Úr Hitabylgju:
- Hvar er myndavélin?
Maðurinn kom allur í ljós. Hann var meðalhár vexti, þreytulegur til augnanna og með skeggbrodda í vöngum. Hann hélt áfram að toga í frakkaermi mína og spurja um myndavél. Svo dró hann upp merki leynilögreglunnar og tjáði mér ferðinni væri heitið á stöðina. Ég lofaði honum að skoða myndavélina og sagði honum ég væri útlendingur.
- Og hef væntanlega leyfi til að taka myndir?
Lögreglumaðurinn hóstaði.
- Nú löbbum við saman á stöðina, sagði hann, einsog góðir vinir.
Hann hneppti frá sér jakkanum og benti á svart skepti uppundan buxnastrengnum einsog til að undirstrika vináttuna.
Lögreglusveitirnar gengu fram og aftur á torginu. Mannfjöldinn hafði tvístrazt og horfið inní hliðargöturnar þar sem vopnaðir lögreglumenn stóðu við hornin. Klukkan var langt gengin eitt. Útá torginu lá sporvagn á hliðinni.
- Þessa leið.
Lögreglumaðurinn benti mér upp stigann framhjá verðinum sem sat við uppgönguna með handvélbyssu yfir kné sér.
Mér var vísað inn ganginn á annari hæð og inní herbergið þar sem sköllóttur miðaldra maður var fyrir.
Hann bauð góðan daginn.
- Hvað er í vösunum? sagði vinurinn.
Ég dró upp veskið, farseðilinn, vegabréfið og nokkra málmskildinga, blýant, vasabók, kveikjara og sígarettur.
- Og ætlið til Barcelona í kvöld?
Vinurinn athugaði farseðilinn og renndi augunum til þess sköllótta. Þeir horfðu hvor á annan.
- Við verðum að gefa skýrslu, sagði sköllótti maðurinn. Rannsaka filmuna. Þér komizt sennilega til Barcelona í kvöld.
Ég spurði hvað allt þetta ætti að þýða og hvort spænsk lög mæltu svo fyrir að myndataka væri óheimil á almannafæri. Ég tók eftir að lögreglumennirnir uðru hálfvandræðalegir við spurninguna, og þeir sögðu herlög ríkja í borginni og hver sem væri á ferli þar sem átök ættu sér stað ætti á hættu að verða tekinn til yfirheyrslu.
(s. 111-13)