Beint í efni

Hrím

Hrím
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ungmennabækur

Um bókina

Hrím er ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum og lífsbaráttan er hörð.

Líf Jófríðar og annarra í skaranum hennar stjórnast af árstíðunum. Þau eyða sumrinu í Fellsskógi, haustinu á Húsavík og á veturna, þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu, þurfa þau að flýja út á ísinn á Mývatni. Hætturnar leynast við hvert fótmál en allt er samt í föstum skorðum – þar til líf Jófríðar umturnast. Hún þarf ekki bara að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa, heldur hvílir ábyrgðin á velferð skarans skyndilega á hennar herðum.

Úr bókinni

Hann var kominn um það bil þrjá faðma frá bakkanum þegar Jófríður varð vör við hreyfingu í vatninu:
   Undir hólmanum bærði risavaxinn skuggi á sér.
   "Bresi!" æpti Jófríður. "Snúðu við!"
   Bresi leit um öxl og beint á hana.
   "Lax!" æpti Jófríður og benti.
   Skugginn hafði skilið sig frá myrkrinu undir bakkanum. Gríðarstór bakuggi stakkst upp og klauf yfirborðið svo það mynduðust tvær straumrákir í vatnið sitt hvorum megin. Skugginn stefndi beint á Bresa sem var nú kominn út í um það bil miðja ána.
   Bresi kom auga á hættuna. Hann snerist á hæli og byrjaði að hlaupa í átt að árbakkanum með miklum bægslagangi. Skugginn herti sundið. Jófríður hljóp að ánni. Bresi leit aftur um öxl. Hann var næstum kominn að bakkanum, það vantaði bara tvö skref upp á. Jófríður hafði séð hvað laxar gátu gert. Bresi hrasaði. Hann datt í ána. Yfir öxlina á honum sá Jófríður bakuggann hverfa undir yfirborðið. Laxinn hafði kafað. Hún hugsaði ekki, heldur stakk sér og greip um handlegginn á Bresa. Síðan togaði hún af öllu afli. Fæturnir skripluðu á slýivöxnum steinunum. Hún tók eitt skref aftur á bak og síðan annað. Hún vissi ekki hvort laxinn hefði kafað af því að hann hefði snúið við eða hvort hann hefði farið dýpra til að láta til skarar skríða, og í raun skipti það ekki máli. Þau þurftu að komast upp úr ánni og burt. Þegar hún fann bakkann nema við lærin lét hún sig falla aftur á bak. Sterkar hendur gripu hana og drógu hana upp úr. Bresi lenti við hliðina á henni, hálfpartinn ofan á henni.
   Þau settust upp. Jófríður horfði í kringum sig. Karki, Jóra og Boði stóðu yfir þeim. Það höfðu verið þau sem höfðu dregið þau upp.
   Hún leit á Bresa. Þykk fléttan var rennblaut og lá yfir öxlina á honum, hárið var klesst við höfuðið og hann var fölur í framan.
   "Ég hefði alveg komist þetta sjálfur," sagði hann.
   "Ég vildi ekki taka sjénsinn á því. Og þú getur líka bara sagt takk."
   "Takk."
   Jófríður leit út í ána. Hún sá risavaxinn laxinn dóla sér að hólmanum og hverfa aftur inn í skuggana undir bakkanum.

(s. 56-57)

Fleira eftir sama höfund

Vetrarfrí

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Sláttur

Lesa meira

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Ljónið

Lesa meira

Hingað og ekki lengra!

Lesa meira