Beint í efni

Spádómurinn

Spádómurinn
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Ungmennabækur

um bókina

Kolfinna er fimmtán ára og með höfuðið fullt af spurningum: Hvers vegna að eiga vængi ef maður má ekki nota þá? Um hvaða ógn voru foreldrar hennar að pískra í skemmunni og hvað felst í spádóminum sem einungis fullorðna fólkið í þorpinu þekkir?

úr bókinni

Kolfinna var sannfærð um að þau væru búin að fljúga í marga klukkutíma og enn bólaði ekkert á tunglinu.

"Hvar er tunglið?" kallaði hún til Jóns sem flaug skammt fyrir framan hana. Þau voru komin hátt á loft og þegar Kolfinna leit niður sá hún sjóinn breiða úr sér eins langt og augað eygði. Hvergi sást móta fyrir landi.

"Það er ekki svo langt. Þú sérð það bara ekki í gegnum blámann, En ef mér skjátlast ekki ætti það að koma í ljós hvað úr hverju," kallaði hann til baka.

Kolfinnu fannst hún kannski sjá grila í eitthvað dökkt við sjónarrönd, handan við blámann. Þau flugu lengra og Kolfinna sá að það voru skörp skil í himninum fyrir framan hana. Bláminn virtist skyndilega taka enda og fyir handan var risastór og svartur veggur, alsettur glitrandi demöntum. En þetta var alls ekki veggur, heldur næturhimininn sem breiddi úr sér fyrir framan hana, og það sem hún hafði haldið að væru demantar voru sindrandi stjörnur. Svo flugu þau út úr blámanum og myrkrið gleypti þau.

Mýrún kreisti höndina á Kolfinnu og hún kreisti hughreystandi á móti um leið og hún leit um öxl og sá sólina hverfa.

Þegar hún leit fram fyrir sig að nýju greip hún andann á lofti. Tunglin tvö voru útrúlega nálægt. Tunglið lýsti gulgrænt og skært og virtist risastórt við hliðina á litla tunglinu sem stafaði daufum bláma. Kolfinna þurfti ekki lengur að elta Jón. Hún sá sjálf hvert skyldi fljúga. Kolfinna hafði búist við því að sjá einhver merki um byggð á tunglinu en bjart yfirborðið var slétt og fellt. Þegar nær dró fannst Kolfinnu þó eitthvað bogið við það. Það var eins og yfirborð tunglsins væri á hreyfingu. Það hlupu um það gárur sem minntu hana á norðurljós. Tunglið nálgaðist ískyggilega hratt og Kolfinna var farin að verða verulega áhyggjufull um að árekstur væri í uppsiglingu. En Jón flaug ótrauður áfram þar til hann hvarf skyndilega. Það var eins og tunglið hefði gleypt hann. Kolfinna dró djúpt andann og fann að Mýrún herti takið um hönd hennar. Þær gátu ekki annað en elt Jón. Þær flugu áfram hönd í hönd á eftir honum og tunglið gleypti þær líka.

Allt varð skjannabjart og Kolfinna var umvafin fölri birtu. Hún flaug áfram. Loftið í kringum hana var undarlega þykkt. Í ljósinu flutu glitrandi agnir sem liðuðust um í bylgjum, ein og rafmagnsstraumur hlypi um loftið. Þetta var ljósþoka, hugsaði Kolfinna með sér. Hún flaug um í þoku af ljósi!

(s. 71-72)

 

Fleira eftir sama höfund

Vetrarfrí

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Sláttur

Lesa meira

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Ljónið

Lesa meira

Hingað og ekki lengra!

Lesa meira