Úr í fjarveru trjáa:
vestfirsk ævintýri
einu sinn voru þrír
risastórir vegagerðarmenn
sem ráku niður allar þessar
þriggja metra löngu stikur
ljónið sem sofnaði og
varð að fjalli fékk nafnið
Hestur til að fæla ekki
íbúana á brott
innst í Ísafjarðardjúpi
stendur hrörlegur
kastali sem undir
er botnlaus dýflissa
gegnum úrhellið kemur
gult skilti fljúgandi
og bendir í vestur
á þjóðveg 66
topptíu fossar
að minnsta kosti ekki
þessi Glymur sem allir eiga
að muna hvað heitir
fossar eru persónulegir
blautir fallgjarnir
freistandi
hver og einn verður að eiga
sína í friði
ég ætla að þegja yfir mínum
Sólheimasandur
lyktin venst ótrúlega fljótt
og berst raunar ekki mjög langt frá ánni
fyrir ofan veg endalausar lúpínugirðingar
fyrir neðan svört sandhúð með
gulum grófum grastoppum á stangli
eins og velski mótmælandinn á Kárahnjúkum
með hárbrúskana á kinnum
austar eru vegkantar vaxnir dularfullri rauðri jurt
flugvél er falin í sandi lengst út við sjó
ég er stödd í finnskri vegamynd
með mjög litlu tali