De fattiga i Łódź eftir Steve Sem-Sandberg í íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar. Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2010.
Um bókina:
Þessi sögulega skáldsaga gerist í gettói gyðinga í pólsku borginni Łódź í síðari heimsstyrjöldinni. Af nístandi raunsæi leiðir Steve Sem-Sandberg lesandann inn í heim örvæntingar og óskiljanlegrar grimmdar. Hann segir frá af yfirgripsmikilli þekkingu og styðst að verulegu leyti við samtímaheimildir, meðal annars króníku sem rituð var af nokkrum starfsmönnum á skjalasafni gettósins. Höfundur fellir enga dóma en tekst á áhrifaríkan hátt að beina kastljósinu að þeim siðferðilegu spurningum sem vakna þegar manneskjan stendur frammi fyrir óhæfuverkum á stríðstímanum.
Úr bókinni:
Á milli himnesks þrumuskýjablámans og jarðnesks steinsteypugrámans liggur gettóið – flatt eins og pottlok.
Sé einungis tekið mið af flatneskju landslagsins er auðvelt að ímynda sér gettóið breiða úr sér út í hið óendanlega: kraðak af byggingum á leið upp úr rústum sínum eða í þann veginn að hrynja á ný. Raunverulegt umfang gettósins skynjar maður þó ekki fyrr en innan við grófa timburveggina og gaddavírsgirðingarnar sem þýska hernámsliðið hefur reist í kringum það.
Ef hægt væri, þrátt fyrir allt – til dæmis úr lofti – að skapa sér mynd af gettóinu, sæist glöggt að það er myndað af tveimur hlutum eða helmingum.
Eystri hlutinn er stærri. hann liggur frá Bałutytorgi og gamla kirkjutorginu, með Maríukirkjuna í miðju – háir tvíburaturnarnir blasa hvaðanæva við – gegnum leifarnar af fyrrum „gamla miðbænum“ í Łódź og að Marysin-úthverfinu með öllum sínum görðum.
Fyrir stríði var Marysin fyrst og fremst fátæklegt garðræktarsviði, þakið verkfærageymslum, svínastíum og alls kyns útihúsum sem virtist hrúgað niður af handahófi. Eftir að gettóinu var lokað hefur Marysin breyst í hverfi sumarbústaða og hvíldarheimila fyrir útvalda meðlimi í valdastétt gettósins.
Í Marysin er einnig að finna stóra gyðingagrafreitinn og, utan við gettómörkin, vörulestarstöðina í Radogoszcz, þangað sem stærstu vörulestirnar koma. Liðsmenn úr Öryggislögreglunni, sem vaktar gettóið allan sólarhringinn, lóðsa á hverjum morgni flokka gyðingaverkamanna út úr gettóinu til vinnu við fermingu og affermingu á brautarpallinum; og að loknum vinnudegi sér sama lögregluliðið samviskusamlega um að leiað verkamennina inn í gettóið að nýju.
Í austurhluta gettósins er að finna íbúðarhúslengjurnar austan og norðan við Sgierskagötu sem er fjölfarin tengibraut. Öll umferð, þar á meðal sporvagna, á milli suður- og norðurhluta Łódźborgar, fer um þesas götu sem er vöktuð af þýskum vörðum við svo að segja hvert götuhorn. Þrjár göngubrýr eru í gettóinu og af þeim teygja tvær þær fjölfarnari viðargólf sín yfir Zgierskagötu. Önnur þeirra er niðri við Gamla torg en hin, sem Þjóðverjarnir kalla Hohe Brücke, liggur frá steingrunni Maríukirkjunnar að Lutomierskagötu hinum megin við Kirchplatztorg. Vestari hlutinn er íbúðahverfið umhverfis gamla gyðingagrafreitinn og Bazarowattorg þar sem gamla samkunduhúsið stóð áður fyrr (nú hesthús). Þær fáu leiguíbúðir í gettóinu sem hafa rennandi vatn er að finna í þessu hverfi.
Enn stærri gata, Limanowskigata, liggur inn í gettóið úr vestri og skiptir vestari helmingi þess í tvo minni hluta, til norðurs og suðurs. Þar er einnig að finna göngubrú, við Masarskagötu, ekki jafn fjölfarna, sem tengir saman Masarska- og Wesolagötu.
Í miðju gettóinu, þar sem breiðgöturnar Zgierska og Limanowski mætast, er Bałutytorg. Torgið er eins og magi gettósins. Allir aðdrættir þess eru meltir hér og síðan sendir áfram til hinna svokölluðu resorty eða vinnustaða. Og héðan eru einnig fluttar flestar þær vörur sem framleiddar eru í verksmiðjum og á verkstæðum gettósins. Bałutytorg er eina hlutlausa svæðið í getóinu þar sem Þjóðverja og gyðinga er að finna saman í bland. Torgið er greinilea afmarkað með gaddavír og þar eru aðeins tveir „vaktpóstar“: annar við Łagiewnickagötu og hinn andspænis „aríska“ hlutanum í Litzmannstadt, við Zgierskgötu.
Þýsku gettóyfirvöldin eru með skrifstofur sínar á Bałutytorgi í nokkrum bröggum sem liggja samhliða skrifstofu Rukowskis. Þetta eru höfuðstöðvarnar, eins og almenningur kallar þær. Hér er líka að finna Aðalvinnumiðlunina (Centralne Biuro Resortów Pracy), sem undir stjórn Arons Jakubowicz hefur umsjón með vinnunni í resorty og er ábyrg fyrir allri framleiðslu og verslun við þýsku yfirvöldin.
Krossgötur.
Einskismanns- eða kannski ætti frekar að segja almenningsland í þessu stranglega vaktaða júðalandi sem Þjóðverjar jafnt sem gyðingar hafa aðgang að, þeir síðarnefndu þó aðeins að því tilskildu að þeir geti sýnt gildan passa.
Eða ef til vill bara hinn sérstaki sársaukablettur í hjarta gettósins sem opinberar svo ljóslega ástæðuna fyrir tilvist þess. Umfangsmikið samansafn niðurníddra, heilsuspillandi bygginga umhverfis blett sem er í rauninni ekkert annað en risastór brottflutningsmiðstöð.
(41-3)