Úr Leiðinni heim:
FERÐASAGA
Þegar faðir minn var ungur,
söðlaði hann Rauð sinn og Sokka
og hélt suður,
þvert yfir hálendið,
án tjalds og áttavita.
Hugðist fylgja gangnamönnum.
Fylgdina þraut
og milli jöklanna,
fjarri sæluhúsum
skall á voðaveður.
Undir steini
létu maður og hestar fyrirberast
og héldu vöku sinni.
Tvísýn var glíman við höfuðskepnurnar.
Þá sást hugur þeirra á ferð
í byggð norðan jökla.
Áfram var haldið í illfærð,
fjöllin ein vörðuðu ókunna slóð.
Jökulfallið fór faðir minn á fossbrún
og sundreið ár.
Þrekaður náði hann til byggða.
Á Íslandi varð enginn úti
í það skiptið.
Því faðir minn var hollur vættum landsins
og auðnan hans meðreiðarmaður.
(s. 58-59)