Beint í efni

Hildur Knútsdóttir

Æviágrip

Hildur Knútsdóttir er fædd 1984 í Reykjavík. Hún hefur skrifað bækur fyrir bæði börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi furðusagna – stundum á mörkum beggja þessara heima.

Fyrsta skáldsaga hennar, Sláttur, kom út 2011. Vetrarfrí, sem er skáldsaga af furðusagnaætt ætluð ungmennum, hlaut Fjöruverðlaunin 2015 og framhaldsbókin Vetrarhörkur fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016. Doddi: Bók sannleikans, sem hún skrifaði ásamt Þórdísi Gísladóttur, var tilnefnd bæði til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar og Fjöruverðlaunanna 2017. Þá var Hildur tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ljónið í flokki barna- og ungmennabóka árið 2018 og hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019 fyrir sömu bók. Árið 2020 hlaut Hildur Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki unglingabóka fyrir bókina Skógurinn.

Hildur er með B.A.-gráðu í bókmenntafræði og skapandi skrifum frá Háskóla Íslands. Hún býr í Reykjavík.