BÚFT
Séra Sæmundur vaknaði áðan við suðandi flugu í vitum sér. Stundum lenti hún á sænginni og spígsporaði þar í smástund en leiddist fljótlega þófið og fór aftur að fljúga, aftur að suða, fyrst við enni hans, svo við nasirnar, loks inn í eyrað. Hann umlaði og bandaði hendinni og hún fór smáhring um rúmið, lenti svo á handlegg hans og tók að skríða eftir honum. Hún var staðráðin í að vekja hann, lét eins og hún væri orðin lítil lóa að segja honum að vaka og vinna. En hún var bara lítil fluga. Úti í móa heyrði hann í raunverulegri lóu. Hún sagði glaðlega bí eins og hún væri ekkert að hugsa um hann en ætti nóg með sitt.
(s. 83)