Bókin er frumsamin á rússnesku, en þýdd eftir enskri útgáfu, þar sem hún heitir The Way of a Pilgrim.
Úr Leið pílagrímsins:
Þetta er sjálfsævisöguleg frásaga stanniks nokkurs - en svo voru nefndir pílagrímarnir sem reikuðu um og settu svip á rússneskt sveitalíf frá miðöldum þar til snemma á okkar öld. Í viðleitni sinni til að skilja orð Páls postula, „Biðjið án afláts“, tileinkar hinn nafnlausi sögumaður sér smám saman þá bænaraðferð er hesychast kallast. Með bænina að förunauti tekst hann á hendur flökkulíf pílagrímsins, og sem við sláumst í för með honum, kynnumst við nokkru af andstreyminu og gleðinni sem þessi lífsmáti hefur upp á að bjóða.
(úr formála, s. 5)
„Æ, nei! Guð fyrirbjóði yður að fara - ég leyfi þér það ekki! Eiginmaður minn kemur heim úr borginni í kvöld. Hann starfar þar sem dómari, og hann verður svo glaður að hitta þig! Hann lítur á hvern pílagrím sem sendiboða Guðs. Ef þú ferð núna, verður hann miður sín yfir að hafa ekki hitt þig. Þess utan þá er sunnudagur á morgun og þú getur beðist fyrir með okkur í messunni og síðan borðum við saman það sem Guð hefur gefið okkur. Það eru ávallt gestir hjá okkur á hátíðisdögum - allt að þrjátíu af minnstu bræðrum Krists. En þú hefur alls ekkert sagt mér af sjálfum þér - hvaðan þú kemur og hvert þú ert að fara! Vertu kyrr og talaðu við mig, mér þykir svo gott að heyra guðhrætt fólk tala um andleg efni. Börn, börn! Takið bakpoka pílagrímsins og setjið hann inn til íkonanna - þar mun hann gista í nótt.“
(s. 67)