Úr Loftræsting : farir mínar holóttar 1:
Sjálfsgagnrýni í fleirtölu
Kitlandi tilfinning
að telja sig setja svip á bæinn
sem er ömurlega vitlaus og smár
andstæðingar fatatískunnar
fylgjandi andtískunni
klæða sig og klippa samkvæmt henni
alltaf á móti hákúltúrnum
dýrka háþróaða framúrstefnulágmenningu
og hrærast í alþýðusnauðri alþýðufræði
En afþví steinsteyptu stórblokkirnar eru svo kaldar
og ómannsekjulegar
er skriðið ofaní kjallara
í gamla bænum
og uppdráttarsjúk háaloft gömlu bakhúsanna
eru samkomustaðirnir
þarsem gáfulegt sipp
úr kínverskum grasatebollum
og íhugult snörl í maíspípum
fyllir andríkt tómarúm
persneska línan á veggjunum
og tónlist útdauðra villimanna
gefur taktinn fyrir stunur samtalanna
Lesa Rimbaud
sem gaf skít í kúltúrinn
samstæðar klíkur
lausar við illsku heimsins
allir langbestir
og gálgahúmorískari en hinir
ekkert mannlegt óviðkomandi
utan efnahagslögsögu hópsins
og landhelginnar
kringum tilfinningar meðlimanna
sem hafa áhuga á öllum vandamálum
sem leysa má þeim að kostnaðarlausu
Sótthreinsaðir af eigin vömmum
en stundum desperat
afþví hinir eru frumlegri
eða meira desperat
fatta ekki skilningsleysi alþýðunnar
meðan hrósið
„vá þú ert snillingur!“
og hvatningarnar
ganga endalausa hringi
kringum borðið á kaffihúsinu
róta taktfast
í einmanalegum sígarettustubbum
sem gulna í öskubakka
Gráta svo saman
yfir lágu launum
vitlausu stelpunnar
sem ber þeim kaffi
Svo efinn fari ekki að vitrast þeim í svefni.
(s. 7-8)