Æviágrip
Bergrún Íris Sævarsdóttir fæddist í Reykjavík 4. febrúar 1985. Hún er barnabókahöfundur og myndhöfundur. Bergrún útskrifaðist af listnámsbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2005 og lauk B.A. gráðu í list- og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Árið 2006 var hún skiptinemi við Kaupmannahafnarháskóla og lagði stund á listfræði og rússneskar bókmenntir. Hún lauk diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2012 og það sumar nam hún barnabókamyndskreytingar í Anglia Ruskin, Cambridge.
Bergrún hefur starfað við fjölmiðla, haldið námskeið og smiðjur, hannað smáforrit og komið að leikmyndahönnun. Hún tók þátt í endurlífgun SÍUNG, sambands íslenskra barna- og unglingabókahöfunda og er formaður félagsins (2020). Bergrún var verkefnisstjóri Allir lesa, landsleiks í lestri (2015-2017).
Bergrún hlaut Barna- og ungmennabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins fyrir Langelstur að eilífu (2020) og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir sömu bók (2019). Fjöruverðlaunin hlaut hún fyrir Kennarinn sem hvarf (2019). Sú bók hlaut einnig Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Bergrún var valin Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2020.
Um höfund
Ekkert aldurshámark: Bergrún Íris Sævarsdóttir sem texta- og myndahöfundur
Bergrún Íris Sævarsdóttir er afkastamikill höfundur og hefur á síðustu árum hlotið fjöldann allan af verðlaunum og tilnefningum til verðlauna fyrir bækur sínar. Hún er höfundur bæði mynda og texta og hefur á rúmlega tíu ára ferli sínum víkkað svið sitt frá því að vera myndhöfundur barnabóka sem unnar eru í samvinnu við textahöfund yfir í að skrifa þær einnig sjálf auk þess sem hún hefur á síðustu árum gefið út bækur fyrir eldri börn þar sem textinn hefur meira vægi. Myndlistarbakgrunnur Bergrúnar Írisar er mjög áberandi í öllu hennar höfundarverki. Hún er með BA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands, diplómu í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík og sótti auk þess sumarskóla í barnabókagerð í Bretlandi. Myndræn hugsun og tjáning Bergrúnar Írisar nýtur sín í verkum hennar þar sem teikningar segja eina hlið sögunnar meðfram textanum og með þessari aðferð nær hún til bæði barna og ungmenna, og raunar fullorðinna líka. Bækur Bergrúnar eru aðgengilegar fyrir lesendur á öllum aldri, því í mynd og texta leynist eitthvað fyrir alla aldurshópa. Hún gefur enda persónum sínum dýpt, sama hvort þær eru á barnsaldri eða eldri, bæði í gegnum texta og myndlýsingar, líkt og í þeirri í upphafi þessarar greinar þar sem mamma Eyju í Lang-elstur-bókaflokknum býr til morgunhafragrautinn í sloppnum sínum yfir hljómsveitarbol sem á stendur AC/DC á meðan hún drekkur kaffi úr bolla sem á stendur „Mrs. Boss“.
Á hinn bóginn veldur þessi sama skapandi myndræna hugsun stundum óvæntum áskorunum. Möguleikar hins sjónræna geta til dæmis rekist á við kröfur ritaðs máls eins og kemur glögglega fram í þeim mörgu útgáfum sem finna má af bókatitlum Lang-elstur-þríleiksins, þar sem „Lang-“ er ritað í sviga og með bandstriki á krítartöfluna á kápu fyrstu bókarinnar, í annarri og þriðju bókunum er sviginn horfinn en bandstrikið enn til staðar sem auðveldar vissulega alla umfjöllun um bækurnar þó að öllum vafa sé ekki eytt. Hægt er að finna margar útgáfur af titli fyrstu bókarinnar: Elstur í bekknum, (Lang)Elstur í bekknum, Lang-elstur í bekknum og Langelstur í bekknum. Myndræn framsetningin á titlinum á kápu veldur því vissum flækjum í umfjöllun um bókina. Eyja, 6 ára, er aðalpersóna Lang-elstur-bókaflokksins þó að titillinn vísi til hins 96 ára gamla Rögnvaldar sem hún fær sem sætisfélaga fyrsta skóladaginn. Á kápunni nær Bergrún Íris þó einmitt að draga athygli að hinum mikla aldursmun á bekkjarfélögunum á kankvísan hátt.
Í myndum Bergrúnar Írisar fær ímyndunaraflið og sköpunin að njóta sín og algengt er í verkum hennar að mynd og texti renni saman, það er að hún notar gjarnan teiknaðan texta til að gera texta að sínum og persóna sinna. Í bókum hennar bregður oft fyrir teikningum af minnisbókum og -miðum, krítartöflum og öðrum yfirborðum sem persónur hafa skrifað og teiknað á. Teiknaður texti og textatengdar myndir eru eitt af höfundareinkennum Bergrúnar Írisar og með þeim vísar hún á sjálfsmeðvitaðan máta í bókmenntirnar í heild í verkum sínum – og opnar dyrnar að sköpun í myndum og texta fyrir lesendur sína. Auk þess sýnir teiknaður texti oft úrvinnslu persónanna á atburðum bókanna líkt og á myndinni sem hér fylgir með, úr bókinni Kennarinn sem hvarf – sporlaust!
[[{"fid":"7513","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Úr Kennarinn sem hvarf - sporlaust!","field_file_image_title_text[is][0][value]":false},"type":"media","field_deltas":{"3":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Úr Kennarinn sem hvarf - sporlaust!","field_file_image_title_text[is][0][value]":false}},"attributes":{"alt":"Úr Kennarinn sem hvarf - sporlaust!","class":"media-element file-default","data-delta":"3"}}]]
Margvíslegir möguleikar myndabóka
Fyrstu bækur Bergrúnar Írisar eru myndabækurnar Vinur minn, vindurinn (2014) og Sjáðu mig, sumar (2015) sem hafa nú verið gefnar út undir fyrrnefnda titlinum í endurbættri útgáfu (2020). Eins og titlar bókanna gefa til kynna fjalla þær meðal annars um veðrið og samkvæmt baksíðutexta nýju útgáfunnar auka þær orðaforðann um efnið og gleðja augað. Í bókunum tveimur fylgjumst við með kisa í mismunandi veðri og fjölbreyttum aðstæðum í náttúrunni og myndirnar gefa tilfinningu fyrir rými og frelsi. Í upphafi beggja bóka eru einnig tvö börn á ólíkum aldri sem birtast af og til í gegnum bækurnar þó að þau séu ekki í aðalhlutverki og komi ekki fyrir á jafn mörgum opnum og kisi sem er óumdeild aðalpersóna þeirra. Í upphafi Vinur minn, vindurinn standa börnin fyrir innan glugga og horfa út. Lesanda, eða áheyranda sé bókin lesin upphátt fyrir barn, er þá strax boðið að samsama sig börnunum með orðunum „Sjáðu ...“ Notkunin á annarri persónu og hið beina ávarp býður upp á þátttöku barnsins:
Stundum er vindurinn með hávaða og öskrar eins og ljón.
Þá heitir vindurinn rok.
Getur þú öskrað eins og rokið?
Í seinni bókinni eru kynnt til sögunnar fleiri dýr, fuglar og randaflugur. Í lok hennar sést vel hvers vegna við þurfum á íslenskum barnabókahöfundum að halda því hún útskýrir bjartar nætur hins íslenska sumars sem oft reynast áskorun fyrir foreldra, bæði í mynd og orðum:
En áður en svefninn tekur við, eins og fyrir barnið sem sefur á myndinni í sumarnóttinni, er áheyrandinn spurður: „Hvernig var veðrið í dag?“ Á saursíðum eru gefnir upp nokkrir möguleikar, sumir algengir í orðaforða Íslendinga og aðrir sjaldgæfari svo að bókin stendur svo sannarlega undir loforði á baksíðu um að auka við orðaforðann.
Í Viltu vera vinur minn? (2015) er aðalpersónan einnig dýr, kanína sem minnir óneitanlega á kanínuna sem birtist við rúmskör barnsins á myndinni úr Sjáðu mig, sumar hér að ofan. Í upphafi bókarinnar er lesandinn aftur ávarpaður en svo tekur fyrsta persónan við þegar einmana kanínan ákveður að byggja brú í leit að vinum. Lexía bókarinnar er hugsuð fyrir ungan lesanda, kanínan biður hin dýrin í skóginum um hjálp og í lok bókar er hún komin með myndarlegan flokk með sér og þarf ekki að fara yfir brúna í vinaleit. Í bókinni kynnir Bergrún Íris áleitið stef sem hún hefur svo haldið áfram að vinna með og þróa í bókum sínum, bæði fyrir yngri börn og eldri, þar sem félagslegar aðstæður koma áfram við sögu og persónur vinna bug á einmanaleikanum og hræðslunni við að nálgast aðra.
Bergrún Íris leikur sér svo með formið með Bestu bílabókinni (2016) sem er allt í senn bók, leikfang, bílabraut og púsl. Höfundurinn fékk til liðs við sig tæknilegan ráðgjafa, pabba sinn Sævar Siggeirsson, við gerð bókarinnar sem er brotin saman í harmonikku og hægt er að fletta út. Á annarri hlið bókarinnar er farið í gegnum viðgerðir á bílnum í bílskúr og ýmis verkfæri kynnt til sögunnar. Á hinni hliðinni er hægt að láta einn af þremur bílum sem hvíla á forsíðu í púsl-hólfum keyra eftir vegi í gegnum fjölbreytt landslag og ýmiskonar veður. Þar koma umferðarreglurnar og –merkin einnig við sögu. Bókin er hentug til að vekja lestraráhuga hjá þeim sem hafa einlægan áhuga á farartækjum.
Í Búðarferðinni (2016) er svo leikið með ævintýrið í hversdeginum. Þar fer Blær út í búð fyrir pabba til að kaupa mjólk fyrir veislu og leiðangurinn verður að mikilli ævintýraferð. Með í för er hundurinn Busla og myndirnar draga fram ævintýrið í því sem textinn setur fram sem raunsætt. Á annarri opnu bókarinnar breytist sjónarhornið og sama myndin birtist þar í venjulegri og fantastískri útgáfu, kötturinn á vinstri síðunni verður að ljóni á þeirri hægri, í stað bíla og nútímalegra húsa eru komin hestvagn og kastali, Busla er orðin að dreka og barnið er komið í kjól. Í lok bókar mæta svo fantasíuverurnar í veisluna. Pabbi er í bókinni sýndur í takmarkaðri mynd, oftast sést bara bringan á honum en á einni mynd gægist hakan og nefið niður á blaðsíðuna, þannig sjáum við heim barnsins, út frá sjónarhorni þess á meðan foreldrið er á hliðarlínunni, til staðar en hvorki áberandi í söguþræði né myndum, sem er ákveðin andstæða við þá persónusköpun fullorðinna sem á sér stað bæði í Lang-elstur bókaflokknum og bókunum um Kennarann sem hvarf. Veðurþemað sem er svo gegnumgangandi í höfundarverki Bergrúnar Írisar kemur fram á óvæntan hátt í nafni barnsins, Blær, og það er skemmtilegt að nafnið er eitt af fáum sem hefð er fyrir bæði fyrir drengi og stúlkur enda er barnið ekki kynjað fyrir utan kjóllinn sem það klæðist í ævintýrasýn sögunnar.
Bókin Næturdýrin (2018) kemur með geisladiski og er unnin í samstarfi Bergrúnar Írisar við Ragnheiði Gröndal. Bókin fjallar um systkinin Lúnu og Nóa sem halda foreldrum sínum vakandi um nætur. Uppgefin og örmagna leita foreldrarnir aðstoðar sérfræðings sem kynnir fyrir systkinunum mikilvægi og möguleika draumalandsins sem þau taka svo fagnandi sem og foreldrarnir sem loksins fá sjálf að sofa um nætur. Myndirnar í Næturdýrunum slá tóninn fyrir bókina Töfralandið og í báðum bókum er frelsið í draumum barnanna sýnt myndrænt með börnum sem svífa í loftinu.
Bókinni Bræðurnir breyta jólunum (2020) er lýst sem „jólaævintýri með tónlist“ og Bergrún Íris á heiðurinn af henni ásamt Hauki Gröndal sem gerir tónlistina. Hér koma fram kunnugleg stef, jólasveinarnir taka rafmagnið af Íslandi til að endurheimta jólaandann. Unglingsstúlkan Sigga Beta er heima með móður sinni á Þorláksmessukvöld og þegar rafmagnið fer ná þær betri tengslum við hvor aðra eftir að slökknar á rafmagnstækjunum sem kallast sterkt á við bækur Bergrúnar um bekkinn í Kennarann sem hvarf. Ástandið nær meira að segja að sameina fjölskyldu sem hefði annars verið í sundur þar sem pabbi Siggu Betu birtist á aðfangadag með nýju konunni sinni og barninu. Bókin, og sérstaklega myndirnar, fangar vel einangrunina sem við festumst oft í með tækjunum í lífi okkar og tengslin sem hægt er að endurheimta þegar við leggjum þau til hliðar, sem kallast sterkt á við aðrar bækur Bergrúnar Írisar.
„Orðin þau eru svo ólík og löng, að undraveröld þau mynda mér göng“ og það eru einmitt göng sem bókin á myndinni við þessar línur sýnir en hún prýðir einnig kápu bókarinnar Töfralandið (2020). Náttfataklætt barn lýsir lestrarupplifun og þar koma við sögu margar kunnuglegar persónur barnabókmenntanna, bæði í orðum og myndum. Í myndum og texta er áhersla lögð á upplifanir sem bækur veita okkur úr öryggi hins kunnuglega.
Vinátta, tilfinningar, líf og dauði
Bergrún Íris nýtir sér möguleika barnabókarinnar og þeirra myndrænu eiginleika sem hún hefur oft að bera sérstaklega vel í Lang-elstur-bókaflokknum. Þar eru til dæmis hugsanir Eyju breiðletraðar og í öðrum lit í textanum svo lesandi gerir sér grein fyrir því hvenær um innri rödd hennar er að ræða. Tilfinningalífið á sér einnig birtingarmyndir í myndunum eins og í upphafi fyrstu bókarinnar í þríleiknum, Lang-elstur í bekknum (2017), þegar Eyja er með þvottavél í maganum, myndlíkingunni er bæði miðlað með mynd og einnig í textanum: „Fljótlega finnst henni eins og maginn sé þvottavél á fullum snúningi. Hvað ef það verður ekkert gaman? Hvað ef hún eignast enga vini?“ Þegar pabbi Eyju fylgir henni inn í skólann og kvíðinn sækir að segir hann henni að muna að hún er Ofur-Eyja sem gerir henni kleift að hlaupa „brosandi inn í stofu, með ímyndaða ofurhetjuskikkju á bakinu“ (16). Í myndum bókarinnar er farið sparlega með liti en á myndinni af Ofur-Eyju skartar hún fagurrauðri skikkju sem skýtur svo áfram upp kollinum í ímyndunarafli Eyju og samhliða á myndum af henni í gegnum bókina.
Rögnvaldur borðar mat sem er framandi fyrir Eyju, er með gervitennur sem hann tekur út úr sér þegar hann þarf ekki á þeim að halda við að borða og lætur í sér heyra þegar kennarinn segir útgáfur af ævintýrunum sem samræmast ekki þeim sem hann þekkir: „Úlfurinn á að éta bæði ömmuna og Rauðhettu!“ (25). Þar sem Eyja er ný í hverfinu og er feimin í félagslegum aðstæðum, of feimin til að nálgast Siggurnar þrjár sem eru bekkjarsystur hennar, bindast þau Rögnvaldur vinaböndum. Eyja uppgötvar leyndarmál Rögnvaldar, ástæðuna fyrir því að hann er enn í sex-ára-bekk 96 ára. Eyja hefur mikinn lestraráhuga en Rögnvaldur hefur aldrei lært að lesa og af því að Eyja getur ekki hugsað sér að missa þennan nýja vin sinn þegar hún fer upp um bekk ákveður hún að hjálpa honum. Rögnvaldur sér hins vegar leið til að hjálpa Eyju, sem að hans mati má „ekki bara leika við einn fjörgamlan fýlupúka“ (40-41) svo þau gera með sér samning um að Eyja megi kenna Rögnvaldi tvo bókstafi fyrir hvern nemanda sem hún talar við.
Hræðslan við höfnun og einmanaleikinn og erfiðleikarnir við að eignast vini sem fjallað var um í Viltu vera vinur minn eru því þróaðir áfram hér. Á myndinni af Eyju að morgni fyrsta skóladags eftir jólafríið sést hvernig kvíðinn birtist í hlutunum í herberginu hennar, skeifan er ekki bara á andliti Eyju heldur einnig á dúkkunni í glugganum og sólinni á myndinni á veggnum.
En Eyja grípur til ímyndunaraflsins, í formi ofurhetjuskikkjunnar, til að komast í gegnum áskoranirnar sem fylgja samningnum. Á meðan Eyja kynnist bekkjarfélögunum lærir Rögnvaldur að skrifa – en hún frestar því fram í lengstu lög að nálgast Siggurnar þrjár. Meðfram félagsfærninni færir Rögnvaldur Eyju einnig mikinn orðaforða, sérstaklega veðurfarslegan, eins og endurspeglast í myndinni af minnisbók Eyju hér að neðan.
Eyja og Rögnvaldur eru orðin einu ári eldri í næstu bók í flokknum, Lang-elstur í leynifélaginu (2018). Á saursíðum bókarinnar eru helstu persónur kynntar með mynd og stuttum texta. Þar eru þau Eyja og Rögnvaldur, 7 og 97 ára, fremst og svo tveir af bekkjarfélögum þeirra sem kynntir voru til sögunnar í fyrstu bókinni, Magni og Ólafía. Á hinni blaðsíðu opnunnar eru svo persónur af Ellivöllum, hjúkrunarheimilinu sem Rögnvaldur flytur á í bókinni, svo að á kynningaropnunni er meira en helmingur persónanna í eldri kantinum. Þessi staðreynd gefur tóninn fyrir þema sem var til staðar í fyrstu bók þríleiksins og verður æ meira áberandi eftir því sem líður á hann og það er umfjöllunarefnið líf fullorðinna, sem nánar verður vikið að hér að neðan.
Húmorinn fær að njóta sín þegar Eyja og Sigga Sól velta fyrir sér hvað unglingar geri eiginlega á sumrin en ennþá mikilvægari spurning er hvað Rögnvaldur geri eiginlega á sumrin og hvort það séu til „leikjanámskeið fyrir gamalt fólk“ (13). Bergrún Íris gæðir bækurnar í þríleiknum húmor fyrir alla lesendur, börn og fullorðna, bæði í texta og myndum svo unum er að lesa. Í bókinni er Bella, annar íbúi á hjúkrunarheimilinu, gjarnan sýnd á skoplegan hátt. Persónusköpun hennar er skondin, hún klæðist til dæmis alltaf fötum með blettatígursmynstri og tilhugalíf hennar og Rögnvaldar er einnig broslegt, að minnsta kosti fyrir eldri lesendur.
Tilfinningalíf Eyju er áfram umfjöllunarefni og hér er það ekki þvottavél í maganum á henni heldur líður henni eins og hún hafi fengið fótbolta „beint í magann“ (18). Rögnvaldur hefur alla ævi búið hjá fjölskyldu í sama húsinu, fyrst hjá systur sinni og svo systurdóttur. Blendnar tilfinningar Rögnvalds til þess að flytja að heiman á gamalsaldri eru túlkaðar af Eyju sem svipaðar því þegar faðir hennar „horfir á fótboltaleiki sem enda með jafntefli: Fúll, en samt ekki“ (26). Stefið um það sem Eyja og Rögnvaldur geta kennt hvoru öðru er endurtekið í þessari bók í nýrri útfærslu. Það kemur í ljós að Rögnvaldur kann ekki á klukku sem hamlar honum í daglegu lífi nú þegar hann er fluttur að heiman: „Ég hef misst af veðurfréttunum hvert einasta kvöld síðan ég kom hingað af því að ég sit bara inni í herberginu mínu eins og kjáni. Gamall kjáni sem kann ekki á klukku.“ (76) Eyja tekur að sjálfsögðu að sér þetta verkefni en lexíurnar sem hún lærir af Rögnvaldi eru lúmskari í þessari bók þótt þær tengist líka mannlegum samskiptum og tilfinningum.
Hallgerður, forstöðukona Ellivalla, er máluð sem hálfgert illmenni, hún er reið á svipinn þegar Eyju finnst að hún ætti að vera glöð (34). Eyja kemst að þeirri niðurstöðu að Hallgerður hljóti að vera „vont vélmenni“ – hugmynd sem hefur verið viðruð við lesendur í persónugalleríinu í upphafi bókarinnar þar sem hún er kynnt sem „Vonda vélmennið (Hallgerður)“. Það er Hallgerður sem verður svo fyrsta rannsóknarefni leynifélagsins sem Eyja, Rögnvaldur, Magni og Ólafía stofna, enda í hæsta máta undarlegt að hún skuli aldrei brosa. Í bókinni notar Eyja ímynduðu ofur-Eyju skikkjuna sína til að komast yfir hræðslu við að lesa fyrir heimilisfólk – en það gerir hún til að komast að því hvort Hallgerður sé í raun vélmenni, því aðeins vélmenni myndi geta hlustað á upplestur á sögu H. C. Andersen um stúlkuna með eldspýturnar þurrum hvörmum. Upplestur Eyju hefur tilætluð áhrif og kemur af stað táraflóði hjá Hallgerði og í framhaldi af því er hún hlý við Eyju og segir henni af hverju hún hafi verið svo vansæl þessa daga sem þær hafa þekkst. Herbergi Rögnvaldar losnaði þegar konan sem bjó þar áður, og sem Hallgerði þótti vænt um, dó en gráturinn virðist hafa veitt Hallgerði tilfinningalega útrás. Eyja hafði ekki leitt hugann að þessu praktíska atriði hjúkrunarheimilisins en hér er þema sem verður aðalumfjöllunarefni síðustu bókarinnar í flokknum kynnt til sögunnar: dauðinn og sorgin. Á seinni saurblöðum hefur persónugalleríið verið uppfært í ljósi nýrra upplýsinga: Textinn undir myndinni af Hallgerði um að hún sé vont vélmennið er horfinn og nafnið hennar ekki lengur í sviga heldur hefur henni verið gefin ágætiseinkunn.
Í þessari bók eru foreldrar Eyju frekar fjarverandi, þau sækja Eyju í lok bókar og þakka Rögnvaldi fyrir að leyfa henni að vera hjá sér á meðan þau hafa þurft að vinna mikið. Þetta staðfestir óþægindi Eyju yfir því að mamma hennar hafi tapað ofurkraftinum sínum, sem er að vita alltaf hvernig Eyju líður, því hún vinnur svo mikið og er alltaf að flýta sér. Mamman er sérstaklega sýnd eiga erfitt með að ná jafnvægi milli vinnu og einkalífs og tekur vinnuna með sér heim. Áfram er haldið með þessa þræði í síðustu bókinni í flokknum.
Smiðshöggið sem Bergrún Íris rekur á þríleik sinn með Lang-elstur að eilífu (2019) er stórglæsilegt og hlaut bókin Íslensku bókmenntaverðlaunin og svo einnig Vestnorrænu barnabókaverðlaunin. Hér er haldið áfram með þræði sem hafa legið í gegnum bókaflokkinn, tekist á við tilfinningar og samskipti við aðra og einnig lífið og dauðann. Þrátt fyrir að umfjöllunarefnið sé alvarlegra en í fyrri tveimur bókunum nálgast Bergrún Íris það af húmor og hlýju og gefur Eyju og Rögnvaldi ásamt lesendum sínum stórkostlega kveðjustund. Eyja hjálpar Rögnvaldi að gera það sem hann langaði til að gera á ævinni og Rögnvaldur hjálpar Eyju að takast á við nýtt hlutverk og fjölgun í fjölskyldunni.
Bókin hefst svo líkt og sú fyrsta á fyrsta skóladeginum nema hvað að núna er Eyja orðin ein af stóru krökkunum. Kvíðinn vaknar hins vegar hjá henni þegar Rögnvaldur mætir ekki í skólann út af veikindum. Heima bætist svo enn á áskoranirnar þegar mamma og pabbi Eyju flytja henni þær „frábæru fréttir“ að hún muni eignast bróður. Það gera þau á ögn klaufalegan máta þar sem bent er á þau hlutverk sem fullorðnir eiga það til að setja börn í á tækniöld:
Mamma hefur tekið upp símann og beinir honum í laumi að Eyju, líklega að taka upp myndband. Þetta gerir mamma alltaf þegar eitthvað stórt og merkilegt gerist. Þegar Eyja fékk nýtt hjól var mamma með símann á lofti og Eyja gerði sitt besta til að gleðiviðbrögðin yrðu sem mest fyrir myndbandið.
(14-15)
Allt í einu man Eyja eftir símamyndavélinni. Hún sér hvernig mamma og pabbi halda niðri í sér andanum á meðan þau bíða eftir viðbrögðum frá henni. Án þess að velta litla systkininu meira fyrir sér brosir Eyja eins stóru brosi og andlitið megnar.
(17)
Teikningin af sónarmyndinni með blýantsteiknuðum hugleiðingum Eyju í kring skeytir á skemmtilegan hátt saman ólíkum stílum, raunsæi og fantasíu, en Eyja heldur fyrst að myndin þýði að þau séu að flytja til Mars – sem er álíka framandi tilhugsun og lítill bróðir og tilheyrandi uppstokkun í fjölskyldunni. Eyja setur upp „platbros“ (18) til að uppfylla væntingar foreldranna og notar svo skáldskapinn sem flóttaleið, hún vill frekar lesa Elsku Míó minn en ræða um barnið við foreldra sína. Áhyggjur hennar af breytingunum sem barnið mun hafa í för með sér valda „hnút í maganum“ (22) og í gegnum bókina nær hún litlum tengslum við tilhugsunina um bróðurinn. Rögnvaldur verður hins vegar hæstánægður þegar hann heyrir fréttirnar og fljótlega berst talið að því að það „líði að endalokum“ hjá honum og að það sé gott að einhver nýr „fylli í skarðið“ (29). Bæði orðatiltækin vekja fleiri spurningar en svör hjá Eyju.
Glíma Eyju við að skilja þau orð sem fullorðna fólkið notar í kringum dauðann sýnir vanmátt hennar gagnvart aðstæðunum og um leið er hún orðaforðalexía. Það er pabbi hennar sem hjálpar henni að skilja og sættast við stöðuna sem fylgir því að vera sjö ára og eiga 97 ára gamlan besta vin. Hann kennir henni einnig að nýta tímann sem best. Eyja skrifar svo upp lista fyrir Rögnvald yfir hluti til að gera áður en hann deyr og Rögnvaldur bætir við hann. En segir svo: „Heyrðu vina! Þú þrælar mér ekki í gegnum langan lista af lífshættulegum atriðum án þess að sinna þínum eigin lista sjálf.“ (38) Listi Eyju er einfaldur og er birtur í teikningu af skrift Rögnvalds þar sem sól umlykur textann: „Eyja: Vera góð stóra systir“ (39).
Eyja ranghvolfir ósjálfrátt augunum á meðan hún veltir listunum tveimur fyrir sér. Á hennar lista er aðeins eitt atriði en sextán á lista Rögnvaldar. Hún mun þó þurfa að sinna sínu atriði á hverjum einasta degi í mörg ár! Alveg þar til hún deyr sjálf. Með semingi samþykkir Eyja skilyrðin enda dauðlangar hana að sjá vin sinn syngja á sviði og hoppa á trampólíni.
(39)
Tíminn líður og Eyja og Rögnvaldur takast svo á við listana sína og lýsingarnar á því eru einkar húmorískar. Að heimsækja sveitina sína einu sinni enn bætist svo á lista Rögnvaldar. Undir niðri kraumar þó kvíðinn fyrir endalokunum og hnúturinn í maga Eyju stækkar þótt hún vilji líka halda að á meðan listinn sé ókláraður geti Rögnvaldur ekki dáið. Þau sannfæra mömmu Eyju um að keyra sig í sveitina þó að hún sé kasólétt eins og sést á myndum af henni og þurfi að vinna – hún tekur vinnutölvuna með. Sveitaorðaforðinn sem Rögnvaldur notar dregur bæði fram muninn á kynslóðunum og brúar hann því Eyja leggur á minnið og skrifar niður þau nýju orð sem hún getur. Þegar mamma Eyju fær samdrætti, allt of snemma, rifjar Rögnvaldur upp gamla takta – og þó hann hafi aldrei lært að keyra bíl keyrir af stað með hana á traktor til móts við sjúkrabílinn. Á meðan snýr þvottavélin úr fyrstu bókinni aftur í maga Eyju. Samdrættirnir valda því að mamma Eyju þarf að taka því rólega fram að fæðingu og hætta að vinna, sem Eyja fagnar, og hér kemur fram þema sem er nokkuð algengt í bókum Bergrúnar Írisar: Að við þurfum að aftengjast tækjunum til að ná betri tengslum hvert við annað.
Kveðjustund Eyju og Rögnvaldar er svo sett í samhengi við aðrar áskoranir sem Eyja hefur tekist á við í gegnum bókaflokkinn og pabbi hennar hjálpar henni einnig og spyr hvort heimsóknin á spítalann sé „verkefni fyrir Ofur-Eyju“ (81). Í heimsókninni segir Rögnvaldur að hann sé að deyja, nú er ekki rætt um yfirvofandi atburði undir rós heldur hjálpar Rögnvaldur Eyju að skilja og sættast við þá. Þegar foreldrar Eyju flytja henni svo fréttirnar af dauða Rögnvaldar eru líkindin og mismunurinn við fréttirnar af bróðurnum dregnar fram: „Í þetta sinn er enginn sími á lofti. Engin myndataka. Samt eru þetta stórar fréttir. Miklu stærri og merkilegri heldur en einhverjar óskýrar myndir í umslagi.“ (89-90)
Leikið með spennusöguna, hrollvekjuna og kynjaðar væntingar
Hryllingur, sem reynist svo við nánari skoðun ekki vera svo hræðilegur, og ærslafullur húmor einkenna bækurnar tvær sem komnar eru út í Kennarinn sem hvarf¬-seríunni, Kennarinn sem hvarf (2019) og Kennarinn sem hvarf sporlaust (2020). Þessar bækur eru textameiri og lengri en aðrar bækur Bergrúnar Írisar. Í bókunum tveimur er sögumaður og aðalpersóna sitt hvor persónan úr bekknum 6. BÖ og lesandinn fær því ólíka sýn á krakkana í bekknum og aðrar persónur bókanna. Í upphafi fyrstu bókarinnar segir Hekla Þöll, sögumaður hennar, um aðalpersónu þeirrar næstu: „Ég vildi óska að ég væri jafn hugrökk og hún. Mig hefur oft langað að tala við Söru en hún á risastóran vinkonuhóp og er aldrei ein.“ (16)
Í Kennarinn sem hvarf er aðalpersónan, Hekla Þöll, á skjön í bekknum sínum. Hún er ný í bekknum, á ekki vini í honum og er ári yngri en bekkjarsystkinin því pabbi hennar fékk það í gegn að henni forspurðri að flytja hana upp um bekk.
Af því ég er einbirni hefur pabbi of mikinn tíma til að kenna mér hluti eins og algebru og kínversku fyrir byrjendur. Þess vegna er ég hér, í bekk með eldri og stærri krökkum og til að gera illt verra þá er ég mjög lágvaxin miðað við aldur. Sko mjög!
(11)
Hekla Þöll er í litlum tengslum við samnemendur sína en á í góðu sambandi við kennarann þeirra, Báru. Atburðir bókarinnar snúast svo um hvarf þeirrar síðarnefndu sem krakkarnir í bekknum reyna að upplýsa. Eftir heilan dag án kennarans fá þau skilaboð frá einhverjum sem kallar sig gátumeistarann: þriggja sekúndna óskýra mynd af manneskju „á stól með hendur fyrir aftan bak og klút fyrir munninum“, Bára er rauðbólgin um augun, og skilaboðin sem fylgja eru sett fram í myndarformi. Þar sem um rafræn skilaboð er að ræða bregður Bergrún Íris út af sínum handteiknaða texta sem einkennir margar bóka hennar.
Svona eru svo skilaboðin frá gátumeistaranum sett fram í bókinni en hann lofar að sleppa kennaranum ef krakkarnir leysa gátuna í sameiningu – án þess að leita til internetsins. Með hjálp hinna í bekknum nær Hekla Þöll að púsla saman lausninni við fyrstu gátunni og þrautir gátumeistarans hrista bekkinn saman. Hvernig krakkarnir í bekknum endurheimta kennarann sinn er nokkuð ævintýralegt en lykillinn er samvinna.
Í upphafi Kennarans sem hvarf er rætt um málfræðilegt karlkyn, Hekla Þöll vísar til gátumeistarans sem „hans“ og Axel spyr: „Af hverju gerirðu ráð fyrir að það sé karlmaður að senda skilaboðin?“ (42) Heklu „langar að útskýra að gátumeistarinn sé bara karlkynsorð“ (43) en kynjavæntingar verða mikilvægt stef í bókinni. Þar inn í blandast þau gamaldags kynhlutverk sem felast í því að Hekla Þöll passar yngri systkini Axels en einnig sú staðreynd að kennari, gátumeistari og mannræningi (sem og raunar höfundur og teiknari) eru allt karlkynsorð þrátt fyrir að þessi hlutverk séu öll leikin af konum í bókinni. Þegar skólastýran minnist ekki á mannræningjann heldur þrumar yfir börnum og foreldrum þeirra um „ofnotkun snjallsíma og gömlu góðu dagana þegar börn vörðu tíma sínum í að kveðast á og leysa gátur“ fer kaldur hrollur um Heklu Þöll (127). Krakkarnir handsama svo skólastýruna með hjálp fullorðna fólksins og þau virðast vera orðinn samrýmdur hópur í lok bókar auk þess sem Bára og pabbi Heklu Þallar fara að draga sig saman eftir að Báru er bjargað frá mannræningjanum sem er skemmtilega hliðarfrásögn fullorðna fólksins sem haldið er áfram með í framhaldsbókinni.
Skreytingar af hleðslutækjum fylgja kaflatitlum en annars eru teikningar í bókinni aðallega einstaklingsmyndir af persónunum og svo nokkrar myndir af hópnum og ein teikning af töflunni þegar krakkarnir setja upp gátu Einsteins. Myndirnar af rafrænum skilaboðum í síma eins og sú hér að ofan eru svo á mörkum teikninga og texta og það er nútímaleg frásagnaraðferð sem ungmenni í dag tengja við. Bergrún Íris tekur hversdagslega samskiptaleið krakka í dag og gefur henni rými í bókinni.
Framhaldið af Kennaranum sem hvarf fylgir áfram bekknum, aðalpersóna og sögumaður Kennarans sem hvarf – sporlaust! er Sara og albanskur bakgrunnur hennar spilar stóra rullu í bókinni. Munurinn á heimalandinu og Íslandi er alltumlykjandi í hugsunum og skynjunum Söru, sem heimsækir enn Albaníu í draumum sínum. Lýsingar Söru á siðum og venjum Íslendinga eru gjarnan kómískar og með þeim tekst Bergrúnu að láta lesanda sjá hið kunnuglega á nýjan máta með augum Söru:
Á borðinu er stór skál af pasta og grænmeti, löðrandi í tómatsósu. Þannig er maturinn yfirleitt á Íslandi. Fólk setur tómatsósu á næstum allan mat. Sama hvort það er kjúklingur, fiskur, pasta eða pylsur. Ég sá meira að segja stelpu setja tómatsósu ofan á rúgbrauð um daginn. Pabbi myndi sko aldrei leyfa mér að borða tómatsósu úr búð. Hann segir að þannig tómatsósa sé ekki einu sinni úr tómötum heldur eplamauki, litarefnum og sykri.
(26)
Sara nýtur þess þó einnig að vera í burtu frá pabba sínum sem myndi segja „Engin tómatsósa!“ og fær sér aukaskammt á pastað.
Auk krakkanna í bekknum eru Bára kennarinn þeirra með í för í skíðaferðinni ásamt nýja kærastanum, Jósepi, pabba Heklu Þallar og Rúti Rútssyni sem keyrir rútuna. Þegar þau kveikja á útvarpinu á leiðinni er í gangi fréttaflutningur um skólastýruna þeirra fyrrverandi úr fyrstu bókinni, Arnþrúði Haukfjörð.
Strax í rútunni byrjar óhugnanleg stemning bókarinnar að teiknast upp en hún er þó aldrei yfirþyrmandi. Þessari stemningu er miðlar í gegn um Söru sem „líður eins og einhver hafi verið að elta [þau] í raun og veru ...“ (21) og hefur almennt á tilfinningunni að eitthvað sé öðruvísi en það á að vera. Um kvöldið segir Jósep söguna af „Djáknanum á Myrká“ og þegar Hekla, sem er hrædd yfir lestri föður síns, segist hafa séð einhvern fyrir utan gluggann er Sara fljót að afskrifa það þó að henni finnist „eins og djúpt í myrkrinu glitti í tvö augu“ (29). Um nóttina vakna krakkarnir upp við skell og þegar þau fara að rannsaka málið eru Bára og Jósep horfin og í herberginu þeirra er miði frá gátumeistaranum – mannræninginn er aftur kominn á stjá. Það sem vekur krökkunum mestan ugg, veldur uppköstum hjá Heklu Þöll og lætur Óla Stein pissa í sig, er þó þegar þau finna það sem þau halda fyrst að sé afskorinn blóðugur putti en reynist vera gulrótarbiti með tómatsósu úr kvöldmatnum. Annar miði berst frá mannræningjanum, festur með öxi á útihurðina svo „[þ]essi skíðaferð líkist æ meira óhugnanlegri hryllingsmynd“ (105). Í þetta skipti eru aðstæður krakkanna skelfilegri en í fyrri bókinni, rétt eins og hin óhugnanlega stemning sem Bergrún Íris skapar er meiri í þessari bók en þeirri fyrri, þau eru alveg símalaus og eini fullorðni einstaklingurinn er Rútur rútubílstjóri sem gengur „ekki með síma í vasanum eins og þið vitleysingarnir“ (58). Þau þurfa því að leysa gátur gátumeistarans sjálf með hjálp bókakosts skíðaskálans.
Líkt og í fyrri bókinni þar sem Hekla Þöll hefur mikilvægu hlutverki að gegna í söguþræðinum er Sara í miðju hringiðunnar í þeirri seinni. Sara festist með Arnþrúði í rútunni þar sem hún trompast þegar Arnþrúður kallar bróður hennar aumingja en hann glímir við heilsufarsvandamál sem eru ástæðan fyrir því að fjölskyldan flutti til Íslands. Þegar „[r]eiðin ólgar og springur svo eins og kröftugt eldgos með rauðglóandi kviku“ notar Sara þennan óvænta kraft og fótboltahæfileika sína til að sparka í Arnþrúði áður en hún tæklar hana harkalega (122).
[[{"fid":"7522","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Skólastjórinn","field_file_image_title_text[is][0][value]":false},"type":"media","field_deltas":{"12":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Skólastjórinn","field_file_image_title_text[is][0][value]":false}},"attributes":{"alt":"Skólastjórinn","class":"media-element file-default","data-delta":"12"}}]]
Skólastjórinn í Kennaranum sem hvarf – sporlaust! minnir ögn á höfundinn sjálfan, báðar hafa þær gaman af því að leggja fyrir krakka gátur og reyna að fá þá til að lesa meira og vera minna í símunum – og raunar segist Bára kennari einnig vera hlynnt því þó hún sé ekki sammála aðferðum skólastýrunnar. Arnþrúður segir sjálf: „Þið ... þið þurftuð að læra! Ég vildi bara kenna ykkur. Mér tókst það næstum í fyrra en þið eruð alveg jafn sjúk í símana ykkar og áður. Þið hafið ekki enn lært að vinna saman.“ (123) Þar hittir Arnþrúður naglann á höfuðið og það er einmitt þetta sem Sara hefur áður ýjað að, þó að hópurinn hafi orðið samrýmdur og getað unnið saman þegar þau þurftu þess voru hlutirnir fljótir að falla í sama farið eftir að mannránið var leyst. Tengls Arnþrúðar við höfund bókanna eru svo tryggð enn frekar í orðum Söru í lok bókarinnar:
Ég vildi að skólastjórinn okkar skrifaði bók í staðinn fyrir að ræna fólki. Hugmyndirnar hennar eru nefnilega ekki allar alslæmar. Vísnagátur í stað snjallsíma og allt það. Svo vill hún að krakkarnir læri að vinna saman í stað þess að stríða hver öðrum. Mér finnst bara að hún ætti að skrifa spennandi barnabækur frekar en að ræna fólki. Hún gæti örugglega náð til fleiri krakka þannig. Ef ég verð einhvertíman rithöfundur ætla ég að skrifa eitthvað sem skiptir máli.
(138)
Spjaldanna á milli
Í umfjöllunni hér að ofan er oft vikið að saursíðum bóka Bergrúnar Írisar enda notar hún alla bókina, spjalda á milli, til að miðla sögum sínum. Hún notar saurblöðin oft til að skapa eða undirstrika stemninguna í bókunum og þar eru dregin saman áhersluatriði þeirra. Í Kennaranum sem hvarf – sporlaust! skreyta klukkur kaflaheitin og þær eru allar samankomnar á saursíðunum. Bæði þar víðar í bókinni gefa þær tilfinningu fyrir yfirvofandi hættu og tímanum sem líður eftir að Báru og Jósepi er rænt og óvíst er um hvort þau séu í skjóli fyrir veðrinu. Í Lang-elstur að eilífu eru saurblöðin undirlögð af minningarvegg af vinunum Eyju og Rögnvaldi, sem er uppfærður í lok bókar með myndum af atburðum þessarar lokasögu um þau tvö.
Áberandi þráður í bókum Bergrúnar er lestraráhugi og lestraránægja, þetta er umfjöllunarefni Töfralandsins, og þar sem og víðar í höfundarverkinu eru lesendur hvattir beint og óbeint til lestrar. Í Kennaranum sem hvarf-bókunum setur Bergrún Íris sjálf fram skilaboð frá sér, sem höfundi, eftir að sögunni lýkur þar sem hún stígur fram og bendir á bækur eða nálganir á lestur og leiðir til að finna fleiri áhugaverðar bækur. Í Kennaranum sem hvarf – sporlaust! stingur hún meira að segja upp á að ef lesendur finni ekki bókina sem þeir vilja lesa geti þeir skrifað hana sjálfir.
Tengsl okkar við aðrar manneskjur eru einnig ofarlega í huga Bergrúnar Írisar og eru tekin fyrir í flestum bóka hennar. Þar fléttast oft saman þau takmarkandi áhrif sem tæknin og tækin geta haft á tengsl okkar. Þetta er þarft umfjöllunarefni sem Bergrúnu Írisi tekst best til við þegar hún nálgast það af húmor eins og í bókinni Lang-elstur að eilífu. Bergrún Íris er mjög afkastamikill höfundur og bækur hennar sýna gjörla hversu mikilvægt framlag íslenskra barnabókahöfunda er. Hún dregur fram nútímaaðstæður, bæði þegar kemur að veðurfari og samfélagi, og gleymir ekki fjölmenningu sem er sífellt mikilvægari hluti af íslensku samfélagi. Bergrún Íris færir bæði nýjum og eldri lesendum spennandi sögur sem hún miðlar jafnt í mynd og texta og nýtir til þess alla bókina í hvert sinn.
Elín Björk Jóhannsdóttir, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Greinar
Almenn umfjöllun
Linda Ólafsdóttir: "Ósýnilegi meðhöfundurinn" (umfjöllun)
Tímarit Máls og menningar 2020; 81 (2) bls. 59-68.
Um einstök verk
lang-elstur í bekknum
lang-elstur í leynifélaginu
lang-elstur að eilífu
Arngrímur Vídalín Stefánsson: "Langhjartnæmustu barnabækurnar" (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2020; 81 (2) bls. 132-135.
Vinur minn vindurinn
Sigríður Ásta Árnadóttir: Fjölbreytt orð og fortíðaróður (ritdómur)
Börn og menning, 2015; 30 (1) bls. 18-19.
Verðlaun
2020 - Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins: Lang-elstur að eilífu
2020 - Fjöruverðlaunin - bókmenntaverðlaun kvenna: Kennarinn sem hvarf
2019 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Lang-elstur að eilífu
2019 - Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur: Kennarinn sem hvarf
2016 - Vorvindar, viðurkenning IBBY fyrir framlög til barnamenningar
Tilnefningar
2023 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: Kennarinn sem kveikti í.
2022 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: Kennarinn sem hvarf sporlaust.
2022 - Bókaverðlaun barnanna: Kennarinn sem kveikti í
2021 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: Langelstur að eilífu.
2020 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: (lang) Elstur í leynifélaginu
2020 - Bókaverðlaun Barnanna: Kennarinn sem hvarf
2020 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur fyrir myndlýsingar: Ró - fjölskyldubók um frið og ró
2019 - Fjöruverðlaunin - bókmenntaverðlaun kvenna: Lang-elstur í leynifélaginu
2018 - Fjöruverðlaunin - bókmenntaverðlaun kvenna: Lang-elstur í bekknum
2018 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur: Lang-elstur í bekknum
2015 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur fyrir myndlýsingar: Viltu vera vinur minn?
2015 - Fjöruverðlaunin - bókmenntaverðlaun kvenna: Vinur minn, vindurinn
2015 - Barna- og unglingaverðlaun Norðurlandaráðs: Vinur minn, vindurinn
Sokkalabbarnir: Sóli fer á ströndina
Lesa meiraSóli og Sokkalabbarnir fara í fjöruferð í góða veðrinu. Þau tína skeljar og borða nesti. Þegar krabbi kemst í klandur reynir á Sokkalabbana að koma til bjargar. Í landi Sokkalabbanna búa tilfinningarríkir sokkar í ýmsum litum. Með lestri bókarinnar fá börn tækifæri til að skoða og reyna að skilja betur hinar ýmsu tilfinningar, hvort sem þær eru erfiðar, skrítnar eða skemmtilegar.LÆK
Lesa meiraNíu smásögur um sæskrímsli, uppvakninga, tröll, kolkrabbahamstur, fangamyndavél, ofurhetju og allskyns fígúrur sem búa innan um mannfólkið í Hafnarfirði, sögurnar eru myndlýstar með myndum frá nemendum í hafnfirskum skólum.Þorri og Þura eignast nýjan vin
Lesa meiraÞura heimsækir Þorra vin sinn sem er upptekinn í leik við Eystein álfastrák. Þura fær sting í magann því henni finnst erfitt að þurfa að deila besta vini sínum.Sokkalabbarnir
Lesa meiraDag einn fer hvítur sokkur í þvottavélina og snýst þar, hring eftir hring, þar til hann þýtur inn í dularfulla og litríka ævintýraveröld. Í landi Sokkalabbana búa tilfinningaríkir sokkar í ýmsum litum. Með lestri bókarinnar læra börn að tala um og skilja hinar ýmsu tilfinningar, hvort sem þær eru erfiðar, skrítnar eða skemmtilegar.VeikindaDagur
Lesa meiraÞetta byrjaði þegar ég gleymdi að taka lyfin. Fimm dögum síðar ligg ég í líkhúsinu ...Kennarinn sem sneri aftur
Lesa meiraÞótt krakkarnir í 8. BÖ hafi myndað þéttan vinahóp treystir Stefanía engum fyrir því sem gengur á heima. Þegar krakkarnir fara á hrekkjavökuhátíð fer af stað röð dularfullra atburða og Stefanía þarf að kafa djúpt eftir hugrekki sínu til að takast á við skelfilegar og krefjandi ógnir.. .Langelstur á bókasafninu
Lesa meiraÆtli draugar þurfi að tannbursta sig? hugsar Eyja en hristir svo höfuðið. Rögnvaldur er ekki draugur. Hann er bara með henni í anda, svona vinur sem hún getur hitt í huganum, hvenær sem hún saknar hans.Þorri og Þura: Jólakristallinn
Lesa meiraJólin nálgast og Þorri og Þura eiga að gæta jólakristalsins hans afa. Allt í einu hættir kristallinn að lýsa og hinn eini sanni jólaandi því í mikilli hættu! Tekst vinunum að laga kristalinn og bjarga jólunum?