Æviágrip
Guðmundur Andri Thorsson fæddist í Reykjavík 31. desember 1957. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1978 og B.A. prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1983. Hann nam til Cand.mag prófs í íslenskum bókmenntum við sama skóla frá 1983 - 1985.
Guðmundur Andri starfaði sem blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi á DV og Þjóðviljanum um tíma og var um árabil með þættina Andrarímur í Ríkisútvarpinu. Hann var ritstjóri Tímarits Máls og menningar 1986 - 1989 og tók aftur 2009 - 2018. Einnig starfaði hann sem ritstjóri hjá bókaforlaginu Máli og menningu (síðar Eddu) frá 1987 - 2004 og hjá Forlaginu 2008 - 2017. Hann settist á alþingi Íslendinga sem þingmaður Samfylkingarinnar 2017. Guðmundur Andri hefur að auki spilað á gítar og sungið með félögum sínum í Hinum ástsælu Spöðum.
Fyrsta skáldsaga Guðmundar Andra, Mín káta angist, kom út árið 1988 og síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur. Hann hefur haft umsjón með útgáfu fjölda rita og einnig hefur hann þýtt verk erlendra höfunda á íslensku, m.a. tvær skáldsögur Marinu Lewycka, Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku og Tveir húsvagnar. Guðmundur Andri hefur skrifað fjölda pistla og greina um menningu og þjóðfélagsmál í blöð og tímarit og kom greinasafn hans, Ég vildi að ég kynni að dansa, út 1998. Hann hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Íslenska drauminn 1991 og var bókin einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Skáldsagan Íslandsförin var tilnefnd til sömu verðlauna 1996.
Frá höfundi
Frá Guðmundi Andra
Vinur minn Jón Thoroddsen er sonur málarans og rithöfundarins Drífu Viðar og Skúla Thoroddsens sem var vinsæll læknir á þeirri tíð þegar sjúklingar höfðu nær ótakmarkaðan aðgang að læknum. Stundum þegar Jón svaraði í símann sem barn og pabbi hans var ekki heima fóru sjúklingarnir að rekja raunir sínar fyrir barninu sem svaraði greiðlega og gaf jafnvel góð ráð og leiðbeiningar. Þegar Jón var sjö ára var hann spurður hvað hann ætlaði að gera þegar hann yrði stór. Sagan segir að barnið hafi ekki hugsað sig um heldur sagt með rödd sem bar keim af reynslu og jafnvel vissri lífsþreytu: Ætli maður verði ekki bara læknir. Maður kann hvort sem er ekkert annað...
Hann starfar nú sem myndlistarkennari. Sjálfur hefði ég ekki sagst ætla að verða rithöfundur á þessum árum, frekar en neitt annað, enda áttu þeir sem hringdu í föður minn fátt vantalað við mig. Samt fór ekki hjá því að ég fengi innsýn í starf rithöfundar. Ég tengi það kaffilyktinni sem barst úr herberginu hans pabba þegar hann var að skrifa og taktföstu og dugnaðarlegu ritvélarhljóðinu þegar mamma pikkaði niður eftir honum skáldskapinn. Ég ætlaði aldrei að feta í fótspor föður míns. Maður kann bara ekkert annað.
En ég kann þetta ekki heldur.
Vinnubrögð mín við skriftir eru fálmkennd. Mér veitist erfitt að skipuleggja efnið, ég fikra mig áfram með söguna án þess að vita hvað bíður mín, ana út í ófærur og þarf að snúa við, rekst á veggi, ráfa um einhver skuggasund sem ekkert leiða, teymdur af grun um lykt eða minningu um skrjáf. Ég er sæll. Ég hef skynjað hvernig sagan hefur sín lögmál sem ég er að kynnast, sinn tíma sem ég ætti að tileinka mér, sitt líf sem verður að fá að hafa sína hreyfingu. Ég hef fundið hvernig persónur í sögu verða til og þróast samkvæmt innri rökum þessarar tilteknu skáldsögu þótt þær séu ef til vill ekki réttar samkvæmt félagslegum lögmálum – ekki dæmigerðar og jafnvel fráleitar.
Ég leita skekkjunnar í hverjum einstaklingi vegna þess að ég held að í skekkjunni búi mennska. Ég vil vissulega leggja mitt af mörkum gegn strangri skömmtun tískulögreglunnar á persónueinkennum samkvæmt haftastefnu sálarlífsins í neyslunauðungarsamfélagi síðkapítalismans en í rauninni held ég samt að ég sé knúinn áfram af djúprættri sérvisku. Mig langar að finna hið stórbrotna í því lítilsiglda, það skringilega í því hversdagslega, dýrðina í því dauflega. En mig langar líka að segja satt: ná einhverju „eins og það er“. Þessar hneigðir ganga ekki alltaf upp saman og fyrir kemur við skriftir að mér verður hugsað til viðlagsins hjá Megasi: Fata morgana á flæðiskerinu/ ég finn hvergi húfu sem hæfir derinu...
Við skriftir líður mér stundum eins og svikamiðli. Næstum því daglega vitja mín persónur sem ég veit ekkert hvaðan koma. Kannski er þetta hugljómun, ég veit það ekki. Langflestar deyja á meðan þær eru enn í hausnum á mér, þær leysast upp, ég missi af þeim og horfi á eftir þeim hverfa aftur ofan í sitt svarthol. Fyrir kemur að ég næ að bregðast nógu skjótt við til að ná að lýsa einhverju sem þó er aðeins ávæningur af þeim. Þessu fólki fylgja setningar sem sigla inn í hausinn á mér eftir háttbundinni hrynjandi. Í hausnum á mér ríkir rödd sem er ekki mín heldur rödd milligöngumanns handanheimanna og bókstafanna sem streyma fram úr puttum mínum. Ég er hér með fornfálegan ljósabúnað og mölétnar slæður. Svo koma orðin og raða sér upp í raddir svo úr verður tónlist...
Þetta hljómar svolítið draugalega. Kannski út af þessu:
Sem barn var ég flest sumur á Akureyri, einhvern part. Mér er ljóst að mér hættir til að gera of mikið úr áhrifum þessara heimsókna á viðburðasnautt líf mitt og ég geri mér fulla grein fyrir því að ég gæti sagt aðrar sögur úr uppvexti mínum og mótunarárum sem kynnu að varpa allt öðru ljósi á mig... en á Akureyri bjó ég sem sagt við Ráðhústorgið hjá afa mínum og ömmu, borðaði mjúkar og volgar kleinur sem amma steikti jafnóðum ofan í mig - og las. Þarna var fátt um börn á mínu reki og tilraunir til að láta mig aðlagast akureyrskri æsku gengu hörmulega. Ég undi mér æ betur í skrýtna dívaninum í bókaherberginu þar sem var lykt af gömlum bókum og munntóbakinu hans afa. Þarna hafði ég aðgang að öllum hugsanlegum íslenskum bókmenntum öðrum en nútímaskáldsögum. Þetta voru allt aflagðar bókmenntir. Þarna voru þjóðleg fræði af ýmsu tagi, héraðsblöndur og sögur og sagnir, Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar og Jóns Árnasonar og fornaldarsögur Norðurlanda, gömul eintök af Speglinum sem mér fannst fyndið blað, Ófeigur, málgagn Jónasar frá Hriflu og Sögur Ísafoldar sem var safn þýddra afþreyingarsagna frá því fyrir og um aldamótin 1900; inni í skáp voru staflar af Hjemmet og Familie Journal og gulnuðum framhaldssögum úr Morgunblaðinu sem amma mín hafði klippt út og fjölluðu oft um vansælar kynbombur, sumar þeirra las ég og skoðaði auglýsingar um dansleiki með Tíglum, Ásum, Gosum og öðrum spilamönnum og fylgdist með nokkuð hátíðlegri teiknimyndaseríu um tinnalegan ævintýramann sem hét Markús. Innan um og saman við voru bækur um draumspaka, skyggna, ófreska og framliðna Íslendinga. Þetta voru allt dauðar bækur sem lifnuðu fyrir augum mínum – í vissum skilningi átti þessi lestur minn skylt við reimleika. Alla daga var ég í einhverjum heimi. Þegar ég fór út undir bert loft ráfaði ég um utan við mig í þess háttar vímu sem allir þekkja sem voru bókhneigð börn.
Ég veit varla hvers vegna ég er að rekja þetta allt saman, nema hvað þetta var allt bókmenntaleg reynsla af einhverju sem ekki var alls skrifað fyrir dreng eins og mig, ekki mér ætlað og höfðaði varla einu sinni til mín. Ég var Bítlabarn úr Reykjavík, las Óla og Magga, Jennu og Hreiðar og Kim – en á sumrin beið mín ævinlega þessi hrjóstrugi og berangurslegi litteratúr á Akureyri þar sem allt var skrifað af þungbúinni einlægni, engar líkingar sáust, ekkert myndmál nema stirðnuð orðtök sveitamálsins, engin margræðni, enginn „leikur með tungumálið“, varla svo mikið sem greinaskil – gott ef ekki gotneskt letur á einhverjum bókum - en samt rammar furður sem lifnuðu fyrir augum manns, þrungið andrúmsloft sem umlukti mann, heimur handan þessa heims. Ég lærði þarna að lesa.
Ég tileinkaði mér þarna að tengjast mannlífi í gegnum texta - fjarlægu mannlífi, ankannalegu mannlífi, forneskju.
Ég skrifa texta sem er gerólíkur þessum Akureyrarbókmenntum bernskunnar, innblásinn af öðrum textum, öðrum hljóðum, annarri músík og öðrum litteratúr. En þegar ég sest hér niður til að hugsa um sjálfan mig á þennan hátt þá finnst mér samt eins og ég skrifi til að upplifa á ný kennd sem hefur fylgt mér frá þessum stundum opins huga, ungrar einsemdar og ómælds kleinuáts.
Guðmundur Andri Thorsson, 2007
Um höfund
Örlög og hlutskipti Íslendinga - um skáldsögur Guðmundar Andra Thorssonar
Fyrir nokkrum árum vaknaði vinur minn upp við öskur um miðja nótt. Úti á götu stóð maður á fráhnepptri hvítri nælonskyrtu sem baðaði út öllum öngum og gólaði svo undir tók í hverfinu: Þú hefur eyðilagt líf mitt! Maðurinn var að sjálfsögðu drukkinn og hann var að sjálfsögðu að gera upp sakir við einhverja konu sem hafði að sjálfsögðu gefist upp á að búa með honum [...] næst sást til mannsins uppi á þaki, þar sem hann æpti: „Ég stekk! Ég stekk!“ Konan sá að við svo búið mætti ekki standa og ákvað að grípa til þess örþrifaráðs sem best myndi reynast [...] örþrifaráð eiginkonunnar nálgaðist: það var gömul kona, bersýnilega móðir ólánsmannsins sem eiginkonan fyrrum hafði þá væntanlega hringt í. Og vitfirringurinn breyttist í bljúgan og ráðvilltan dreng þegar gamla konan rauf álögin með því að hrópa hægt og festulega, blíðlega og strengilega: Ég ætla að biðja þig elsku Jóhann minn að reyna nú – að hugsa.
(Ég vildi að ég kynni að dansa, bls. 173)
Þannig kemst Guðmundur Andri Thorsson að orði í grein sem fjallar um hlutverk rithöfunda í samfélaginu. Guðmundur Andri leggur út af þessari sögu og segir að í raun ættu rithöfundar að vera í hlutverki gömlu konunnar „sem brýnir hinn ærða mann til að hugsa“, hann telur hinsvegar að þeir séu oftast í hlutverki drukkna mannsins „sem ryðst með skarkala og látum fyrirvaralaust inn í líf fólks og tekur að æpa vitstola á torgum um einkamál sín og eyðilagt líf þótt enginn kæri sig um slíkan fréttaflutning“. Draumur rithöfunda, samkvæmt Guðmundi Andra, er hinsvegar sá að vera í báðum hlutverkunum, „að vera bæði sá sem vekur upp alla í hverfinu með látum – og líka hinn sem með kærleik og skýrleik reynir að opna augu“ (bls. 173-174).
Það er freistandi að máta höfundinn Guðmund Andra við þessa líkingu af drukknum manni og móður hans. Hér verður þó ekkert fullyrt um hvort Guðmudur Andri sé líkari drukkna manninum eða móðurinni, eða blanda af þeim báðum. Eitt er þó víst að í skáldskap og öðrum skrifum tekst hann á við það hlutverk rithöfundarins að hrópa og vekja fólk – reyna að fá það til að hugsa.
Fyrsta skáldsaga Guðmundar Andra, Mín káta angist, kom út árið 1988 og síðan þá hefur hefur hann sent frá sér þrjár skáldsögur auk fjölda greina í blöð og tímarit sem sumar hverjar hafa birst í greinasafninu Ég vildi að ég kynni að dansa (1998) sem vitnað er í hér að framan. Einnig hefur Guðmundur Andri ritstýrt, búið til útgáfu og valið efni í ýmiskonar endurútgáfur og ritsöfn og þá gjarnan ritað for-eða eftirmála þeirra rita. Þar á meðal má nefna ritsafn með úrvali úr bókmenntum 19. aldar undir titlinum Þjóðskáldin sem út kom árið 1992. Hann ritstýrði einnig fjórða og fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu sem út kom árið 2006 ásamt því að rita efni í verkið. Þá eru ótaldir fjölmargir söngtextar, einkum fyrir hljómsveitina Spaða sem Guðmundur Andri er meðlimur í. Einnig ritstýrði hann Tímariti Máls og menningar um skeið.
Í grófum dráttum má skipta höfundarverki Guðmundar Andra í tvennt. Annarsvegar í skáldskap sem samanstendur af skáldsögunum fjórum og nokkrum smásögum og hinsvegar í skrif um bókmenntir, listir, menningar- og þjóðfélagsmál. Hér verður sjónum beint að skáldskapnum, þótt í raun sé engin leið að draga skýra línu þarna á milli enda liggja sterkir þræðir á milli þjóðfélagsumfjöllunar Guðmundar Andra og skáldskaparins. Það er í raun ekki fjarri lagi að segja að þjóðfélags- og menningarumfjöllunin sé skáldleg og skáldskapurinn sé þjóðfélagslegur. Stundum rennur þetta tvennt líka saman. Til dæmis freistast maður til að hugsa sér að drukkni náunginn í tilvitnuninni hér að framan sé e.t.v. sá hinn sami og fyrir finnst á blöðum skáldsögunnar Mín káta angist og verður á vegi aðalpersónu sögunnar: „Það stóð maður á miðjum Laugarveginum í hvítri skyrtu sem var rifin og óhneppt og flaksaðist yfir brúnum buxum. Hann kreppti hnefann og öskraði: Þú hefur eyðilagt líf mitt! Hann grét og öskraði. Hann ætlaði bæði að drepa sig og hana.“ (bls. 60).
Mín káta angist
Mín káta angist ber þess að mörgu leyti merki að vera fyrsta skáldsaga höfundar. Ekki í þeim skilningi að yfir henni sé bragur byrjendaverks, síður en svo, því þetta er heilsteypt og vel lukkuð skáldsaga. En sé miðað við síðari skáldsögur Guðmundar Andra er hún einföld, bæði að efni og formi. Í grunninn er þetta frekar hefðbundin ástarsaga um mann sem fær ekki stúlkuna sem hann þráir. Sagan slær samt á ýmsan hátt tóninn fyrir það sem koma skal í höfundarverkinu, einkum vegna aðalpersónunnar, sem er ungur og stefnulaus maður í sálarkreppu er elur með sér skáldadrauma sem lítið verður úr. Þessa manngerð hitta lesendur Guðmundar Andra aftur fyrir í síðari skáldsögum hans en nánar verður vikið að þeim síðar. Formgerð sögunnar er einföld en hún hæfir söguefninu vel. Hún er sögð í fyrstu persónu þátíð af aðalpersónunni sjálfri sem horfir til baka, einkum til vetrar þegar hann stundaði háskólanám í íslensku. Þessi fjarlægð í tíma skapar háðskan og kíminn tón sem gengur í gegnum söguna alla:
Ég stappaði fótunum á svarta gúmmímottu í anddyrinu. Ég hugsaði með mér: Hér er ég að stappa fótunum á svarta gúmmímottu sem fætur margra helstu andans jöfra þjóðarinnar hafa líka troðið. Ég var andaktugur, þetta var hátíðleg stund. Síðan hristi ég mig og sagði bvurr, en bara lágt til að fara ekki með stemminguna niður á hið lága. Ég gekk inn ganginn. Þar var enginn, það ríkti þögn. Mér þótti hún hlaðin einhverju – einhverju hátíðlegu. (bls. 7-8)
Þarna lýsir sögumaður fyrsta degi sínum sem íslenskunemi og fyrstu inngöngunni í helgidóminn Árnagarð. Sú háðska kímni sem einkennir þetta brot er eitt meginneinkenni stíls sögunnar og raunar má sjá svipaða hluti víða í höfundarverki Guðmundar Andra. Í skáldsögunni Mín káta angist eru þrátt fyrir það kaflar sem eru ljóðrænir og alvarlegir enda fjallar sagan ekki síst um tilvistarvanda sögumanns.
Rauður þráður sögunnar er persónuleg krísa Egils sem reynir að finna sér farveg í lífinu eftir að slitnar upp úr æskuástarsambandi. Katrín, fyrrverandi kærasta hans, hefur flutt til Reykjavíkur frá þorpinu þar sem þau ólust bæði upp og Egill fylgir í kjölfarið. En alltof seint til að samband þeirra geti orðið annað en minning. Tilgangur íslenskunámsins er óljós, eina stundina virðist hann sá einn að komast á námslán: „Ég var orðinn leiður á þvælingi og fánýtri vinnu og mig hafði lengi dreymt um að komast á námslán“ (bls. 10). Tvennt annað virðist þó einkum ráða: „ég fór suður út af öllum sögunum. Þær ólguðu í mér og ég þurfti að læra að setja þær niður á blað. Auðvitað kom ég upphaflega suður til að athuga hvernig þetta væri eiginlega með okkur Katrínu, hvort eitthvað væri að koma fyrir okkur“ (bls. 45). Egill er einhverskonar ófullburða skáld, hann fær fjöldann allan af hugmyndum að sögum en nær ekki að beisla þær. Íslenskunámið virðist ekki hjálpa honum að ná betri tökum á söguefnunum sem eru jafn stefnulaus og höfundurinn sjálfur. Hann verður hugfanginn af stúlku, sem einnig stundar nám í íslensku. Stúlkan heitir Sigríður og fangar athygli Egils strax á fyrsta degi og síðar um haustið taka þau upp ástarsamband. Allan tímann er hún þó lofuð öðrum og segir Agli að lokum upp. Hún hafði þá í raun aldrei slitið sambandi við fyrrverandi eiginmann sinn og ákveður að taka upp sambúð með honum á nýjan leik. Inn í þessa harmrænu ástarsögu fléttast svo lýsingar á því sem á sér stað í kennslustundum og frístundum nemendanna í íslenskunni. Þær eru á köflum bráðfyndnar, enda nýtur háðsk kímnin sín hvað best í þessum köflum.
Annað atriði sem blandast inn í ástarsöguna eru tilraunir Egils til að ná tökum á öllum sögunum sem ólga inni í honum. Það er áhugavert að sagan sem lesandi skáldsögunnar Mín káta angist les er saga sem Egill segir sjálfur og þar af leiðandi má gera sér í hugarlund að hann hafi loksins ná að fanga eina þeirra: „Frá því ég var smástrákur hafði ég skoðað fólkið í kringum mig og reynt að ímynda mér sögu þess, ekki það sjálft, heldur sögu þess – saga einstaklingsins er þau atvik sem fyrir hann koma eins og aðrir sjá þau, ekki hann sjálfur og ég hafði áhuga á þessum atvikum“ (bls. 43). Þessi skilgreining Egils á því hvað saga einstaklings sé er áhugaverð í ljósi þess að hann segir söguna af sjálfum sér úr fjarlægð. Hann horfir á sjálfan sig og þau atvik sem fyrir hann komu frá sjónarhóli annars, reynir að sjá þau eins og aðrir sáu þau á þeim tíma sem þau gerðust.
Íslenski draumurinn
Önnur skáldsaga Guðmundar Andra Íslenski draumurinn (1991) var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún vakti talsverða athygli, kannski ekki síst vegna þess að í henni er tekist á við þjóðfélagsástand sem ríkti á Íslandi um það leyti sem bókin kom út. Þjóðfélagsástand sem einkenndist meðal annars af skuldafenjum, gjaldþrotum og persónulegum harmleikjum því tengdu. Reyndar er einföldun að segja að aðeins sé tekist á við þetta tímabil því í raun fjallar sagan um þrjú tímabil í sögu Íslands eftir seinna stríð. Auk tíunda áratugarins fjallar hún um árin rétt eftir stríð þegar fólk fluttist umvörpum úr sveit í borg og tilveran var lituð af hinu nýstofnaða lýðveldi. Hún fjallar einnig um áttunda áratuginn þegar börn þessara nýju Reykvíkinga fóru að njóta ávaxta erfiðis foreldranna, meðal annars með því að fá tækifæri til að ganga í menntaskóla.
Í Íslenska draumnum notast Guðmundur Andri við fyrstu persónu frásögn líkt og í fyrstu skáldsögu sinni. Frásögnin er römmuð inn á þann hátt að sögumaðurinn Hrafn situr einn í stofunni heima hjá sér með viskíglas og klaka, rifjar upp og ímyndar sér liðinn tíma. Lykilsetningar hvað þetta varðar eru: „Ég man“; „Þetta gerist allt í hausnum á mér“ og „Ég er að reyna að sjá þetta.“ Setningar á borð við þessar ramma inn ytri tíma frásagnarinnar ásamt glamrinu í vískíglasinu: „Ég sit bara hérna og er að hugsa um að fá mér sopa af viskíinu en áður en ég geri það ætla ég að bera glasið upp að eyranu og hrista það ofurlítið. Það heyrist í því. Klirr klirr“ (bls. 66). Mestöll atburðarás sögunnar á sér stað í hugskoti sögumanns og er að stórum hluta getgátur og tilraun til að fylla upp í eyður til að átta sig á eigin lífi, en ekki síður lífi besta vinarins, Kjartans. Þetta sem sögumaður man, reynir að sjá fyrir sér, þetta sem gerist í hausnum á honum má kalla innri tíma frásagnarinnar, til aðgreiningar frá ytri tímanum sem rammar söguna inn. Hljóðið í klökunum í viskíinu er svo nokkurskonar mælieining fyrir ytri tíma frásagnarinnar því undir lokin hefur hljóðið „klirr klirr“ þagnað.
Umfjöllunin um þau þrjú tímabil sem minnst var á hér að framan felst fyrst og fremst í samanburði á kynslóðum, nokkuð sem einnig er áberandi í skálsögunum sem fylgdu í kjölfarið og ræddar verða hér á eftir. Hrafn og Kjartan eru af yngstu kynslóðinni, þeirri sem er alin upp af fólkinu sem flutti á mölina eftir seinna stríð. Frásögnin snýst að mestu um kynni sögumanns af Kjartani og fjölskyldu hans, en einnig er sagt frá fjölskyldu Hrafns sjálfs. Þessar tvær fjölskyldusögur renna svo saman á óvæntan hátt undir lok sögunnar, því í ljós kemur að þeir Kjartan eru samfeðra. Hliðstæður samruni á sér reyndar stað á milli þeirra tveggja því eiginkona Hrafns er fyrverandi kærasta og barnsmóðir Kjartans. Örlög þeirra tveggja eru í öllu falli samtvinnuð frá upphafi til enda.
Feðgarnir Kjartan og Sigurður eru nokkurskonar aðalpersónur í þeirri frásögn sem Hrafn rifjar upp þessa nótt með klingjandi klaka í viskíglasi. Sigurður er af kynlsóðinni sem flutti á mölina úr sveitinni upp úr seinna stríði, hann snýr baki við bændasamfélaginu og þeim gildum sem þar eru í hávegum höfð: „Hann fór vegna alls þess sem faðir hans hafði innrætt honum og kennt til að hindra að hann færi suður. Hann reis gegn föður sínum vegna þess að hann hlýddi boðskap hans. Frá því hann mundi eftir sér umlukti innræting föðurins hann“ (bls. 38). Ævintýri Sigurðar í borginni fer vel af stað, hann menntast sem rafvirki og kemur undir sig fótunum sem atvinnurekandi, en er svikin af viðskiptafélaga sínum. Uppúr því fer að síga á ógæfuhliðina, fylleríistúramennska og biturð yfir brostnum draumum taka völdin. Kjartani er mikið í mun að falla ekki í sömu gryfju og faðir hans. Hann er gæddur ómældum hæfileikum þegar kemur að því að vinna með eitthvað í höndunum og honum standa í raun allar dyr opnar því hann býr yfir makalausum smitandi sannfæringarkrafti. Þrátt fyrir einbeittann vilja Kjartans til að takast það sem föður hans tókst ekki, nefnilega að verða sjálfstæður og engum háður, er líkt og þeir feðgar séu einfaldlega báðir ógæfunni merktir. Það er líkt og sjálfseyðingarhvöt sem ekkert fær stöðvað sé innbyggð í kraftinn og framkvæmdagleðina sem einnig einkennir þá feðga.
Þessi kvöldstund þegar Hrafn situr og rifjar upp ævi þessara tveggja manna og auðvitað sína eigin þar með, snýst að nokkru um samanburð á kynslóð foreldra hans og kynslóðinni sem þeir Kjartan tilheyra. En í þessu felst líka samanburður á lífi þeirra Kjartans þegar þeir voru ungir og róttækir menntskælingar, og tilverunni þegar æskuhugsjónirnar hafa fölnað í vísitölufjölskyldubaslinu. Samanburðurinn kristallast ef til vill í þremur viðburðum sem stillt er upp hverjum á fætur öðrum, með nokkru millibili í frásögninni. Sá fyrsti er upplifun Sigurðar á hátíðarhöldum vegna þjóðhátíðardagsins. Í huga Hrafns er Sigurður samt ekki beinlínis þátttakandi í hátíðarhöldunum heldur einhverskonar áhorfandi, hann stendur á hliðarlínunni og virðir þau fyrir sér:
Þegar ég sé þetta gerast í hausnum á mér er þetta miklu meira eins og íslenska yfirstéttin að sýna sig afgangnum af þjóðinni þarna úti á gangstéttinni og segja: Verið stolt af okkur, treystið okkur. Þarna er forsetinn, biskupinn og allir hinir hátignarmennirnir sem í hersýningunum í útlöndum standa venjulega uppi á pallli og fylgjast með bestu sonum alþýðunnar – hér hafa þeir sjálfa sig til sýnis (bls. 88).
Annar atburðurinn er svo Keflavíkurganga sem þeir Kjartan taka þátt í ásamt fleiru ungu og róttæku fólki:
Það sem ég skildi hins vegar ekki þegar við þrömmuðum inn í Reykjavík sigurglöð og hrópandi einni röddu var að þau sem stóðu álengdar á stéttunum eða sátu í bílunum sínum – Íslendingarnir sem aldrei hefðu látið sér til hugar koma að fara að æpa á götum úti eða gleyma sér yfirleitt á nokkurn annan hátt – þau sáu [...] bara okkur, nokkra krakka. Og í þeirra augum vorum við innanbúðarfólkið, forréttindaæskan, en þau sjálf utangarðsfólkið sem hafði þrælað undir okkur og lagt allt í sölurnar fyrir okkur og verið vísað út af okkur [...] Við vorum menntalýðurinn í skrúðgöngu. Yfirstéttin tilvonandi að halda sýningu á sjálfri sér, valdi sínu – atgerfi sínu
[...]
Í augum þeirra sem stóðu álengdar og horfðu vorum við nákvæmlega sama fólkið og Sigurður Sigurðsson hafði horft hrifinn á þann 17. júní 1946 á afmæli Menntaskólans (bls. 145).
Þessar kynslóðir, þessir þrír viðburðir, þessi þrjú tímabil eru svo dregin saman í viðburði sem Hrafn horfir á með hina tvo til hliðsjónar og samanburðurinn verður allt að því hjákátlegur, a.m.k. hefur eitthvað mikið breyst og gildin eru allt önnur:
Við vöknuðum öll snemma, litla fjölskyldan í stóra húsinu, ég og Helga og Óli litli og klæddum okkur í þjóðbúninginn, jogging-galla og eftir nokkrar upphitunaræfingar fórum við öll niður á Lækjartorg til þess að taka þátt í fjöldaaðgerðum. Þetta var ekki skrúðganga stúdentanna og upprennandi yfirstéttar eins og 1946 og því síður mótmælaganga krakkanna og upprennandi menntastéttar eins og 1974; þetta var maraþonhlaup (bls. 171).
Það er áhugavert að Hrafn er um margt skyldur Agli, sögumanni Minnar kátu angistar, því hann ól einnig með sér skáldadrauma sem ekki urðu að veruleika: „Já ég sem var orðinn þrjátíu og fjögurra ára gamall án þess að hafa skrifað þá bók sem stóð til að skrifa þegar lífið myndi hefjast og hafði ekki einasta látið undir höfuð leggjast að skrifa þá bók heldur hverja þá bók sem verkast vildi“ (bls. 74). Það er reyndar ekki síður áhugavert að báðum tekst þeim að fanga sína eigin sögu eftirá þótt það sé ekki í bókar formi, því frásögnin gerist öll í hausnum á þeim, svo orðalag Hrafns sé notað.
Íslandsförin
Þriðja skáldsaga Guðmundar Andra, Íslandsförin, kom út árið 1996 og var hún einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þetta er söguleg skáldsaga sem segir frá ungum skáldhneigðum enskum aðalsmanni sem ferðast til Íslands á síðari hluta 19. aldar ásamt vini sínum, vísindamanninum Cameron sem einnig er af aðalsættum. Með þeim í för er Íslendingurinn Jóni Hólm sem fylgir þeim frá Bretlandi til Íslands og er leiðsögumaður félaganna þegar til landsins er komið. Ferðir ungra enskra aðalsmanna til framandi landa voru algengar á þessum árum, þar á meðal til Íslands, og styðst Guðmundur Andri nokkuð við heimildir af slíkum ferðum sem og nýlegar sagnfræðirannsóknir sem að þeim snúa. Það er þó ekki einvörðungu ævintýraþráin sem rekur Englendinginn unga af stað, því hann er í leit að sjálfum sér í tvennum skilningi. Annarsvegar til þess að leita uppruna síns, en móðir hans er íslensk og hann er að nokkru leyti alinn upp af íslenska öldungnum Jóni. Þessi aldraði Íslendingur hafði fylgt föður Englendingsins unga frá Íslandi 30 árum fyrr þegar faðirinn var þar á ferð. Hinsvegar á hann í uppgjöri og sálarstríði vegna skelfilegra atburða sem áttu sér stað nokkru áður en hann leggur í ferðina og hvíla þungt á honum.
Allar skáldsögur Guðmundar Andra eiga það sammerkt að vera sérlega vel byggðar, þær eru því í vissum skilningi haganleg smíð, en það sem skiptir þó höfuðmáli er að byggingin þjónar ávallt söguefninu. Þetta sést ef til vill hvað best í Íslandsförinni þar sem formið sprettur beinlínis úr söguefninu. Því frásögnin er að mestu leyti sett upp sem dagbókarskrif hins unga aðalsmanns þótt brotum úr þjóðsögunni um Bjarnastaðafjandann sem Jón gamli gefur unga manninum rétt fyrir andlát sitt sé einnig skotið inn. Þjóðsaga þessi er auðvitað ekki út í bláinn því hún tengist ferðalaginu og ekki síður fortíð dagbókarritarans sterkum böndum. Það liggur áræðanlega gríðarlega mikil rannsóknarvinna að baki sögu eins og Íslandsförinni, sem sést einmitt vel á forminu sem er makalaus blanda af dagbók og skáldsögu. Í ritdómi um bókina talar Eiríkur Guðmundsson um þetta: „Þótt byggt sé á dagbókarforminu er hér fyrst og síðast um skáldsögu að ræða eða öllu heldur farsælan samruna tveggja forma: eitt form er tekið fram yfir annað án þess að hinu sé varpað fyrir róða“ (bls. 112 TMM 1997:1).
Líkt og í Íslenska draumnum vindur sögunni fram á tveim plönum, annarsvegar á þeim tíma þegar dagbókarskrifin sjálf fara fram, þ.e. í ferðalaginu sjálfu. Hinsvegar í fortíðinni, bæði nálægri og fjarlægri, því sögumaður glímir bæði við fortíð sína á Englandi, skömmu fyrir ferðina til Íslands, sem og uppruna sinn á Íslandi sem tengist för föður hans þrjátíu árum fyrr. Það má líta á þessa sögu sem eðlilegt framhald Íslenska draumsins. Ekki aðeins vegna þessa tæknilega skyldleika, því hún fjallar um það tímabil þegar íslenskt nútímasamfélag var í burðarliðnum. Forsendur nútímans voru að hasla sér völl á Íslandi en þær forsendur, eða draumurinn um þær, birtast í fylgdarmanninum Jóni Hólm. Hann lætur sig dreyma stórkostlega framfaradrauma sem vekja hugrenningartengsl við Einar Benediktsson:
Íslendingurinn tók sig óneitanlega vel og virðulega út þar sem hann sat í vönduðum fötunum, ljóshærður og hávaxinn, með kostgæfilega snúið yfirskegg og þessa fagurlega hlykkjóttu pípu. Hann tilkynnti mér með ábúðarmiklu fasi að hann hygðist flytjast til Íslands innan fimm ára og þá myndi hann gangast fyrir stofnun bresk-íslensks gufuskipafélags. Ég sá að Cameron ranghvolfdi augunum eins og til að gefa í skyn að hann væri tekinn að þreytast á ræðum Íslendingsins um þetta hjartans mál sitt (bls. 65).
Þessi framtakssami draumóramaður á þó trúlega einnig eitt og annað sameiginlegt með nafna sínum Garðari úr skáldsögu Halldórs Laxness, því draumarnir um stórkostlega sigra á erlendri grund íslensku þjóðinni til hagsbóta hafa yfir sér brag skýjaborga. Að minnsta kosti hafa ungu Englendingarnir ekki mikla trú á honum, hvor á sinn hátt. Cameron vegna ónógrar trúar á þessa frumstæðu þjóð í norðri, en sögumaður vegna þess að hann vill halda í goðsögnina um hreinan norrænan anda sem íslenska þjóðin á að varðveita. Ýmislegt fleira minnir á að nútíminn er handan við hornið á Íslandi sem þó virðist í augum Englendinganna ungu, einkum Camerons sem er upptekinn af kenningum Darwins, tæpast tákn um innreið nútímans. Til að mynda hitta þeir frelsishetjuna Jón Sigurðsson og þjóðskáldið Matthías Jochumsson í Reykjavík. Í þeirra augum eru þessir íslensku menningarstólpar hinsvegar ekki neinar 19. aldar hetjur. Jón Sigurðsson er til að mynda einhverskonar vitstola gamalmenni: „Á meðan heimsókn okkar stóð lék næstum allan tímann glott um varir hans sem mér þótti sannast sagna hálf fáráðlingslegt“ (bls. 96-97). Og Matthías Jochumsson er svo gott sem hættur að fást við skáldskap: „Ég yrki bara grafarvísur handa öðru fóki, enda er hér ekkert annað yrkisefni að hafa“ (bls. 106).
Líkt og allar góðar sögulegar skáldsögur bregður Íslandsförin ljósi á hluti í samtímanum með umfjöllun sinni um fortíðina. Til að mynda er óhjákvæmilegt annað en að velta fyrir sér þeim staðalímyndum af Íslendingum sem dregnar eru upp í skáldsögunni í ljósi staðalímynda sem nú um stundir eru ríkjandi. Ef til vill eru þessar staðalímyndir sem hér er átt við enn meira í brennidepli nú á fyrsta áratug 21. aldarinnar en þær voru um miðjan tíunda áratuginn þegar sagan er skrifuð. En það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort hugmyndin um Ísland sem brugðið er upp í skáldsögunni sé í einhverju samræmi við þær hugmyndir sem eru ríkjandi nú tæplega einni og hálfri öld síðar. Goðsögnin um Íslendinga sem þjóð sem andar í takt við náttúruna en býr samt að upprunalegri norrænni siðmenningu og lýðræði birtist til að mynda í viðhorfum sögumanns. Viðhorfum sem verða til í samspili bókmennta, goðsagna og þrá norður evrópskra þjóða til að eignast sína eigin upprunalegu siðmenningu.
Þótt sjónarhorn skáldsögunnar komi utan frá, þar sem sögumaður er enskur, má segja að viðhorfin séu enn til staðar í samtímanum. Í dag er þeim enn haldið á lofti, þótt formerkin séu öfug því goðsögnin er fóðruð sem jákvæð ímyndarsköpun og markaðssetning lands og þjóðar.
Náðarkraftur
Íslandsförin, Íslenski draumurinn, og að nokkru leyti Mín káta angist einnig, fjalla öðrum þræði um ólíkar kynslóðir, um það hvernig unga kynslóðin reynir að aðgreina sig frá kynslóðinni á undan en sleppur samt aldrei undan samanburðinum. Þetta birtist á ólíkan hátt í fyrstu skáldsögunum þremur og er mest áberandi í þeim tveim fyrrnefndu eins og rakið hefur verið hér að framan. Í fjórðu skáldsögu Guðmundar Andra, Náðarkrafti, eru kynslóðirnar enn til umræðu. Náðarkraftur kallast á margvíslegan hátt á við Íslenska drauminn, enda fjalla þær báðar um sama tímabil í sögu Íslands og segja báðar frá fyrstu og annari kynslóðinni sem flytur á mölina úr sveitinni uppúr seinna stríði. Í Náðarkrafti bætist svo þriðja kynslóðin við, barnabörn frumbýlinganna. Sögusviðið er Vogahverfið í Reykjavík:
Þarna voru um hríð stærstu flóttamannabúðir landsbyggðarinnar, fólkið sem hafði ákveðið að gerast Suður-Íslendingar, hafði farið suður, flykkst í þennan austasta hluta borgarinnar því að þarna var land, móar, býli, jaðar borgarlandsins [...] Án þess að þau hefðu gert sér grein fyrir því voru þau komin með nýja sjálfsvitund: þau voru Austurbæingar, það er að segja Reykvíkingar með þúfnagöngulag (bls. 68-69).
Í forgrunni frásagnarinnar eru hjónin Baldur og Katrín, fjölskylduvinurinn Geiri og börn þeirra hjóna, þau Sigurlinni og Sunneva. Baldur, Katrín og Geiri eru fædd uppúr 1950 og eru því af annarri kynslóð í „flóttamannabúðunum“ og deila sameiginlegum uppruna að því leyti auk þess að vera öll að austan. Í bakgrunni er svo kynslóð frumbýlinganna, einkum faðir Baldurs, fyrrum stjórnmálaskörungurinn Einar Egilsen. Ákveðinn þráður íslenskrar stjórnmálasögu er fyrirferðarmikill í sögunni, þ.e.a.s. vinstri vængur stjórnmálanna, enda fetar Baldur í fótspor föður síns og gerist helsta vonarstjarna Hreyfingarinnar. Einar er kommúnisti af gamla skólanum og hefur aldrei gefið sig í einarðri afstöðu sinni: „Hann bilaði aldrei. Þótt öllu hnignaði hægt og rólega í kringum hann og hugmyndir hans um samsetningu veruleikans yrðu æ augljósari firrur þá hélt hann fast í heimsmynd sína og endurskoðaði aldrei neitt – hvað var fyrirlitlegra en að endurskoða hugmyndir sínar?“ (bls. 109).
Baldur og Geiri fara ungir að taka þátt í starfi Hreyfingarinnar, en þeir kynnast þegar Geiri fær að búa hjá foreldrum Baldurs einn vetur á meðan hann bíður þess að fara til náms í útlöndum. Upp frá því eru þeir óaðskiljanlegir, fullkomnir vinir sem þó finnst þeir „hittast sjaldnar en þeir vildu og þótt þeir hittust öft töluðu þeir minna saman en þeim fannst þörf á, og þótt þeir töluðu mikið saman fannst þeim báðum eins og þeir töluðu sjaldan um það sem máli skipti“ (bls. 26). Báðir taka þeir virkan þátt í starfi Hreyfingarinnar. Baldur allt þar til honum er bolað burt úr forvígissveit hennar eftir áralangt starf í fremstu víglínu. Geiri hefur dregið sig út af öðrum ástæðum, sumpart vegna gamaldags sérvisku sem einkennist af fordæmingu á amerískri fjöldamenningu, en ekki síður af persónulegum ástæðum – raunar ástarsorg.
Þótt Katrín sé í eðli sínu vinstrisinnuð og í „hjarta sínu andvíg því að nokkur maður ætti yfirleitt að eiga nokkurn hlut og hugmyndin um skilyrðislausan og samfeldan hagvöxt stríddi beinlínis gegn hugmyndum hennar um dygðugt líf“ (bls. 19) eru stjórnmál löngu hætt að vera hennar hjartans mál, ef þau hafa þá nokkurntímann verið það. Hún hætti sem kennari og hóf skyndilega nám í guðfræði eftir tíu ára kennslu og starfar sem prestur: „Það var í rauninni ekki ýkja stórt skref sem hún hafði stigið frá því að vera kennari til þess að verða prestur. Hvortveggja var handleiðsla. Í báðum störfum þurfti hún að standa frammi fyrir fólki og fá það til að hlusta á sig og læra af sér að læra sjálft“ (bls. 19).
Börnin Sigurlinni og Sunneva falla hvorugt að hugsjónum foreldra sinna. Þau hafa allt til alls en hafa um leið ekkert nema sjálf sig og nánast umhverfi að hugsa um: „fyrsta tilvistarlega misgengiskynslóðin“ (bls. 47). Sigurlinni selur snyrtivörur grimmt í felum fyrir foreldrum sínum svo hann geti farið á eftirlaun eftir tíu ár, hann felur í raun allt fyrir þeim sem fellur ekki að sósíalísku uppeldi hans, þ.e. sjálfshjálparbækurnar, gullkeðjurnar, diet-kókið og ekki síst Eurovision-lagið sem hann samdi. Sunneva er álíka fjarri því að finna sig í hugsjónum foreldranna. Hún er stefnulaus og á í mikilli tilvistarkreppu þar sem hún sveiflast á milli tveggja ungra manna; sænska bóhemsins Jan sem hún kynnist þegar hún dvelur í London til að reyna að komast að í leiklistarskóla og slétta og fellda stjórnmálafræðinemans Þórðar.
Sjónarhornið skiptist nokkuð jafnt á milli persónanna og því kynnist lesandinn þeim smám saman, og þótt sögumaðurinn sé ávallt hinn sami breytist tónn raddarinnar í samræmi við þá persónu sem við á hverju sinni. Þessi ólíki raddblær sögumanns eftir því hver á í hlut sést til dæmis vel í kafla sem er helgaður Katrínu. Þennan þriðjudagsmorgun er hún á leið á kaffihús þegar hún verður fyrir nokkru sem ekki hefur hent hana síðan á barnsaldri, nefnilega að sjá framliðið fólk. Allur kaflinn ber sterkt svipmót þessa næmleika hennar sem birtist ekki síst í því að öllu í umhverfinu er lýst með litum: „Þetta hefði átt að vera notalegur dagur með mildum litum“ (bls. 80). Hún virðist skynja alla tilveruna í gegnum liti, til að mynda hefur hún gult veggfóður æskuheimilis síns, sem tengist þessari reynslu, fyrir augunum allan morguninn.
Uppbygging frásagnar Náðarkrafts er ekki ósvipuð Íslenska draumnum og Íslandsförinni. Það er ekki þar með sagt að þessar sögur séu allar steyptar í sama mótið, eða einhverskonar formúlu, en ákveðnum sameiginlegum aðferðum er beitt til þess að spinna sögurnar áfram. Hér að framan var því lýst hvernig tími frásagnar Íslenska draumsins skiptist í tvennt. Það er, megin frásögnina sem gerist í fortíðinni og rammafrásögnina sem gerist jafnóðum og sögumaður rifjar upp og ímyndar sér liðinn tíma yfir klirrandi viskíglasi. Svipuð uppbygging er fyrir hendi í Náðarkrafti sem hefst á mánudagskvöldi en lýkur um það bil sólarhring síðar. Á meðan þessi stutti tími frásagnarinnar líður kynnast lesendur persónum skáldsögunnar, einkum í gegnum liðinn tíma í lífi þeirra sem er smátt og smátt rifjaður upp af ósýnilegum sögumanni sem hefur fullan aðgang að hugskotum persóna sögunnar en stígur aldrei fram á svið frásagnarinnar.
Í Náðarkrafti nær sú aðferð Guðmundar Andra að fleyta frásögninni áfram á tveim tímaplönum nokkurskonar fullkomnun. Rammafrásögnin togar lesandann áfram hægt en örugglega því tilfinningin fyrir því að eitthvað sé í vændum liggur í loftinu. Um leið er fortíðin afhjúpuð og persónurnar öðlast líf og bakgrunn jafnóðum og hún kemur í ljós.
Að lokum
List Guðmundar Andra felst ekki síst í tungumálinu og stílnum og hvernig þetta tvennt blandast saman innan forms skáldsögunnar. Í Minni kátu angist, Íslenska draumnum og Náðarkrafti tekst Guðmundi Andra að láta venjulegt tungutak, tungutak samtímans, renna átakalítið saman við fágað tungutak skáldskaparins. Þetta gerist stundum næstum án þess að lesandinn verði þess var, talað mál og bókmál renna saman í eitt. Í Íslandförinni verður einnig samruni tveggja málsniða, en þar rennur nútíma mál saman við tungutak 19. aldarinnar svo listilega að einhvernveginn finnur maður fyrir hvorutveggja en samt liggur mismunurinn í loftinu.
Söguhetjur Guðmundar Andra eru oftar en ekki ráðvilltir ungir menn sem semja sig ekki að kröfum og tilætlunum kynslóðarinnar á undan. Vott af þessu frásagnarminni má sjá strax í fyrstu skáldsögunni Mín káta angist, því aðalsöguhetjan og sögumaðurinn Egill er í einhverskonar reiðileysi og fetar hvorki í fótspor föður síns læknisins né þá braut sem liggur beinast við hjá ungum manni sem elst upp í sjávarplássi, þ.e. á sjóinn. Hvorug söguhetja Íslenska draumsins nær fótfestu í lífinu og æskudraumar þeirra rætast ekki. Þeir eru markaðir einhverju samviskubiti gagnvart kynslóðinni á undan, Kjartan er markaður mistökum föður síns sem hann verður sjálfur að bráð og Hrafn situr uppi með þessa sektarkennd líka. Ok kynslóðanna hvílir ekki síður á aðalsöguhetju Íslandsfararinnar og vini hans Cameron sem kveður uppúr við vin sinn: „Þú og ég [...] við eigum of margt og eignumst því aldrei neitt [...] Þú getur ekki tekið við fyrirtæki föður þíns vegna þess að þú myndir fara með það á hausinn á undraskömmum tíma [...] Þú ert gersamlega gagnslaus. Og það er ég líka. Ég er ófær um að taka við jarðeignum föður míns“ (bls. 63). Svipaða tilfinningu ber Sigurlinni í brjósti rúmum hundrað árum síðar: “Á hans aldri hafði pabbi hans hins vegar verið á kafi í Hreyfingunni, að fást við ástandið í heiminum, gera eitthvað sem skipti máli, breyta einhverju, hvað hafði hann gert sjálfur? Hvað hafði orðið úr honum? Hann hafði farið að læra tannsmíði” (bls. 43). Faðir hans hefur aftur á móti varið mestum hluta ævi sinnar í að sætta sjónarmið föður síns, gamla kommúnistans Egils Egilsen, við nútímalegri viðhorf innan Hreyfingarinnar.
Annað áhugavert atriði sem tengir allar sögur Guðmundar Andra saman er að aðalsöguhetjurnar eru ófullburða skáld eða listamenn. Skáldadraumar Egils, söguhetju Minnar kátu angistar, voru raktir hér að framan, hann nær ekki að fanga allar sögurnar sem ólga inni í honum. Hrafn í Íslenska draumnum ætlaði líka að verða rithöfundur, en megnar það ekki. Hann hefði líka getað orðið tónlistarmaður en megnar það ekki heldur, að eigin sögn vegna þess að það hefði trúlega verið eitthvað sem hann hefði getað gert skammlaust. Dagbókarritari Íslandsfararinnar er einnig misheppnað skáld, eins og vinur hans Cameron lýsir svo kaldranalega: „þú kannt ekki einu sinni að yrkja ljóð sem þú ert þó sífellt að bisa við“ (bls. 63). Eitt af markmiðum Íslandsfararinnar er að yrkja ljóðabálk um landið, en ólíklegt má telja að sá bálkur verði að veruleika fremur en sögurnar sem Egill ætlar að fanga með íslenskunámi sínu. Einu listrænu afrek allra þessara persóna eru frásagnirnar sjálfar, þær hinar sömu og við lesendur fáum að njóta. Feðgarnir Baldur og Sigurlinni í Náðarkrafti eru einnig af þessum meiði, því báðir eru þeir listamenn sem bælt hafa sköpunargáfuna vegna ytri aðstæðna eða krafna úr sínu nánasta umhverfi. Hvorugur treystir sér til að stíga fram og setja nafn sitt við verk sín, enda eru þeir báðir með þau flækt í lygavef. Sigurlinni felur fyrir fjölskyldunni dálæti sitt á einföldum popplögum og hefur raunar gengið svo langt að senda eitt laga sinna í Söngvakeppnina. Faðir hans skrifar glæpasögur undir dulnefni og málar málverk undir yfirskini óuppgötvaðs naívísks alþýðulistamanns.
Það er trúlega full langt seilst að líta á síðustu þrjár skáldsögur Guðmundar Andra sem þríleik, en þær tengjast samt sterkum böndum og kallast hver á við aðra á margvíslegan hátt. Í einhverjum skilningi eru allar skáldsögur hans tilraun um íslenskt samfélag. Þetta á ekki síst við um þessar þrjár síðustu, því þær fjalla beinlínis um ákveðna þætti í íslenskri sögu og ákveðin tímabil þjóðfélagslegra breytinga eru skoðuð frá ólíkum sjónarhornum. Stundum er skáldsagnaforminu einmitt líkt við tilraunastofu um mannlegt samfélag og sé slík líking einhverntímann réttlætanleg má telja fullvíst að hún eigi við um skáldsögur Guðmundar Andra, einkum þær þrjár síðustu. Með hæfilegri einföldun og ef til vill glannalegum alhæfingum má segja að höfundarverk Guðmundar Andra til þessa sé úttekt á íslensku nútímasamfélagi, tilurð og þróun þess; afdrifum fólksins sem það byggir, örlögum þess og hlutskipti.
© Ingi Björn Guðnason, 2007
Greinar
Almenn umfjöllun
Kolbrún Bergþórsdóttir: „„Þetta er hálfgerð skyggnilýsing“ Viðtal við Guðmund Andra.“
Mímir, 31. árg., 1. tbl. 1992, s. 6-12
Myndband
Hrefna Haraldsdóttir: Skáldatími
Reykjavík: Hugsjón, 1998 / Námsgagnastofnun 1998
Um einstök verk
Andlit: íslenskir listamenn
Aðalsteinn Ingólfsson: „Speglar og gluggar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 2. tbl. bls. 139-43
Íslandsförin
Eiríkur Guðmundsson: „Handan við tíma og dauða“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 1. tbl. 1997, s. 111-117
Íslenski draumurinn
Jón Yngvi Jóhannsson: „Að loknu gullæði. Um þrjár íslenskar karlasögur.“
Skírnir 1997 (vor), s. 214-236
Kristján B. Jónasson: „Þetta er allt svona einhvern veginn.“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 3. tbl. 1992, s. 104-107
Jón Yngvi Jóhannsson: „Að loknu gullæði. Um þrjár íslenskar karlasögur.“
Skírnir 1997 (vor), s. 214-236
Kristján B. Jónasson: „Þetta er allt svona einhvern veginn.“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 3. tbl. 1992, s. 104-107
Mín káta angist
Dagný Kristjánsdóttir: „Hefði ég betur hana þekkt …“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 1. tbl. 1990, s. 103-104
Guðrún Þóra Guðmundsdóttir: „Sofa, borða og pissa“
Mímir, 28. árg., 1. tbl. s. 55-56
Náðarkraftur
Gauti Kristmannsson: „Náðarkraftur“
Umfjöllun um bækur í Víðsjá 2003
Hjalti Hugason: „. . . það er eins og sé ekkert pláss fyrir helgi í nútímanum“
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 3. tbl. 2015, s. 18-38
Kristín Viðarsdóttir: „Minning um menn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þorleifur Hauksson: „Sannleikurinn eini“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 107-110
Segðu mömmu að mér líði vel
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Segðu mömmu að mér líði vel: Saga um ástir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þorleifur Hauksson: „Margar sögur í einni.“
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 4. tbl. 2009, s. 113-117
Sæmd
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall : Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2014, 9. árg., 1. tbl. bls. 162-7
Vera Knútsdóttir: „Gröndal gegn heiminum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Valeyrarvalsinn
María Bjarkadóttir: „Valeyrarvalsinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar um verk Guðmundar Andra og viðtöl við hann hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2013 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2008 – Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur: Bangsímon eftir A. A. Milne (fyrir þýðingu)
1991 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Íslenski draumurinn
Tilnefningar
2017 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Og svo tjölluðum við okkur í rallið: bókin um Thor
2015 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Og svo tjöllum við okkur í rallið: bókin um Thor
2013 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sæmd
2013 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Valeyrarvalsinn
1996 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Íslandsförin
1991 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Íslenski draumurinn
Synir himnasmiðs
Lesa meiraÞeim líður stundum eins og þeir séu óvæntur hlutur á pokasvæði en þegar þeir horfa út á sjó sjá þeir stað sinn og stund og taka að spá í veður og gæftir eins og þeir séu trillukarl sem bíði þess að komast á skak en hafi skroppið frá til að sinna öðru. Kannski kemur lag í útvarpinu með almennilegri mússíkk og þá syngja niðjar himnasmiðsins með - um tilfinningar sínar - en þess á milli þegja þeir og bera harm sinn í hljóði en tjá hann með því að tala um allt hitt, og ætla að sjá um þetta allt. Og hugsa sitt á meðan þeir bíða af sér taktfastar lagleysur nútímans.And the Wind Sees Us All
Lesa meiraHöfuðljóð
Lesa meiraHæg breytileg átt
Lesa meiraOg svo tjöllum við okkur í rallið: bókin um Thor
Lesa meiraIn den Wind geflüstert
Lesa meiraSæmd
Lesa meiraValeyrarvalsinn
Lesa meiraSegðu mömmu að mér líði vel: saga um ástir
Lesa meira
Húsið á Bangsahorni
Lesa meiraBangsímon
Lesa meiraTveir húsvagnar
Lesa meiraStutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku
Lesa meiraAllir saman nú
Lesa meiraGettu hve mikið ég elska þig
Lesa meiraÁ refilstigum
Lesa meiraGuð forði barninu
Lesa meira