Beint í efni

Kennarinn sem fuðraði upp

Kennarinn sem fuðraði upp
Höfundur
Bergrún Íris Sævarsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Krakkarnir í BÖ-bekknum eru að jafna sig á öllu sem dunið hefur yfir undanfarið og Engilbert kennari var sem betur fer blásaklaus. Vinskapur Óla Steins og Axels er traustur og ekkert getur komið upp á milli þeirra … eða hvað? Óvænt afbrýðisemi skýtur upp kollinum og einhver er með hræðileg og háleynileg áform sem munu breyta þessu öllu. Lífshætta steðjar að krökkunum og þau þurfa að glíma við leyndarmál og svik. Enn á ný reynir á samvinnu bekkjarfélaganna og ekki síst þeirra Óla Steins og Axels.

Úr bókinni

Þegar ég nálgast heyri ég rödd Engilberts berast fram á mannlausan ganginn. Hann hljómar æstur, en glaður í bragði, og ég stoppa fyrir framan dyrnar svo hann sjái mig ekki. Ég kemst ekki hjá því að heyra hvað Engilbert segir.
   "Nei, mamma, í alvöru, þetta verður ekkert mál ..."
   Þegar enginn svarar fatta ég að hann er að tala í símann.
   "Engar áhyggjur mamma. Ég fer með þau í húsið í dag ... Nei, þau grunar ekki neitt. Þetta eru bara heimskir krakkabjánar, þú veist það jafn vel og ég. Já, ég hlakka líka til að sjá þig mamma mín ... bara nokkrir klukkutímar í viðbót. Svo hittumst við öll."
   Engilbert kveður og leggur á. Ég er með svo óþægilegan hnút í maganum. Þetta var svo skrítið samtal. Engilbert kallaði okkur heimska krakkabjána og sagðist ætla með okkur í eitthvert hús. Erum við að fara í heimsókn til mömmu hans? Hvar er Axel þegar ég þarf á honum að halda? Á ég að labba inn í stofu og þykjast vera nýkominn? Eða á ég að fara út, og koma aftur inn á gang? Hugsanirnar þjóta fram og til baka en áður en ég næ að taka ákvörðun stendur Engilbert skyndilega skælbrosandi fyrir framan mig.
   "Nei! Hver er bara mættur eldsnemma í skólann! Sæll og blessaður Óli Steinn!"
   Ég reyni að brosa á móti en brosið er jafn falskt og Engilbert sjálfur.
   "Hæ ... " segi ég með samanbitnar tennur.
   "Jæja, stattu ekki bara frammi á gangi Óli minn. Fáðu þér sæti og sýndu af þér kæti!"
   Ég hrökklast inn á eftir kennaranum og geng hröðum skrefum að sætinu mínu. Engilbert eltir mig og stendur óþægilega nálægt mér.
   "Varstu búinn að bíða lengi frammi á gangi?" spyr hann, enn með þetta smeðjulega bros þvert yfir andlitið.

(s. 71-73)

Fleira eftir sama höfund

Amma óþekka: Klandur á Klambratúni

Lesa meira

Amma óþekka og huldufólkið í Hamrinum

Lesa meira

Amma óþekka og tröllin í fjöllunum

Lesa meira

Bræðurnir breyta jólunum

Lesa meira

Viltu vera vinur minn?

Lesa meira

Varúð: hér býr norn

Lesa meira

Töfralandið

Lesa meira

Hauslausi húsvörðurinn

Lesa meira

Varúð: hér býr vampíra

Lesa meira