Um bókina
Embla fer í ferðalag á heilsuhæli í afskekktum dal við nyrstu strendur Íslands. Á leið þangað taka málin óvænta stefnu. Í faðmi fjallanna á Fagraskaga sækja á Emblu spurningar sem krefja hana um að leita aftur til upphafsins.
Úr bókinni
Þegar þokan hvolfdist yfir hana, í fyrstu einhvers konar ógreinanleg sigð sem þó dró tákn sitt í himinhvolfið eins og uppgufandi reikrák frá þotu hátt á lofti, þá var alltaf hætt við því að skýin fylgdu á eftir, söfnuðust síðan saman og þéttust þar til að lokum féll á niðamóska. Það var að einhverju leyti auðvelt að rekja ástæðurnar - þær lágu í svo augum uppi að það þurfti engan sálfræðing til að ýta á takkana og kafa í djúpið til að finna þær. Djúpið var hluti af henni og atburðirnir sem höfðu fært hana þangað lágu skýrir fyrir í minni hennar. Sálfræðitímar höfðu hjálpað til að losa aðeins um spennuna en enn stóð eftir spurningin um hvernig mætti uppræta kvíðann og einsemdina sem honum fylgdi. Atburðirnir yrðu ekki teknir aftur héðan í frá, hið eina sem úr var að ráða var viðbragðið og einhver - hingað til ófinnanleg - leið til að sættast við þá staðreynd að þeir höfðu átt sér stað. Henni varð hugsað til Gáska, æskuvinar síns, og þess sem fólkið á sveitabænum hafði gert þeim. Um leið og hún hvarf inn í þennan heim fann hún fyrir nærveru konunnar í móttökunni. Augu hennar lukust aftur en hún hélt áfram að sjá sig í speglinum. Spegillinn dýpkaði fyrir augum hennar og að lokum gekk hún inn í hann, á bak við glerið. Þannig leið henni, líkt og hún væri líkamlega stödd í þessum minningum. Komin á túnið við gamla sveitabæinn þar sem henni hafði verið fengin vist fyrir foreldralaus börn þegar hún var unglingur.
(s. 36-37)