Beint í efni

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Æviágrip

Bergrún Íris Sævarsdóttir fæddist í Reykjavík 4. febrúar 1985. Hún er barnabókahöfundur og myndhöfundur. Bergrún útskrifaðist af listnámsbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2005 og lauk B.A. gráðu í list- og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Árið 2006 var hún skiptinemi við Kaupmannahafnarháskóla og lagði stund á listfræði og rússneskar bókmenntir. Hún lauk diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2012 og það sumar nam hún barnabókamyndskreytingar í Anglia Ruskin, Cambridge.

Bergrún hefur starfað við fjölmiðla, haldið námskeið og smiðjur, hannað smáforrit og komið að leikmyndahönnun. Hún tók þátt í endurlífgun SÍUNG, sambands íslenskra barna- og unglingabókahöfunda og er formaður félagsins (2020). Bergrún var verkefnisstjóri Allir lesa, landsleiks í lestri (2015-2017).

Bergrún hlaut Barna- og ungmennabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins fyrir Langelstur að eilífu (2020) og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir sömu bók (2019). Fjöruverðlaunin hlaut hún fyrir Kennarinn sem hvarf (2019). Sú bók hlaut einnig Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Bergrún var valin Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2020.