Um bókina
Mandla er hrollvekja um ógnirnar sem steðja að okkur, bæði innan líkamans og utan hans. Hún sver sig í ætt við fyrri nóvellur Hildar Knútsdóttur, Myrkrið milli stjarnanna og Urðarhvarf.
Þegar grindhoruð steingrá læða gerir sig heimakomna á hjúkrunarheimili tekur öldrunarlæknirinn Eva henni fagnandi. Hún veit að rannsóknir sýna að gæludýr hafa góð áhrif á vistmenn slíkra stofnana og berst fyrir því að kötturinn fái að vera um kyrrt. En fljótlega tekur hún eftir því að allir sem læðan Mandla tekur ástfóstri við látast skömmu síðar, jafnvel þótt þeir hafi verið við góða heilsu örfáum dögum áður. Getur verið að kötturinn geti spáð fyrir um andlát fólks? Og verður Mandla bústnari og sældarlegri í hvert sinn sem heimilismaður er fluttur í líkhúsið?
Úr bókinni
„Hvað áttu við, Eva? Ertu að segja að kötturinn geti spáð fyrir um dauðann?“
Eva horfir á Hrafn saxa laukinn. Hann gerir það svo fallega. Gripið um hnífinn er öruggt og hreyfingarnar eru ákveðnar og hraðar. Hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Allir laukbitarnir eru jafn stórir. Hann hefði getað orðið frábær skurðlæknir, hefði hann haft áhuga á því.
Hún fær sér sopa af rauðvíni, það var fokdýrt, spænskt og heni finnst það ekki gott. Kannsi hún ætti bara að halda sig við þessi frönsku. Hún kyngir og segir síðan:
„Ég veit það ekki. En af hverju ekki? Dýr skynja alls konar sem við skynjum ekki. Þú veist að hundar geta fundið lyktina af krabbameini. Þeir geta fundið lyktina af sykurföllum og flogum áður en þau koma. Einhver lönd voru meira að segja búin að þjálfa hunda sem fundu lyktina af covid til að hafa á flugvöllum. Og kannski verður einhver breyting í líkamanum áður en við deyjum og kannski geta kettir skynjað hana einhvern veginn. Hvað veit ég.“
Hrafn lítur á hana með hnífinn á lofti.
„Og þá skríður hann upp í til þeirra? Til þess að ... hvað? Hughreysta þau á síðustu andartökum lífsins?“
Eva yppir öxlum.
„Ég veit það ekki, Hrafn. En nú er þetta búið að gerast þrisvar. Kötturinn fer inn til einhvers á heimilinu og nokkrum klukkutímum síðar er manneskjan dáin.“
Hrafn hellir fínt söxuðum lauknum út á heita pönnuna. Það fer samstundis að snarka í honum.
„Þannig að engill dauðans er bara fluttur inn til ykkar?“ spyr hann.
Það fer í tautar4nar á henni að hann orði þetta svona, eins og hann sé að gera lítið úrhenni. En áður en hún nær að verða almennilega pirruð lítur hann yfir öxlina og brosir svo fallega að henni hlýnar allri að innan Hann er að grínast.
Eva hristir höfuðið.
„Ég er ekki að segja það. Ég er bara að segja að þetta sé undarleg tilviljun, finnst þér það ekki?“
„Jú. Og þú veist hvað þú verður að gera.“
„Hvað?“
„Þú verður að fylgjast með kettinum og komast að því hvort hann geti í alvöru spáð fyrir um dauðann eða ekki. Taka saman tölfræðina.“
„Finnst þér það?“
„Auðvitað. Ímyndaðu þér bara hvað titillinn á fræðigreininni sem þú birtir síðan í The Lancet getur orðið flottur!“
„Þegiðu,“ segir Eva og hlær.
En Eva getur ekki hætt að hugsa um þetta. Þau setjast í nýja sófann eftir matinn og horfa á bíómynd. Og þegar myndinni lýkur er hún búin að taka ákvörðun. Hún ætlar að komast til botns í þessu máli. Það þýðir að það þarf að vakta þennan kött.
(s.30-32)