðu timburhúsi á tveimur hæðum. Gluggarnir eru hvítir og við hvern þeirra eru flottir hlerar sem hægt er að loka ef það kemur óveður. Eða kannski eru þeir bara skraut, hef ekki prófað þá. Þessi staður er æðislegur. Það er heill skógur í kringum húsið, alvöru skógur, sko!



Gríma er æskuvinkona ömmu og alveg jafn klikkuð. Síðan við komum hingað birtist hún á hverjum degi í mussu eða víðum kjólum, svo marglitum að maður þarf að grípa sólgleraugun.



(s. 20-21)


Fleira eftir sama höfund

Freyja og Fróði í klippingu

Lesa meira

Freyja og Fróði geta ekki sofnað

Lesa meira

Freyja og Fróði eru lasin

Lesa meira

Freyja og Fróði fara í búðir

Lesa meira

Freyja og Fróði eignast gæludýr

Lesa meira

Freyja og Fróði rífast og sættast

Lesa meira

Rosalingarnir

Lesa meira

Fjóli Fífils: Sverð Napóleons

Lesa meira

Flateyjarbréfin

Lesa meira