Beint í efni

Nakti vonbiðillinn

Nakti vonbiðillinn
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2012
Flokkur
Smáprósar

Um bókina:

Bjarni Bjarnason hefur frá unga aldri haldið draumadagbók. Í þessu kveri birtir hann 64 drauma úr safni sínu. Þetta er nýstárlegt form í íslensku samhengi en á sér hliðstæðu í verkum erlendra höfunda. Draumunum er raðað í tímaröð og höfundurinn leitast við að vera þeim trúr, án þess að bæta nokkru við eða leggja út af þeim. Textanum er þannig ætlað að veita innsýn í það flæði undirvitundarinnar sem listamenn hafa löngum nýtt sér sem hráefni við sköpun sína.

Úr Nakta vonbiðlinum:

Hverfisgötu 49, 7. mars 1994. Svarti svifkötturinn.

Í leiðindum mínum slæðist ég inn á Sólon Íslandus, kem auga á kunningja en kýs að vera einn. Augu gesta lýsa tómleika og óhamingju og eftir að hafa pantað kaffi halla ég mér fram á borðið með hönd undir kinn.

Fíkniefnalögreglan er að störfum. Rassíunni stjórnar þrekvaxin röggsöm mótorhjólalögga í fullum leðurskrúða. Margir eru handteknir eftir nýju kerfi, ættuðu úr National Geographic. Í tímaritinu má sjá að eiturlyfjunum er smyglað til landsins með rauðum fuglum, sem reynast við nánari eftirgrennslan vera flamingóar. Mér finnst þetta fáránlegt þar sem flamingóar lifa ekki á Íslandi, jafnvel ekki á Sólon Íslandus. Svo kemur á daginn að það eru ekki alltaf notaðir flamingóar við smygl nautnalyfjanna, heldur líka hverjir þeir „túristafuglar“ sem leið eiga á milli Íslands og álfanna beggja vegna.

Nú birtist, á yfirborðinu í kaffibollanum mínum, fræðsluþáttur um það hvernig svarti svifkötturinn, dýr sem er í útrýmingarhættu, er notaður við eiturlyfjasmygl af landanum.

Svarti svifkötturinn gerir sér bú í klettabeltum við strendur miðvestanverðar Evrópu. Hann er grimmt og tignarlegt dýr sem minnir á pardus, en er afskaplega blíður ef traust hans er unnið. Menn eru fengnir til að vinna traust hans, og síðan gert að strjúka honum ákaft, með eiturlyfin í lófunum. Þannig verður feldur malandi parduskattarins smámsaman mettaður lyfjadufti.

(29)

 

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Bernharður Núll

Lesa meira

Andlit (brot)

Lesa meira