Beint í efni

Hálfsnert stúlka

Hálfsnert stúlka
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur

Um Hálfsnerta stúlku:

Ung kona finnst illa til reika eftir ellefu ára dvöl í afskekktum skógi í Ástralíu. Sálgreinandi fær það flókna verkefni að komast að því hvað gerðist.

Í samtölum þeirra hverfur hún inn í draumakennda frásögn sem hann þarf að túlka og vinna úr. Þegar í ljós kemur hvað gerðist í raun og veru fer af stað óvænt atburðarás.

Úr Hálfsnertri stúlku:

Vinnudagbók eftir fyrsta tíma Sylvíu
mánudaginn 18. maí

Sylvía sagði frá án áherslna, eins og orðin væru kvikmyndageislar sem féllu á tjald í tómum sal. Þetta var muldur sem ég sundurgreindi tæplega en datt þó alfarið inn í á köflum og sat þá bergnuminn í stúku. Formfesta hugarheimsins bendir til að hann sé fasti, bygging sem hún hefur lengi nostrað við að sníða til, en ekki frjálsir, stundlegir hugarórar.

Í miðjum tímanum stóð hún hægt upp, tók tvö skref í áttina að mér og ég sá í fyrsta sinn framan í hana. Svipurinn var sláandi óhugnalegur, gamall og grimmilegur. Hún horfði á mig ómennskum augum, frá henni stafaði háðslegri óbeit. Ég vænti þess að nú myndi hún ávarpa mig frekjulega og brátt hæfust æðisköstin sem ég hafði óttast að fylgdu henni. En svo stóð hún bara þarna. Svipurinn máðist hægt út og annar kom upp úr djúpinu, eins og mynd hefði framkallast í gruggugri efnablöndu. Í ljós kom afar sérstakt andlit, áhugavert þrátt fyrir hve ungt það var. Ég gleymdi mér alveg við að horfa framan í hana þar til ég áttaði mig á að hún var hugstola (absenz). Ég læddist að henni þar sem hún starði fram fyrir sig ótrúlega hreyfingarlaus. Mér varð hugsað til dúkknanna sem hún hafði talað um, veifaði hendi yfir sjónlínu hennar. Hún blikkaði ekki enda virtust augun orðin að kulnuðu vaxi. Ég aðvaraði hana:

„Núna snerti ég þig, Sylvía.“

Það var einkennileg reynsla að koma við hana. Ekki vegna þess að hún brást alls ekki við heldur vegna þess að mér fannst sem ég snerti hana ekki þótt ég héldi í kalda höndina á henni með vinstri hendi, styddi hinni við netta öxl.

(31-2)

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Nakti vonbiðillinn

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Bernharður Núll

Lesa meira