Myndskreytingar eftir höfund.
Um bókina:
Sylvek býr hjá ömmu sinni sem tuðar yfir því að ekkert gerist í Reykjavík – ekki miðað við iðandi mannlífið í Barselóna þar sem þau bjuggu áður. En svo fer allt af stað.
Einhver fer að myrða unga drengi í hverfinu. Um svipað leyti flytur dularfullur leigjandi með ófrýnilegan hund heim til Sylveks. Sá segist hata börn. Inn í söguna fléttast frægur rithöfundur, reffileg blaðakona, lögga sem er hrædd við blóð, hin ógurlegu steratröll og síðast en ekki síst Sjónvarp Stasímon þar sem stendur til að kortleggja lífið í Reykjavík fyrir raunveruleikasjónvarpsþátt sem á engan sinn líka.
Úr bókinni:
Fríblaðið, bíltúr, pitsa, bókasafnið … alltaf sami rúnturinn. Hvað var hann að bralla? Var hann að skipuleggja nýtt morð? Fann hann fórnarlömbin á bókasafninu? Í sundi? Eða var hann að láta lítið á sér bera í nokkra daga til þess eins að drepa tilviljunarkennt og af handahófi?
Svona braut ég heilann. Aldrei hefði mér dottið í hug að það væri svona tilbreytingarlaust að vera njósnari.
Á sama tíma voru Drengjamorðin endalaust í fréttum. Lýst var eftir drengjum sem komu svo í leitirnar sama dag, yfirleitt höfðu þeir bara gleymt að láta vita af sér. Grunsamlegir einstaklingar voru handteknir og þeim sleppt aftur. Lögreglan tók upp á þvíað auglýsa símanúmer sem fólk gat hringt í ef það sá eitthvað óvenjulegt. Ég velti því fyrir mér hvað eftir annað hvort ég ætti að slá til en gamalgróin andúð ömmu á löggum aftraði mér. Hún myndi aldrei fyrirgefa mér ef ég klagaði Manninn sem hataði börn í lögguna áður en ef ég hefði eitthvað almennilegt á hann.
Ég var orðinn hálf leiður á þessu öllu saman þegar dró allt í einu til tíðinda á föstudeginum.
(74-5)