Beint í efni

Náðarkraftur

Náðarkraftur
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:

Náðarkraftur er fjölskyldusaga. Sonurinn á heimilinu þarf að segja foreldrum sínum frá því að lag eftir hann hafi komist í undankeppni Eurovision – sem hann veit að mun hryggja þau – og dóttirin þarf að gera upp hug sinn um það hvort hún eigi að yfirgefa mannsefni sitt, ungan og efnilegan Evrópusinna, fyrir sænskan blúsara sem hún veit ekki að er erfingi að miklum auði. Móðirin er prestur sem glímir við það að skyggnigáfan úr bernsku tekur sig upp, en faðirinn er fyrrverandi þingmaður sósíalista sem nú ræktar garðinn sinn, skrifar sakamálasögur – og málar. Álengdar standa tveir jaxlar, einhleypur útvarpsþulur sem orðinn er hluti af fjölskyldunni og afinn sem er ættgöfugur kommúnisti. Þau eru síðustu sósíalistarnir, …

Úr Náðarkrafti:

Hugsanir hans streymdu ekki eftir einni átt, samfelldar og snotrar, réttar og sjálfum sér samkvæmar, heldur mösuðu margar í senn. Ein rödd lét dæluna ganga á ensku, önnur hjalaði á dönsku, ein hljómaði eins og kvartsár listamaður og ein röddin sagði í sífellu: fílaranda fílaranda marenkúlaren … Engin af þessum röddum var hann. Sú sem ríkti þennan þriðjudag var viðkunnanleg, góðleg og vitur. Hún hljómaði eins og Róbert Arnfinnsson.
Honum fannst eins og sér ætti að finnast að tannsmíði væri alveg prýðileg iðja, traust starf náttúrlega – fólk alltaf að missa tennur – og kannski svolítið skemmtilegt að engir tveir tanngarðar skuli vera eins auk þess sem þeir hljóta að segja okkur margt um fólkið sem ber þá, neyslu þess, og svo morðmálin … En honum fannst að fólk yrði ekki tannsmiðir í þessari fjölskyldu. Hann hafði aldrei viðurkennt það fyrir sjálfum sér og hvað þá öðrum hversu mjög hann fann til þess að vera Egilsen. Við erum ráðrík, hugsaði hann, við erum einræn, sérvitur og geðrík – við erum … Oft á dag velti hann vöngum yfir því hvernig þau í Egilsen-ættinni væru. Það veitti honum þrátt fyrir allt snert af kennd fyrir stað í heiminum.
Sjálfur var hann núna málari. Og þegar hann málaði leyfði hann sér vissa tilgerð því hann vissi sem var að öll listræn starfsemi er um leið tilgerð. Hann setti á sig hattkúf sem sérvitringurinn í ættinni, Ólafur Egilsen, kallaður Óli Endemi, hafði átt og hann reykti ævinlega pípu úr safni föður síns á meðan hann málaði, Half&Half tóbakið vegna ilmsins af því, annars reykti hann aldrei. Hann fór í málarasloppinn sinn, horfði á myndina á trönunum, leyfði áru listaverksins að leika um sig á meðan hann tróð í pípuna. Við erum … Gat hann ætlast til þess að sonur hans fylgdi í fótspor hans – hvert ættu þau svo sem að leiða drenginn? Var þá ekki affarasælla að einbeita sér að gervitönnum …

(s. 136-137)

Fleira eftir sama höfund

Valeyrarvalsinn

Lesa meira

Mín káta angist

Lesa meira

Ég vildi að ég kynni að dansa

Lesa meira

Íslandsförin

Lesa meira

Íslenski draumurinn

Lesa meira

Mín káta angist

Lesa meira

Veriveljet

Lesa meira

Nach Island

Lesa meira