Beint í efni

Myrkrið milli stjarnanna

Myrkrið milli stjarnanna
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Myrkrið milli stjarnanna er martraðakennd samtímasaga sem dregur lesendur inn í myrkustu kima Reykjavíkur. Iðunn vaknar alltaf þreytt á morgnana. Allir hafa ráð á reiðum höndum – læknirinn, sálfræðingurinn, vinkonurnar – en ekkert þeirra fær að heyra alla söguna. Hún segir engum frá leyndarmálunum sem hrannast upp og stigmagnast; frá myrkrinu sem er ólíkt öllu öðru myrkri. Iðunn segir engum frá henni. Hildur Knútsdóttir hefur skrifað skáldskap fyrir börn og fullorðna en er þekktust fyrir ungmennabækur sínar sem unnið hafa til fjölda verðlauna. Myrkrið milli stjarnanna er fyrsta hrollvekja hennar fyrir fullorðna.

Úr bókinni

Ég er þunn þegar ég vakna. En ég er ekki bara þunn. Ég er með strengi um allan líkamann. Mér líður eins og ég hafi verið að hjálpa einhverjum að flytja. 

  Ég staulast fram í eldhús og fæ mér stórt vatnsglas. Ég drekk það í einum teyg og fylli það aftur. Þegar ég skrúfa fyrir rek ég augun í að ég er ennþá með úrið á mér. 16543 skref.

  Ég stari á tölurnar. Ég leit á úrið á veitingastaðnum þar sem ég hitti Lindu og þær. Þá hafði ég gengið tæplega 8.000 skref. Það voru í mesta lagi 2.000 skref frá veitinastaðnum að barnum. Í mesta lagi. Og ég tók leigubíl heim.

  Ég fæ óþægilega tilfinningu í úlnliðinn. Eins og úrið sé lifandi viðbjóðsleg vera sem hafi sogað sig fasta við húðina á mér. Sníkjudýr, blóðsuga. Ég krafla í festinguna, reyni að losa það af mér. Úrið dettur í gólfið. Ég nudda á mér úlnliðinn, húðin undir úrinu er rök og heit. Þá tek ég eftir því hvað ég er skítug á fingrunum. Eitthvað brúnt hefur safnast í sorgarrendur undir nöglunum og við naglaböndin. Ég ber fingurna upp að nefinu. Það er ryðlykt af þeim.

  Ég skrúfa aftur frá krananum. Kreisti uppþvottalög á lófann. Vatnið verður bleikt þegar skíturinn blotnar. Það tekur langan tíma að þrífa hann allan af.

 

Hálftíma síðar fæ ég hugljómun. Getur verið að úrið sé ekki bilað? Getur verið að ég gangi í svefni? Það gæti útskýrt svo margt. Hvers vegna ég vakna aldrei úthvíld. Hvers vegna ég er með harðsperrur. Sofna ég kannski og fer svo bara aftur á fætur án þess að vita af því og ... hvað? Geng um gólf? Fram og til baka í herberginu mínu? Mörg þúsund skref?

  Ég fæ mér tvær Panodil, panta mér pítsu og byrja síðan að gúgla.

  Fjögur prósent fullorðinna ganga í svefni. Svefnganga gengur í ættir. Ég veit ekki til þess að neinn í fjölskyldunni gangi í svefni. En fjögur prósent. Það er töluvert.

  Fólk gengur í svefn með opin augu. En það sér ekki eins og í vöku. Svefngenglar halda oft að þeir séu staddir annars staðar en þeir eru í raun og veru. Flestir fara aftur upp í rúm af sjálfsdáðum og þegar þeir vakna muna þeir yfirleitt ekki atburði næturinnar.

  Það passar allt. Þetta hlýtur að vera málið. Mér er stórlega létt. Alveg þangað til ég rekst á rannsókn þar sem stendur:

  Svefnganga fullorðinna er mögulega alvarlegt ástand sem getur falið í sér ofbeldisfulla hegðun. 58% þátttakenda höfðu verið ofbeldisfullir að minnsta kosti einu sinni í svefni Þar af voru 17% sem höfðu slasast svo illa í svefni, eða slasað aðstandanda svo illa, að leita þurfti læknisaðstoðar. Meðal áverka voru marblettir, blóðnasir og beinbrot. Einn þátttakandi hafði brotið nokkur bein og hlotið alvarlega höfuðáverka eftir að hafa í svefni stokkið út um glugga á þriðju hæð.

  Það slær út á mér köldum svita og um leið fer hjartað að hamast. Eins gott að það sé ekki hægt að opna súðargluggann í svefnherberginu mínu upp á gátt Og í fyrsta skiptið síðan ég flutti hingað er ég þakklát fyrir að það séu engar svalir á íbúðinni. Ég renni aftur yfir textann Staldra við orðin: ofbeldisfull hegðun. Ég hef aldrei verið ofbeldisfull. Aldrei á ævinni. Ég beit aldrei neinn á leikskóla. Ég slóst aldrei við systur mína. Hún lamdi mig en ég sló aldrei á móti, ég fór bara að grenja og klagaði í mömmu.

  Þá man ég eftir blóðblettinum á hökunni. Hvaðan kom hann?

(s.43-45)

Fleira eftir sama höfund

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Vetrarfrí

Lesa meira
Urðarhvarf kápa

Urðarhvarf

Eik tilheyrir hópi af sjálfboðaliðum sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í öruggt skjól. Þegar þau frétta af læðu og kettlingum í steinhleðslu við Urðarhvarf er rokið af stað með fellibúr og hitamyndavél. En við Urðarhvarf birtist skepna sem Eik var búin að telja sjálfri sér trú um að hefði bara verið ímyndun.
Lesa meira

Spádómurinn

Lesa meira

Sláttur

Lesa meira