Um bókina
Árið 1615 skrifar presturinn Pétur um atburði sem hafa skekið sveitina á Brúnasandi, um ástina, mennskuna og ábyrgðina sem við berum hvert á öðru. Á ystu rönd heimsins blása alþjóðlegir vindar og flytja með sér nýja heimsmynd, hugmyndir og bækur, enskar duggur, spánska hvalfangara og tilskipanir frá konunginum. Og penninn er beittari en sverðið.
Hvort er mikilvægara, að segja sannleikann eða vernda þá sem maður elskar? Árið er 1615, og veröldin er gengin úr lagi, því jörðin er ekki lengur miðdepill alheimsins. Presturinn Pétur á Meyjarhóli skrifar bréf – eða skýrslu, jafnvel ákæruskjal – til að henda reiður á atburðum sem hafa skekið sveitina á Brúnasandi og kippt stoðum undan tilveru hans og ástvina hans. Því stundum lítur Guð undan og leyfir mönnunum að breytast í djöfla, og hvað verður um þá sem þrjóskast við að segja sannleikann um það sem gerðist? Einkum ef þeir eru svo alræmdir fyrir syndugt líferni, óhlýðni og ósvífni gagnvart höfðingjum þessa lands, að þá hefur dagað uppi á hinum afskekkta Brúnasandi.
En þótt Brúnisandur sé á ystu rönd heimsins, þá blása þar alþjóðlegir vindar og flytja með sér nýja heimsmynd, hugmyndir og bækur, enskar duggur, spánska hvalfangara og tilskipanir frá konunginum í Kaupinhafn, sem ekki fara alltaf vel saman. Og hjörtu mannanna lúta engum lögum nema sínum eigin.
Himintungl yfir heimsins ystu brún er saga sem talar til samtímans aftan úr öldum, um ástina, mennskuna og ábyrgðina sem við berum hvert á öðru. Hún dregur upp mynd af opinni, forvitinni og ástríðufullri öld, þar sem ný vísindi takast á við trúna, og penninn er beittari en sverðið.
Jón Kalman Stefánsson er fæddur árið 1963. Himintungl yfir heimsins ystu brún er hans fimmtánda skáldsaga. Fjarvera þín er myrkur (2020) hlaut virt frönsk verðlaun LePoint og France Inter sem besta þýdda skáldsagan vorið 2022. Jón Kalman hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005 fyrir Sumarljós, og svo kemur nóttin. Bækur hans hafa verið þýddar á yfir 20 tungumál.
Úr bókinni
Ingunn á Sæbóli sá þegar bátur þeirra spænsku brotnaði í briminu; og þegar Pedro braust skömmu síðar á land, fullkomlega syndur, sterkur og þolgóður. Stóð hann strax upp þegar hann hafði fast land undir sér, horfði í kringum sig, alblóðugur um höfuðið, æddi síðan beint aftur út í svartan sjóinn þegar hann sá að enginn utan hann hafði bjargast. Náði hann að bjarga þremur, en einn andaðist í fjörunni og liggur nú í garðinum okkar. Dró Pedro Sebastian síðastan á land, rænulausan, nærri dáinn, og hefði sjálfsagt ekki lifnað aftur ef Ingunn hefði ekki verið komin ofan í fjöru, elt af sínum fjórum hundum og þremur köttum, sem ætíð eru á hælum hennar, og er það alltaf kátleg sjón að sjá, og beitt sinni þekkingu til að kalla hann aftur til lífsins. Grét Pedro þá og faðmaði ekki bara Ingunni, heldur hundana alla, sem og kettina. Þá vorum við Dóróthea ásamt Helgu og Þorvaldi komin ofan í fjöru, tóku þau Sebastian til sín, þann fallega, unga mann, með sitt rauðbirkna hár, brúnu, mjög svo lifandi augu.
Það er ekki mögulegt annað en að láta sér líka vel við Sebastian. Ákafur maður sem talar mikið en er svo hlýr og furðulega blátt áfram og opinn, að það er eins og allar manns innri hindranir verði að engu. Virðist litlu skipta þótt hann kunni enga íslensku og tali bara sitt mál, og smávegis í latínu því tungumál eru engin hindrun fyrir Sebastian, sem hefur þá furðulegu og hrífandi hæfileika að gera sig fullkomlega skiljanlegan, án þess að nokkur skilji það sem hann er að segja! Og allt geð hans þesslegt, svo hlýtt, innilegt að það er bæði auðvelt og gaman að vera nálægt honum. Hrifust þau enda bæði af honum, Þorvaldur og Helga, og hann af þeim. Var sú hrifning í sumu meiri en mig grunaði.
Það er máske ekki gott að hann fari með þeim hafði Dóróthea sagt við mig í fjörunni, sá strax eitthvað sem ég kom ekki auga á. En við gátum hvort sem er lítið gert, því Helga hafði þá þegar stutt hann á fætur og gert honum skiljanlegt, með bendingum og svipbrögðum, að hann skyldi vera hjá þeim.
Það var kannski ekki ráðlegt, en - allt hefur Drottinn skipað til síns ákveðna marks. Og hann prófar vort hugarþel.
En hvað og hverja var hann að prófa með því að láta bát spænskra brotna hér fyrir utan, láta þá bjargast sem björguðust, Pedro, Sebastian og Andreas, sem fór að Sæbóli; herrann skipar Pedro niður hér hjá okkur, Sebastian hjá þeim að Hofi?
Bara að það hefði verið öfugt.
Það var vitaskuld vegna Sebastians að Þorvaldur reið af stað í morgun í átt að Ögri og ofbeldinu. Og hvernig mun það fara?
(s.126-128)