Beint í efni

Nornin

Nornin
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Unglingabækur

Um bókina

Alma Khan veit ekki af hverju henni, óbreyttum nítján ára starfsmanni í baunahúsinu á Hellisheiði, er boðið starf í einkagróðurhúsi hinnar heimsfrægu Olgu Ducaróvu. Helst dettur henni í hug að það tengist eitthvað Kríu ömmu hennar, sem þekkir Olgu eftir alræmdan leiðangur þeirra til Mars. Þegar Alma kynnist svo hinni leyndardómsfullu Indru umturnast lífið endanlega. Árið er 2096 og náttúran óútreiknanleg. Gamli miðbærinn er afgirtur og þar standa fúin hús í flæðarmálinu. Eitt þeirra á amma Ölmu og enginn skilur hvers vegna það er henni svona mikilvægt.

Nornin er framhald Ljónsins sem hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkur og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Hildur Knútsdóttir hefur skrifað fjölda ungmennabóka og hlotið lof gagnrýnenda. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Vetrarhörkur, sem ásamt Vetrarfríi var tilnefnd sem ungmennabók ársins í Tékklandi.

Úr Norninni

  Lestin nam staðar við Hverfisgötu með lágu hvússi og þær gengu upp Ingólfsstrætið. Það var mannþröng á götunum og háhýsin risu til beggja handa svo Ölmu leið eins og hún væri hluti af á sem rynni á botninum á þröngu gljúfri.
  Við endann á Bankastrætinu var verið að hækka girðinguna sem lá meðfram Ingólfsstrætinu og lokaði Kvosina af. Hún hafði verið meira en tveggja metra há, skreytt gaddavír efst, en samt voru alltaf einhverjir að brjótast yfir hana og reyna að taka yfir gömlu, fúnu húsin sem stóðu í flæðarmálinu. Flest þeirra voru dauðagildrur og Alma skildi ekki hvers vegna borgin var ekki búin að láta rífa þau fyrir löngu. Sjávarborðið hækkaði hratt og það var löngu farið að flæða yfir eiðið þar sem Lækjargatan hafði verið áður. Húsin sem stóðu í brekkunni fyrir ofan fóru reglulega í kaf í vondum veðrum. Það hafði ung par dáið bara vikunni áður þegar hjallur hrundi yfir þau. Þau höfðu kannski ætlað að eiga rómantíska nótt í elsta hluta borgarinnar. En Alma sá ekki hvað var rómantískt við fúinn, ormétinn við og gagandi máva.
  Lækjartorgið sjálft minnti Ölmu alltaf á lítið stöðuvatn, afmarkað á tvo vegu af háum steinsteyptum, augnstungnum húsum sem höfðu kannski einu sinni verið reisuleg en voru nú svo sorfin af vatni og vindum að þau litu út fyrir að hanga uppi á þrjóskunni einni saman. Ölmu rámaði óljóst í að það hefði líka staðið hús við norðurendann á torginu, en það hafði hrunið fyrir mörgum árum. Stundum mátti sjá glitta í rústirnar á lágfjöru.
  En það var háflóð núna, sjávarborðið náði langleiðina upp að grunni gamla Menntaskólans, húsinu sem hafði verið flutt upp á Árbæjarsafn þegar gamli varnargarðurinn - sem var byggður fyrst eftir að jöklarnir voru farnir að bráðna svo höfin fóru að rísa - brast. Í kringum sárið á skólalóðinni stóðu önnur gömul hús, sem einhver hafði greinilega ákveðið að væru ekki nóg verðmæt til að það tæki því að bjarga þeim. Þegar Alma virti þau fyrir sér fannst henni hún næstum því geta fundið lyktina af þeim; molnandi steypunni, rotnandi viðnum, seltunni, þaranum.
  Amma hennar átti hús þarna. Alma hafði einhvern tímann spurt hana hvers vegna, en amma hennar hafði bara hrist höfuðið og sagt "Hvers vegna ekki?" eins og það væri einhvers konar svar. Kannski hafði hjallurinn eitthvað tilfinningalegt gildi fyrir hana. Það var eina skýringin sem Ölmu kom í hug.

(48-49)

 

Fleira eftir sama höfund

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Ljónið

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Vetrarfrí

Lesa meira
hrím

Hrím

Skugginn hafði skilið sig frá myrkrinu undir bakkanum. Gríðarstór bakuggi stakkst upp og klauf yfirborðið svo það mynduðust tvær straumrákir í vatnið sitt hvorum megin. Skugginn stefndi beint á Bresa sem var nú kominn út í um það bil miðja ána..   
Lesa meira
Urðarhvarf kápa

Urðarhvarf

Eik tilheyrir hópi af sjálfboðaliðum sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í öruggt skjól. Þegar þau frétta af læðu og kettlingum í steinhleðslu við Urðarhvarf er rokið af stað með fellibúr og hitamyndavél. En við Urðarhvarf birtist skepna sem Eik var búin að telja sjálfri sér trú um að hefði bara verið ímyndun.
Lesa meira

Skógurinn

Lesa meira