Beint í efni

Íslenski draumurinn

Íslenski draumurinn
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1991
Flokkur
Skáldsögur

Fyrsta útgáfa 1991, kom einnig út í kilju 1993.

Af bókarkápu:

Íslenski draumurinn – er það frægð, frami og skjótfenginn auður eða vinna, strit og þegnskylda í þágu fósturjarðarinnar? Er það sjálfselska í öðru veldi eða metnaður fyrir hönd þjóðarinnar? Að sýna hugsjón sína með hvítum kolli 17. júní, undir rauðum fána í Keflavíkurgöngu eða í hlaupagalla í Reykjavíkur-maraþoni?
Íslenski draumurinn er saga um þetta og ótal fleira. Guðmundur Andri Thorsson kveður margar persónur til sögunnar, sem gerist á mörgum sviðum og ólíkum tímum. En umfram allt er bók hans saga um vináttu, ást – og svik.

Úr Íslenska draumnum:

Er hún falleg af því hún er að sunnan? hugsar hann í rúminu sínu um kvöldið. Hún er með nef, munn, eyru, augu og tær. Hún er með hár sem er jarpt og líkami hennar er hvorki grannur né þéttur – samt skynjar hann að hún er eintómt hold. Er hún falleg af því hún situr svona með bakið beint og virðist öll á hreyfingu jafnvel þótt hún sé grafkyrr? Var það ilmvatnið sem kitlaði nasir hans? Allt þetta? Sagði hún nokkuð? Leiddist henni alveg óskaplega? Hún var með ökla. Og kálfa, sokkaklædda. Hann finnur lyktina, hún svífur fyrir vit honum, kemur alveg upp að honum og allt í einu er hár hennar laust úr viðjum blárrar skeljar og það strýkst við háls hans, viðbein hans, háls hans. Hún hefur hendur. Þær strjúka háls hans.
Bringuna, magann, liminn, lærin, hún hefur varir. Er hún falleg af því hún er að sunnan? Hvernig sefur hún? Sefur hún? Dansar hún á nóttunni fyrir sunnan? Ætli hún sé í ástandinu? Leiðist henni ekki alveg óskaplega rafvirkjun? Hún hefur varir og hann finnur þær á vörum sér lengi og ilm hennar og allt holdið og tungu hennar og hendur sem gæla svalar við lim hans og með vörunum er hún að hvísla til hans ákall um að frelsa sig úr viðjum, klæða sig úr þessum doðakufli áskapaðs hlutskiptis, lausn undan þessum dögum iðjuleysis og þyrrkings: leysingu, leysingu, leysingu. Hún er að draga hann á tálar. Hún mun draga hann á tálar hvert einasta kvöld fyrir svefninn þangað til hann fer suður eftir þrjá mánuði til þess að læra rafvirkjun hjá bónda hennar. Og þá mun hún draga hann á tálar en það verður aðeins hans leysing, ekki hennar.

(s. 24-25)

Fleira eftir sama höfund

Valeyrarvalsinn

Lesa meira

Mín káta angist

Lesa meira

Ég vildi að ég kynni að dansa

Lesa meira

Íslandsförin

Lesa meira

Mín káta angist

Lesa meira

Náðarkraftur

Lesa meira

Veriveljet

Lesa meira

Nach Island

Lesa meira